Niðurstaða forsendunefndar ASÍ og SA vegna endurskoðunar kjarasamninga er að tvær af þremur forsendum standast en ein gerir það ekki. Sú snýst um launaþróun annarra hópa. Samninganefnd ASÍ hefur engu að síður, m.a. að undangengnum fundarhöldum í baklandi stéttarfélaganna, ákveðið að segja ekki upp núgildandi kjarasamningi.
Forsendurnar sem voru til skoðunar eru þessar:
- Fjármögnun stjórnvalda á stofnframlögum ríkisins til 2.300 almennra íbúða á árunum 2016-2019 eða að hámarki 600 á ári.
- Mat á því hvort sú launastefna og þær launahækkanir sem í samningnum fólust hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra á vinnumarkaði (32% hækkun frá nóv 2013-des 2018).
- Aukinn kaupmáttur á samningstímanum.
Ljóst er að liðir 1 og 3 standast skoðun en liður 2 er forsendubrestur eins og áður segir. Er það mat samninganefndar ASÍ að ákveðin verðmæti séu í núgildandi samningi (4,5% almenn launahækkun 1. maí og hækkun á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð um1,5% þann 1. júlí) auk þess sem lítill áhugi er á því að almenni markaðurinn fari fyrstur í þeim kjaraviðræðum sem framundan eru, en mörg opinberu félaganna eru með lausa samninga síðar á þessu ári.
Niðurstaða forsendunefndar ASÍ og SA vegna endurskoðunar kjarasamninga í febrúar 2017
Yfirlýsing samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ og framkvæmdastjórnar SA 28. febrúar 2017