Síðastliðinn miðvikudag var gerð verðkönnun í samstarfi við Verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands (ASÍ) þar sem kannað var verð í helstu matvöruverslunum í Skagafirði.
Skagfirðingabúð var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á svæðinu miðvikudaginn 18. maí. Skagfirðingabúð var með lægsta verðið í 59 tilvikum og Hlíðarkaup í 52. Hæsta verðið var oftast að finna í Hlíðarkaupum eða í 47 tilvikum og Skagfirðingabúð í 41 tilviki. Mestur verðmunur á verði vöru í könnuninni allt að 81% en oftast var undir fjórðungs verðmunur. Í þriðjungi tilvika var sama verð hjá verslunum KS á þeim vörum sem til voru í öllum verslunum.
Af þeim 128 vörutegundum sem skoðaðar voru, voru flestar fáanlegar í Skagfirðingabúð eða 124 og Hlíðarkaup átti 118. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá KS Hofsós eða 86 af 128 og KS Varmahlíð átti til 93.
Oftast undir 25% verðmunur
Af þeim vörum sem skoðaðar voru var mestur verðmunur á engiferrót, eða 81%. Var hún dýrust á 499 kr. hjá Skagfirðingabúð og KS Hofsós en ódýrust á 275 kr. hjá KS Varmahlíð sem er 224 kr. verðmunur. Einnig var mikill verðmunur á Ajax triple action rúðuúði sem var ódýrastur á 529 kr. hjá Skagfirðingabúð og KS Hofsósi og dýrastur hjá Hlíðarkaupum sem er 32% verðmunur. Einnig var mikill verðmunur á Egils Eplaþykkni 1 l. sem var ódýrast á 479 kr. hjá verslunum KS en dýrast á 579 kr. í Hlíðarkaupum sem er 21% verðmunur.
Af öðrum vörum má nefna að frosin lambahryggur var ódýrastur á 1.885 kr./kg. hjá Hlíðarkaupum en dýrastur á 2.098 kr./kg. hjá KS Varmahlíð og Skagfirðingabúð sem er 213 kr. verðmunur eða 11%. Cheerios var ódýrast á 1.117 kr./kg. hjá Hlíðarkaupum en dýrast á 1.349 kr. hjá verslunum KS sem er 21% verðmunur.
Sjá nánari verðsamanburð í töflum hér og hér, grænn litur sýnir lægsta verð og rauður litur hæsta verð.
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: KS Varmahlíð, Skagfirðingabúð, KS Hofsósi og Hlíðarkaupum.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.