Skip to main content

Starfsgreinasamband Íslands hélt formannafund í vikunni. Þá voru liðin 10 ár frá stofnun Starfsgreinasambands Íslands og voru því gerð nokkur skil á fundinum og setningarávarpi formanns SGS, Kristjáns Gunnarssonar, á fundinum. Ávarp Kristjáns fer hér á eftir.

Góðir félagar!

 

Nú eru liðin 10 ár frá því Starfsgreinasamband Íslands var stofnað. Hver hefði trúað því að það sé ekki lengra síðan? Stundum finnst mér sem það hafi alltaf verið til staðar. Ástæðan er líklega sú, að Starfsgreinasambandið byggir á gömlum merg og traustum grunni.

Þegar Starfsgreinasambandið  var stofnað fyrir 10 árum  af Verkamannasambandi Íslands, Þjónustusambandi Íslands og Landssambandi iðnverkafólks, voru ýmsar blikur á lofti. Innan Verkamannasambandsins var nokkur óeining, sem hamlaði starfinu þá og það var einmitt þess vegna sem sátt og samráð voru rauður þráður í undirbúningi að stofnun Starfsgreinasambandsins og í allri umræðu á stofnfundinum á Hótel Sögu, þeim sögustað.

 

Í ávarpi á stofnfundinum sagði Halldór Björnsson, fulltrúi í viðræðunefndinni og fyrsti formaður Starfsgreinasambandsins:  „Við ætlum okkur því að reyna að sjá út úr því ástandi sem ríkt hefur í hreyfingunni og brjóta nýjar leiðir að þeim markmiðum sem við eigum sameiginleg. Samstarf við aðra krefst hæfilegs sveigjanleika, tillitssemi og umburðarlyndis. Friðsöm sambúð á stóru heimili er list hins mögulega. Þá list þurfum við að temja okkur og við skulum byrja hér í dag.“

 

Nú, áratug síðar, er eðlilegt að líta til baka og velta því fyrir sér hvort þetta hafi gengið eftir. Án þess að ég ætli að halda því fram að aldrei hafi gustað um okkur og milli okkar í Starfsgreinasambandinu, þá ætla ég að leyfa mér að fullyrða að sambandið hafi náð miklum árangri í starfi sínu.

 

Eitt af meginmarkmiðum var að stækka einingarnar og efla þær. Það hefur sannarlega tekist, aðildarfélög hafa sameinast úr 50 félögum í 19 og i Starfsgreinasambandinu eru nokkur af sterkustu og öflugstu verkalýðsfélögum landsins.

 

Skipulagsmálin þurfa að vera stöðugt í umræðunni og ef þær skipulagsbreytingar sem nú eru á döfinni innan ASÍ, ná fram að ganga þurfum við í Starfsgreinasambandinu að ígrunda framhaldið og það hlutverk sem Starfsgreinasambandið kemur til með að hafa í breyttu landslagi við úrlausn þeirra verkefna sem eru á borði þess í dag.

 

Eitt er víst að ýmis atvinnugreinatengd verkefni munu fá aukið vægi í framtíðinni og í því liggja tækifæri fyrir til þess að styrkja tengslin milli félaganna. Ég geri ráð fyrir að sú umræða verði tekin á næsta þingi sambandins að ári.

 

Sitthvað hefur á dagana drifið á þessum áratug sem liðinn er frá stofnun Starfsgreinasambandsins. Og í því riti sem við dreifum til ykkar í dag er farið yfir nokkur af viðfangsefnum sambandsins á þessum tíu árum, án þess að það sé gert með kerfisbundnum hætti, eða í tímaröð – og ég ætla ekki að fara að endursegja söguna hér úr þessu ræðupúlti í dag, þið þekkið þá sögu flest öll.

 

Góðir félagar!

 

Það er tvísýnt ástand í samfélaginu og ýmsar blikur á lofti. Framtíðin er enn óvissari en oftast áður. Framundan eru kjarasamningar – líklega þeir erfiðustu sem flest okkar hafa tekið þátt í. Stjórmálaástandið er óstöðugt og við vitum stundum ekki hvort ríkisstjórnin í landinu nýtur þingmeirihluta til að koma málum í gegn.

