Skip to main content
AldanVMF

Sameiginleg baráttumál með öldruðum og öryrkjum

By January 14, 2019No Comments

Föstudagspistill Drífu Snædal, forseta ASÍ

Drífa Snædal, forseti ASÍ fjallaði um húsnæðismál, málefni aldraðra og öryrkja, og frumvarp að lögum um kjarahækkanir í vikulegum pistli hennar sem birtist á heimasíðu ASÍ síðastliðinn föstudag.

Vikan sem nú er að líða hefur einkennst af umræðum um húsnæðismál enda styttist í að samráðsnefnd skili niðurstöðum. Húsnæðismál eru eitt stærsta kjaramálið og til mikils að vinna að ná að snúa þeirri þróun við að markaðurinn hafi það í hendi sér hversu mikið er byggt, fyrir hverja og hver kostnaðurinn af húsnæði sé. Nú nýtum við vonandi tækifærið til að laga það sem betur má fara í almenna íbúðakerfinu. Lækkum byggingar- og vaxtakostnað og fjölgum góðum íbúðum á sæmilegu verði til að styðja við félagslegar lausnir. Þetta er eitt stærsta mannréttindamálið á Íslandi í dag. Það er löngu kominn tími til að húsnæðismarkaðurinn hirði ekki allar launahækkanir sem samið er um.

Á miðstjórnarfundi ASÍ á miðvikudaginn var töluvert rætt um stöðu eldri borgara, bæði félagslega og fjárhagslega. Í vikunni hef ég átt tvo fundi með fulltrúm samtaka þeirra. Þó margir hafi það sem betur fer ágætt á ævikvöldinu eru stórir hópar sem eru svo sannanlega ekki ofaldir á lífeyrinum sínum. Sérstaklega eru eldri borgarar á leigumarkaði í slæmri fjárhagsstöðu og allar lausnir í húsnæðismálum því mikið hagsmunamál fyrir þennan hóp. Til viðbótar má bæta við að besta kjarabótin fyrir láglaunafólk, aldraðra og öryrkja er breyting í átt að sanngjarnara skattkerfi þar sem því er markvisst beitt til að jafna kjörin. Heildarsamtök vinnandi fólks, aldraðra og öryrkja eiga þar ríka sameiginlega hagsmuni.

Að lokum get ég ekki látið hjá líða að minnast á frumvarp að lögum sem taka við af kjararáði en samkvæmt því er gert ráð fyrir því að ráðherra fái heimild til að hækka laun kjörinna fulltrúa strax í júlí á þessu ári, umfram þær hækkanir sem kjörnir fulltrúar hafa nú þegar fengið. Framúrkeyrsla kjararáðs umfram kjarasamninga frá 2015 hefur nú þegar kostað skattgreiðendur 1,3 milljarð króna. Mér dettur í hug ýmislegt sem hægt væri að gera fyrir þá peninga, til dæmis að hækka húsaleigubætur.

Samningaviðræður eru í fullum gangi og er fundað víða um borgina enda ótrúlegur fjöldi fólks sem kemur á einn eða annan hátt að samningsgerðinni. Næstu dagar og vikur munu ráða úrslitum um hvort og hvenær samningar nást. Allt hefur áhrif á þessum tímapunkti bæði til hins betra og til hins verra. Hvorki leiðaraskrif þar sem fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar er líkt við Trump né hótanir um að selja banka í ríkiseigu verða til þess að leysa kjaradeiluna, svo það sé sagt.

Góða helgi,
Drífa

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com