Samfélög heimsins takast nú á við fordæmalausa heilbrigðisvá og þau gríðarlegu efnahagsáhrif sem henni fylgja en efnahagsleg og samfélagsleg áhrif Covid-19 eru um margt ólík fyrri samdráttarskeiðum.
Samfélög heimsins takast nú á við fordæmalausa heilbrigðisvá og þau gríðarlegu efnahagsáhrif sem henni fylgja. Efnahagsleg og samfélagsleg áhrif Covid-19 eru um margt ólík fyrri samdráttarskeiðum. Viðspyrna í efnahagslífinu er háð getu til að ná böndum á útbreiðslu Covid-19 og þar með tryggja að atvinnulíf og daglegt líf geti færst í eðlilegar skorður.
Hagdeild ASÍ setti fram slíkar sviðsmyndir fyrir miðstjórn sambandsins í síðasta mánuði. Grunnsviðsmynd byggði á uppfærðri haustspá sambandsins og voru í kjölfarið skoðuð áhrif af nýjum forsendum um þróun ólíkra hagvísa t.d. fjölda ferðamanna, þróun ráðstöfunartekna, gengisþróun, olíuverð, vexti og atvinnuleysi. Sviðsmyndir bentu til þess að samdráttur í vergri landsframleiðslu gæti numið 5-8% á þessu ári.
Mestu og víðtækustu áhrifin á heimilin birtast í áður óþekktri aukningu atvinnuleysis og miklum fjölda fólks sem þurft hefur að taka á sig lækkun starfshlutfalls með tilheyrandi tekjufalli og afkomuvanda. Atvinnuleysi eykst og ekki ólíklegt að það geti numið á bilinu 7-9% að jafnaði á þessu ári en það merkir að líkur eru á að atvinnuleysi á ársgrundvelli verði hærra en þegar mest var í hruninu. Sviðsmyndir benda ekki til þess að mikil hætta sé á verðbólguskoti. Verðhækkanir á neysluvörum eru ekki ólíklegar, eins og t.d. innfluttri matvöru, en stórir liðir í útgjöldum heimilanna eins og húsnæði og eldsneyti halda aftur af verðbólguþrýstingi.
Greiðsluvandi vegna tekjumissis er mesta hættan sem steðjar að fjárhag heimilanna við núverandi aðstæður þegar fjöldi fólks er án atvinnu að fullu eða hluta og tekjur margra dragast saman. Húsnæðiseigendur standa almennt vel að vígi eftir tímabil hóflegrar verðbólgu, vaxtalækkana og hækkana á húsnæðisverði. Húsnæðiseigendur sem verða fyrir tekjutapi geta frestað greiðslum í 3-12 mánuði. Leigjendur eru margir í viðkvæmri stöðu og hafa mun síður notið hagstæðari kjara á húsnæðismarkaði á undanförnum árum óg bjóðast síður úrræði til að fresta leigugreiðslum. Tekjulág heimili eru auk þess líklegri til að vera á leigumarkaði og leigjendur hafa að jafnaði mun þyngri húsnæðiskostnað en þeir sem búa í eigin húsnæði.
Brýn nauðsyn er á að hækka húsaleigubætur til að styðja við leigjendur í lág- og millitekjuhópum og tryggja þarf að greiðsluvandi vegna tímabundins tekjumissis ógni ekki húsnæðisöryggi fólks. Nauðsynlegt er að lántakendur og leigusalar sýni sveigjanleika m.a. með frystingum, skilmálabreytingum og greiðsludreifingu til að aðstoða heimili í greiðsluerfiðleikum. Fylgjast þarf náið með stöðu heimilanna og útfæra leiðir til að styðja við þá hópa sem glíma við afkomuvanda og íþyngjandi húsnæðiskostnað. Til að draga úr líkum á fjárhagserfiðleikum þeirra heimila sem verða fyrir atvinnumissi er aðkallandi að hækka atvinnuleysisbætur og lengja tímabil tekjutengingar. Aðgerðir stjórnvalda nú eiga að miða að því að tryggja afkomu og húsnæðisöryggi fólks, en hvoru tveggja styður við skjóta endurreisn íslensks efnahagslífs.