 

Við erum brennd af reynslunni af Stöðugleikasáttmálanum. Við vitum með öðrum orðum ekki hvort við getum treyst á aðkomu ríkisstjórnarinnar að þeim kjarasamningum sem framundan eru, –  hvort ríkisstjórnin komi yfirhöfuð í gegn þeim málum sem þarf að koma í gegn um þingið og varðar okkar félagsmenn.

 

Við höfum fengið Svan Kristjánsson, prófessor hingað til okkar til að ræða stjórnmálaástandið og horfurnar framundan og við höfum líka eins og oftast áður fengið hagfræðing ASÍ, Ólaf Darra til að teikna upp fyrir okkur stöðuna í efnahags- og kjaramálunum.

 

Fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi er vissulega kreppu- og niðurskurðarfrumvarp.  Við í Starfsgreinasambandinu erum vel meðvituð um að niðurskurðar er þörf í ríkisrekstrinum en við hljótum að hafna niðurskurði í velferðarkerfinu sem bitnar á öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Það verður að tryggja öfluga nærþjónustu heilbrigðisstofnana í heimabyggð m.a ungbarnaeftirlt, og öldrunarþjónustu og aðgengi að sérfræðiþjónustu lækna og sjúkarhúsum  í hverjum landsfjórðungi.

 

Heilbrigðisþjónustan þarf að vera skilvirk og hagkvæm og þess vegna verður umræðan um sparnað í kerfinu að taka mið af ofangreindum sjónarmiðum til lengri tíma litið. Hvers konar fljótræði er ekki til þess fallið að skila árangri eins og virðist vera raunin í fram komnum niðurskurðartillögum frumvarpsins.

 

Góðir félagar!

 

Markmið komandi kjarasamninga hlýtur að vera að stöðva svo fljótt sem verða má þá kjara- og kaupmáttarskerðingu sem orðið hefur undanfarin tvö ár og endurreisa kaupmáttinn að nýju. Til þess að svo megi verða þarf að auka atvinnustigið með öllum tiltækum ráðum og treysta stöðugleika í stjórnmálum þannig að traust verði endurheimt milli þings og þjóðar.

 

Við vitum að það er borð fyrir báru í fiskinum meðan aðrar greinar standa höllum fæti, ríkið er á kúpunni og flest sveitarfélögin. Þess vegna verður að auka atvinnustigið með öllum tiltækum ráðum, en það verður ekki gert nema með því að endurheimta  traust milli þings og þjóðar.

 

Ríkisstjórnin verður að hafa samráð við okkur í verkalýðshreyfingunni og taka mark á okkar sjónarmiðum.

 

Taka verður á vanda þeirra heimila sem eru í mestum vanda en það verður ekki gert með vanhugsuðum hugmyndum um almenna lækkun skulda. Það yrði aðför að lífeyrissparnaði og eftirlaunum verkafólks og á það getum við ekki fallist. Við styðjum hins vegar aðrar leiðir til að koma til móts við fólk í greiðsluvanda og leggjum áherslu á  að aðstoða sérstaklega atvinnulaust fólk í vanda, þannig að það geti búið í húsnæði sem hæfir  fjölskyldustærð viðkomandi einstaklinga.

 

Að að þeirri umræðu erum við í Starfsgreinasambandinu tilbúin að koma, með félögum okkar innan ASÍ, hvenær sem er.

 

Góðir félagar

 

Grundvallarforsenda fyrir því að við náum árangri í komandi kjaraviðræðunum og yfirleitt starfi okkar á næstu misserum, er að við höfum í heiðri þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar við stofnun Starfsgreinasambandsins fyrir réttum 10 árum, samstarf með sveigjanleika, tillitssemi og umburðarlyndi. Þá munum við koma standandi niður eins og kötturinn, svo vitnað sé í viðtalið við Halldór Björnsson í afmælisriti sambandsins.

 

Ég lýsi þennan formannafund settan.
Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com