Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám leikskóla og fæðis hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1. febrúar 2015 til 1. janúar 2016. Næstum öll sveitarfélögin hafa hækkað gjaldskrána, nema Seltjarnarneskaupstaður sem hefur lækkað hana töluvert.
Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám leikskóla og fæðis hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1. febrúar 2015 til 1. janúar 2016. Næstum öll sveitarfélögin hafa hækkað gjaldskrána, nema Seltjarnarneskaupstaður sem hefur lækkað hana töluvert. Fyrir átta tíma með fæði nemur lækkunin 19% og fyrir forgangshópa er lækkunin 17,6%.
Mikill verðmunur á almennri gjaldskrá
Mikill verðmunur er á hæstu og lægstu gjaldskrá sveitarfélaganna fyrir 8 tíma vistun ásamt fæði. Hæsta gjaldið fyrir þessa þjónustu er 37.570 kr. hjá Garðabæ en lægst á 25.280 kr. hjá Reykjavíkurborg sem er 12.290 kr. verðmunur á mánuði eða 49%.
Mesta gjaldskráhækkunin var 5,3% hjá Sveitarfélaginu Skagafirði úr 32.597 kr. í 34.327 kr. eða um 1.730 kr. á mánuði og um 5,1% hjá Vestmannaeyjabæ úr 34.305 kr. í 36.068 kr., um 4,5% hjá Kópavogsbæ, um 4% hjá Akureyrarkaupstað og milli 3-4% hjá Garðabæ, Fljótdalshéraði, Akraneskaupstað, Fjarðarbyggð og Árborg. Hækkunin var minni hjá Ísafjarðarbæ, Mosfellsbæ, Reykjanesbæ, Hafnarfjarðarkaupstað og Reykjavíkurborg eða um 1%.
Seltjarnarneskaupstaður er eina sveitarfélagið sem hefur lækkað gjaldskrána á milli ára en 2015 kostaði mánuðurinn 31.479 kr. en nú 25.495 kr. sem er 5.984 kr. lækkun eða 19%, en það gera 65.824 kr. m.v. 11 mánuði á ári.
Níundi tíminn dýrari
Níundi tíminn er hjá flestum sveitarfélögunum með annað tímagjald og er oft dýrari en hinir átta. Seltjarnarneskaupstaður er eina sveitarfélagið sem hefur lækkað gjaldskránna á milli ára eða úr 35.975 kr. í 28.864 kr. sem er lækkun um 7.110 kr. eða 19,8%. Hæsta gjaldið fyrir 9 tíma vistun er hjá Fljótsdalshéraði en þar kostar mánuðurinn 46.388 kr. en lægsta gjaldið er hjá Seltjarnarneskaupstað á 28.864 kr. sem er 17.524 kr. verðmunur á mánuði eða 61%.
Mesta hækkunin á milli ára er 12% hjá Fjarðarbyggð, um 5,2-5,4% hjá Vestmannaeyjabæ, Mosfellsbæ og Sveitarfélaginu Skagafirði. Hækkunin er á bilinu 3,2-4,5% hjá Fljótdalshéraði, Garðabæ, Kópavogskaupstað, Árborg og Akraneskaupstað. Hafnarfjarðarkaupstaður, Reykjanesbær, Ísafjarðarbær og Reykjavíkurborg hafa hækkað minna eða um 1%. Akureyri er eina sveitarfélagið í samanburðinum sem býður ekki upp á vistun í níu klukkustundir.
Forgangshópar
Allt að 83% verðmunur er á hæsta og lægsta mánaðargjaldi fyrir forgangshópa í 8 tíma vistun ásamt fæði, en lægsta gjaldið fyrir þessa þjónustu greiða foreldrar í Reykjavík 15.360 kr. Eins og áður hefur komið fram lækkaði Seltjarnarneskaupstaður gjaldskrána og nemur lækkunin fyrir forgangshópa 17,6%. Hæsta gjaldið greiða foreldrar í Vestmannaeyjabæ 28.124 kr. sem er 12.764 kr. verðmunur.
Systkinaafsláttur er mjög misjafn milli sveitarfélaga, frá 25-75% fyrir annað barn og 50-100% fyrir það þriðja, en aðeins er veittur afsláttur af vistunargjaldi en ekki fæði.
Nánari upplýsingar um verð á dagvistun má sjá á heimasíðu ASÍ.