Miklar verðhækkanir hafa orðið á bílatryggingum undanfarin ár en á tímabilinu 2014-2018 (apríl-apríl) hafa þær hækkað um 24% á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 7,38% og er þetta því um 16,5% hækkun umfram almennar verðlagshækkanir. Ýmsir ytri áhrifaþættir eru þó hagstæðir fyrir tryggingafélögin eins og miklar verðlækkanir á bílum (-13%) og varahlutum (-21%) auk þess sem umferðaslysum fer fækkandi.
Miklar verðhækkanir hafa orðið á bílatryggingum undanfarin ár en á tímabilinu 2014-2018 (apríl-apríl) hafa þær hækkað um 24% á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 7,38% og er þetta því um 16,5% hækkun umfram almennar verðlagshækkanir. Ýmsir ytri áhrifaþættir eru þó hagstæðir fyrir tryggingafélögin eins og miklar verðlækkanir á bílum (-13%) og varahlutum (-21%) auk þess sem umferðaslysum fer fækkandi. Þrátt fyrir þetta sjá tryggingafélögin ástæðu til að hækka verð á bílatryggingum en greiða á sama tíma út milljarða í arðgreiðslur.
Verð á bílum og varahlutum lækkar en verð á bílatryggingum hækkar
Styrking á gengi krónunnar hefur leitt til þess að verð á bílum hefur lækkað um 13,28% og verð á varahlutum um 21,93% frá árinu 2014 en verð á bílum og varahlutum eru meðal þeirra þátta sem hafa áhrif á verð bílatrygginga. Það vekur því athygli hversu hratt tryggingar hafa hækkað á undanförnum árum miðað við þróun þessara áhrifarþátta.
Bílslysum hefur hlutfallslega fækkað
Á síðustu árum hefur bílum í umferð fjölgað töluvert eða um 19,3% á árunum 2013-2017 og hefur umferð þar af leiðandi þyngst. Eins og má sjá á grafinu hefur slysum fjölgað lítillega síðustu ár en ef horft er lengra aftur má sjá að slys eru færri í dag en 2004-2007 og eru þau svipað mörg í dag og þau voru árið 2009. Í hlutfalli af þeim bílum sem eru á götunum eru færri slys á hvern bíl í dag en fyrir 10 árum. Með fleiri bílum á götunum hefur iðgjaldastofn tryggingafélaganna einnig stækkað sem þýðir að tekjur tryggingafélaganna af bílatryggingum eru hærri í dag en áður fyrr auk þess sem meðalakstur dregst saman og hafa iðgjöld á hvern kílómetra því hækkað.
Mikill hagnaður og háar arðgreiðslur
Hagnaður tryggingafélaganna hleypur á milljörðum á hverju ári sem og arðgreiðslur til hluthafa. Viðskiptavinir tryggingafélaganna fá ekki að njóta góðs af jákvæðri afkomu tryggingafélaganna heldur rennur jákvæð afkoma beint í vasa hluthafa á sama tíma og viðskiptavinir sjá verðin hækka ár hvert. Hér má sjá hagnað tryggingafélaganna í milljónum króna síðustu ár:
Arðgreiðslur þriggja stærstu tryggingafélaganna, í milljónum króna, fyrir rekstrarárið 2017 má sjá nánar á heimasíðu ASÍ.
Verðlagseftirlitið hvetur neytendur til að vera vakandi yfir verðhækkunum tryggingafélaganna og leita tilboða í tryggingar sínar.