Skip to main content

Stjórn ASÍ-UNG harmar að Fæðingarorlofssjóði sé ekki tryggt nægilegt fjármagn til þess að sjóðurinn geti staðið undir hlutverki sínu. Jafnframt lýsir stjórnin áhyggjum vegna vaxandi fjölda ungs fólks án atvinnu án réttar á bótum. Ályktun ASÍ – Ung, sem fjallar um þessi mál og fleiri, er í heild hér á eftir.

ASÍ-UNG – ályktun um fjárlögin 2012


Stjórn ASÍ-UNG harmar að Fæðingarorlofssjóði sé ekki tryggt nægilegt fjármagn til þess að sjóðurinn geti staðið undir hlutverki sínu. Hámarksgreiðslur úr sjóðnum hafa verið skertar um tæp 45% frá árinu 2008 og hefur niðurskurðurinn hvergi verið meiri í velferðarkerfinu. Afleiðingin er sú að færri feður fara nú í fæðingarorlof. Stjórnin bendir á að sjóðnum er ætlað að tryggja foreldrum sem besta möguleika til samveru með börnum sínum á fyrstu æviárum þeirra. Sjóðurinn hefur reynst vel við að draga úr kynbundnum launamun. Verði skerðingar liðinna missera ekki dregnar til baka er hætta á því að sjóðurinn glati hlutverki sínu.


Stjórn ASÍ-UNG fagnar átakinu Nám er vinnandi vegur sem tryggja á öllum undir 25 ára aldri og um 1.000 atvinnuleitendum skólavist. Þetta er mikilvægt samstarfsverkefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og mun ef vel tekst til gjörbreyta stöðu margra ungra atvinnuleitenda. Stjórn ASÍ-UNG fagnar því einnig að framfærslulán LÍN hækki.


Stjórn ASÍ-UNG lýsir yfir þungum áhyggjum af vaxandi fjölda ungs fólks sem er án atvinnu en á ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Þessi hópur lendir oft á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Þetta er óviðunandi ástand og grípa þarf til aðgerða sem í senn tryggja framfærslu þessa hóps og virkni hans í samfélaginu. Stjórn ASÍ-UNG mótmælir harðlega þeim áformum að fella einstaklinga tímabundið af atvinnuleysisbótum í þrjá mánuði.


Stjórn ASÍ–UNG bendir á að húsaleigubætur hafa ekki hækkað þrátt fyrir að húsaleiga hafi hækkað mikið. Á sama tíma hafa vaxtabætur og annar stuðningur við þá sem eru að kaupa húsnæði hækkað verulega. Auka þarf framboð á leiguhúsnæði fyrir ungt fólk og draga úr tekjutengingu til að tryggja ungu launafólki ásættanlegan húsnæðisstuðning.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com