Drífa Snædal, forseti ASÍ, hefur í nógu að snúast eins og fram kemur í föstudagspistli hennar í dag.
Það er sannkölluð gósentíð í grasrótarstarfi verkalýðshreyfingarinnar um þessar mundir. Þing landssambands Verslunarmanna stendur nú yfir á Akureyri og Starfsgreinasambandið, landssamband verkafólks, heldur sitt þing í næstu viku. Að auki hef ég haft ánægju af að hitta félagsmenn Einingar-Iðju á Akureyri og Eflingar í Reyjavík í vikunni. Formannafundur Alþýðusambandsins fór svo fram á miðvikudaginn en þar var tekin staðan í þeim fjölmörgu verkefnum sem kjarasamningarnir frá því í vor fólu okkur. Samtals eru þetta hundruð fulltrúa, trúnaðarmanna á vinnustöðum, almennra félagsmanna og kjörinna fulltrúa sem eru í stöðugu og lifandi samtali um hreyfinguna okkar, brýnustu úrlausnarefnin og framtíðarsýn. Hjartsláttur fjöldahreyfingar vinnandi fólks er nánast áþreifanlegur í vikum eins og þessari.
Ég hef tekið þátt í mjög fjörugum umræðum um húsnæðismál, fengið hörmungarsögur frá fólki en líka fallegar sögur um stórkostlega aukin lífsgæði þar sem fólk fer úr ómögulegu, dýru og þröngu húsnæði í skjól leiguíbúða reknum af hreyfingunni sjálfri í gegnum Bjarg íbúðafélag. Það er fátt sem eykur lífsgæði eins og úrlausn húsnæðismála. Þá erum við ekki bara að tala um fólkið sjálft sem kemst í öruggt og viðunandi húsnæði heldur líka foreldra sem losna við börnin að heiman og þau lífsgæði að vita af afkomendum í öruggu skjóli.
Stytting vinnuvikunnar hefur líka verið mjög til umfjöllunar í samhengi við þær kjaraviðræður sem nú standa yfir á opinbera vinnumarkaðnum. Ég er þess fullviss að við séum lögð af stað í vegferð þar sem krafan um styttri vinnuviku verður sífellt háværari. Þau sem hafa reynt á eigin skinni hvað til þess að gera lítil stytting gefur mikil gæði eru heitustu talsmenn þessa verkefnis. Það verður spennandi að fylgjast með auknum þunga í umræðunni eftir því sem samningar um styttingu á almenna vinnumarkaðnum komast til framkvæmda og vonandi verða tekin góð skref í þessa átt í opinberu samningunum líka. Undiraldan er sterk og fer vaxandi.
Njótið helgarinnar,
Drífa