Í upphafi árs voru tollar felldir niður af fatnaði og skóm. Samkvæmt mati Fjármála- og efnahagsráðuneytis átti afnámið að skila að meðaltali 13% verðlækkun til neytenda á þeim vörum sem áður báru tolla.
Í upphafi árs voru tollar felldir niður af fatnaði og skóm. Samkvæmt mati Fjármála- og efnahagsráðuneytis átti afnámið að skila að meðaltali 13% verðlækkun til neytenda á þeim vörum sem áður báru tolla. Áætlað var að um 60% vara í vöruflokknum bæru toll fyrir breytingarnar. Því má áætla að afnám tolla af fötum og skóm ætti að skila um 7,8% lækkun á fötum og skóm í vísitölu neysluverðs.
Í línuriti á heimasíðu ASÍ má sjá hvernig verð á fatnaði og skóm hefur þróast samkvæmt vísitölu neysluverðs frá því í upphafi árs 2014 þar til í apríl 2016. Eins og sjá má eru árstíðarsveiflur í verði á fötum og skóm verulegar í kringum sumar- og vetrarútsölur. Þegar vísitalan er skoðuð nú í apríl m.v. lok árs 2015 má sjá að hún hefur aðeins lækkað um 4% sem er allt of lítið miðað við áætlun verðlagseftirlitsins.
Eins og staðan er núna á vísitölunni má sjá að verslanirnar hafa hækkað verð aftur eftir útsölur og það töluvert meira en gera mátti ráð fyrir. Samkvæmt útreikningum verðlagseftirlitsins hefði vísitalan átt að enda í um 100 og vera því á sama stað og í janúar 2014.
Til viðbótar við afnám tolla hefur gengi krónunnar styrkst undanfarið sem hefði átt að ýta undir enn frekari lækkun á fötum og skóm sem eru að mestu leyti innfluttar vörur. Þess vegna er niðurstaða verðlagseftirlitsins sú að verslanir hafa alls ekki skilað afnáminu að fullu.
Verðlagseftirlitið mun halda áfram að fylgjast með þróun verðlags til að sjá hvort að afnáminu verði skilað að fullu til neytenda.