Þær fiskafurðir sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á 20. maí sl. hafa hækkað töluvert í verði frá sambærilegri könnun sem verðlagseftirlitið gerði fyrir ári síðan eða 2. júní 2014. Algengt er að sjá hækkun um 4-10% frá því í fyrra. Til hliðsjónar má benda á að verð á fiski hefur hækkað um 8% í vísitölu neysluverðs á þessu tímabili.
Þær fiskafurðir sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á 20. maí sl. hafa hækkað töluvert í verði frá sambærilegri könnun sem verðlagseftirlitið gerði fyrir ári síðan eða 2. júní 2014. Algengt er að sjá hækkun um 4-10% frá því í fyrra. Til hliðsjónar má benda á að verð á fiski hefur hækkað um 8% í vísitölu neysluverðs á þessu tímabili.
Af þeim 15 fiskafurðum sem bornar eru saman kemur í ljós að verð hækkaði mest um 10% að meðaltali á plokkfiski, meðalverðið var í júní 2014 1.523 kr./kg. en er nú 1.671 kr./kg. Einnig má nefna að ýsuhakk hefur hækkað að meðaltali um 9%, meðalverðið í fyrra var 1.432 kr./kg. en er nú 1.559 kr./kg.
Minnsta hækkunin er á rauðsprettuflökum sem hafa aðeins hækkað um 1% á milli mælinga, eða úr 1.708 kr./kg. í 1.730 kr./kg.
Af einstökum verslunum í samanburðinum má nefna að oftast er sama verð og í fyrra hjá Fiskbúðinni Hafrúnu eða í 7 af 9 tilvikum, hjá Ship O Hoj í 6 af 8 tilvikum og hjá Fiskbúðinni Sundlaugavegi í 6 af 12 tilvikum. Verslanirnar Fisk kompaní, Fiskbúðin Fiskás, Fiskbúðin Hófgerði og Hagkaup hækkuðu meira en aðrar verslanir eða um og yfir 10%.
Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miðast við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ frá 2.6.2014 og 20.5.2015. Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í versluninni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara.
Sjá nánar samanburð í töflu á heimasíðu ASÍ.
Samanburðurinn nær til eftirtalinna verslana: Fiskbúðinni Sundlaugavegi, Þinni verslun Seljabraut, Fisk kompaní Akureyri, Fiskbúðinni Hafrúnu Skipholti, Fiskbúðinni Fiskás Hellu, Samkaupum Úrval Hafnarfirði, Nettó Granda, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Fiskbúðinni Trönuhrauni, Ship O Hoj Reykjanesbæ, Litlu Fiskbúðinni Miðvangi, Hafinu fiskverslun Hlíðasmára, Nóatúni Háaleitisbraut, Fiskbúð Hólmgeirs Þönglabakka, Gallerý fisk Nethyl, Fiskbúðinni Hófgerði, Fiskbúð Sjávarfangs Ísafirði, Fiskbúðinni Mos Mosfellsbæ, Fiskbúð Siglufjarðar og Hagkaupum Kringlunni.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.