Skip to main content
AldanVMF

Það helsta úr starfsemi Stapa lífeyrissjóðs

By November 23, 2018No Comments

Stapi lífeyrissjóður fer hér yfir það helsta í starfsemi sjóðsins í undangengnum mánuði.

Hér gefur að líta það helsta úr starfsemi Stapa í undangengnum mánuði
 
Eignavísitala Stapa
Eignavísitala Stapa fyrir nóvember var 114,43 og hækkaði um 1,1% milli mánaða. Krónan veiktist töluvert í mánuðinum (7% m.v. gengisvísitölu) sem að hafði jákvæð áhrif á afkomu erlendra eigna sjóðsins sem nema nú tæplega þriðjungi af heildareignum. Undanfarna 12 mánuði hefur eignavísitalan hækkað um 6,1% en á tímabilinu hafa erlend hlutabréf hafa hækkað mest, innlend skuldabréf hækka gróflega í takti við ávöxtun sjóðsins en innlend hlutabréf hafa lækkað.
Stapi vinnur nú að gerð fjárfestingastefnu fyrir árið 2019. Stefnan verður birt á heimasíðu sjóðsins í desember.

Sjóðfélagayfirlit
Stapi sendi í október virkum sjóðfélögum yfirlit vegna iðgjalda en þeir telja tæplega 19 þúsund um þessar mundir. Til þess að Stapi geti sent yfirlitin rafrænt þarf sjóðfélagi að óska sérstaklega eftir því á sjóðfélagavef Stapa. Sjóðurinn hefur unnið að því undanfarið að fækka pappírsyfirlitum af umhverfis- og kostnaðarsjónarmiðum og hvetur sjóðfélaga því til að afþakka heimsend yfirlit. Af tæplega 19 þúsund sjóðfélagayfirlitum sem send voru frá sjóðnum í sl. mánuði höfðu aðeins rúmlega þúsund afþakkað bréfpóst. Allir sjóðfélagar geta nálgast sjóðfélagayfirlit sín á sjóðfélagavef Stapa, hvort sem þeir hafa afþakkað heimsend yfirlit eða ekki.
Stapi brýnir fyrir sjóðfélögum að bera iðgjaldagreiðslur saman við launaseðla og tilkynna frávik til sjóðsins innan 60 daga frá dagsetningu yfirlitsins. Á nýjum sjóðfélagayfirlitum Stapa er einfalt að skða hlutfallstölu iðgjalds og mótframlags og bera þær saman við kjara- eða ráðningarsamning. Við bendum sjóðfélögum á að leita til viðkomandi stéttarfélags ef þeir eru óvissir um hvert mótframlagið á að vera.
Samhliða útsendingu sjóðfélagayfirlita hefur sjóðurinn birt auglýsingar í staðarmiðlum á starfsvæðinu þar sem m.a. er skorað á þá sem ekki hafa fengið sjóðfélagayfirlit að hafa samband við sjóðinn ef viðkomandi telur að vinnuveitandi hafi átt að skila til sjóðsins, sbr. auglýsingu hér.

 
Launagreiðendayfirlit
Ríflega þrjú þúsund launagreiðendayfirlit voru gerð aðgengileg á launagreiðendavef sjóðsins í október, en þau eru ekki send út á pappírsformi. Þeir rúmlega tvö þúsund launagreiðendur sem eru með skráð netfang hjá sjóðnum fengu tilkynningu í tölvupósti þegar yfirlitin voru kominn inn á launagreiðendavefinn auk þess sem minnt var á lokahækkun mótframlags.

Fréttabréf Stapa
Stapi útbýr fréttabréf fyrir sjóðfélaga að jafnaði tvisvar sinnum á ári og var seinna fréttabréf ársins gefið út í október, en það má nálgast hér. Að þessu sinni var fjallað um skiptingu eftirlaunaréttinda, skil á mótframlagi, sveigjanleg starfslok og sjóðfélagalán.

Séreign laus til útborgunar
Í lok október sendi Stapi sjóðfélögum sem eru 60 ára eða eldri upplýsingar um inneign í séreign sem er laus til útborgunar. Þetta mæltist vel fyrir þar sem margir þeirra sem áttu eldri iðgjöld voru ekki meðvitaðir um inneignina. Af þeim sem fengu framangreint erindi hafa tæplega 200 sjóðfélagar þegar sótt um útgreiðslu og fá sem nemur 46 milljónum króna greiddar út.

Flutningur skrifstofu Stapa í Neskaupstað
Stapi mun á næstu dögum flytja skrifstofu sína í Neskaupstað frá Egilsbraut 25 að Hafnarbraut 20 þar sem við munum deila húsnæði með Landsbankanum. Við flutningana breytist afgreiðslutími sjóðsins þar til samræmis við opnunartíma bankans. Opið verður alla virka daga frá kl. 12:00 til 15:00 en skrifstofa sjóðsins á svæðinu hefur fram til þessa verið lokuð í hádeginu. Vegna flutninganna verður skrifstofan lokuð 22.-23. nóvember. Engar breytingar verða á starfsmannahaldi. Sjóðurinn verður áfram með einn starfsmann í fullu starfi sem mun sinna iðgjaldaskráningu og símsvörun utan opnunartíma skrifstofunnar í Neskaupstað. Skrifstofa Stapa á svæðinu var á 2. hæð í lyftulausu húsnæði en verður eftir flutning á 1. hæð með góðu aðgengi fyrir hjólastóla. Flutningurinn verður kynntur nánar á heimasíðu sjóðsins og í staðarmiðlum á næstu dögum.

 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com