Alþýðusamband Íslands áréttar, af gefnu tilefni, að laun samkvæmt kjarasamningum hér á landi eru lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði. Það gildir einnig um útlendinga sem koma hingað til starfa og það gildir frá fyrsta starfsdegi.
Alþýðusamband Íslands áréttar, af gefnu tilefni, að laun samkvæmt kjarasamningum hér á landi eru lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði. Það gildir einnig um útlendinga sem koma hingað til starfa og það gildir frá fyrsta starfsdegi. Skiptir þá ekki máli hvort þeir starfa fyrir íslensk eða erlendi fyrirtæki. Þau fyrirtæki sem ekki virða þennan rétt starfsmanna sinna eru brotleg við íslensk lög og stunda launaþjófnað gagnvart starfsmönnum sínum. Slíkt verður aldrei liðið.
Ítrekað heyrist því haldið fram að erlent launafólk sem kemur til starfa hér á landi eigi að þurfa, a.m.k. tímabundið, að sætta sig við önnur og lakari laun og önnur starfskjör en gilda fyrir aðra á íslenskum vinnumarkaði. Í því samhengi er m.a. gjarnan vísað í „10 daga regluna“ eða „183 daga regluna“. Staðreyndin er sú að engar slíkar „reglur“ eru til sem veita atvinnurekendum rétt til að hlunnfara starfsmenn sína, þ.m.t. erlenda rútubílstjóra, fararstjóra og byggingamenn sem starfa tímabundið hér á landi. Sama gildir um sjálfboðaliða og starfsnema sem nýttir eru í efnahagslegri starfsemi.