Skip to main content

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, var ræðumaður dagsins í baráttudagskrá verkalýðsfélaganna í Skagafirði þetta árið. Elín Björg fór yfir stöðuna í dag og verkefnin framundan.

Ræða Elínar Bjargar Jónsdóttur, formanns BSRB, fer hér á eftir:


Kæru félagar.
Það er mér sannur heiður að vera komin hingað norður fyrir heiðar til að eyða þessum degi með ykkur. Þessum degi sem er launamönnum um allan heim svo mikilvægur og skipar sérstakan sess í hjörtum okkar. Ánægjan er ekki síst vegna þess að Starfsmannafélag Skagafjarðar varð 40 ára í ár og Verkalýðsfélagið í Skagafirði varð 10 ára í fyrra við samruna Verkakvennafélagsins Öldunnar og Verkalýðsfélagsins Fram.Á degi sem þessum er ekki úr vegi að líta aðeins til baka, enda er það öðrum þræði hlutverk slíkra merkisdaga; að minna okkur á það sem áunnist hefur og hve sporin sem forfeður okkar – og í sumum tilvikum við sjálf – gengum, hafa oft verið þung. Að minnast unninna sigra og brýna vopnin fyrir komandi átök, það er hin ævarandi tilgangur baráttudaga sem þessara. Allt of oft hefur sú skoðun hljómað að 1 .maí sé genginn sér til húðar, sé arfur fortíðar sem launafólk þurfi ekki að halda í heiðri. Leiðin til framtíðar er hins vegar vörðuð af sporum fortíðarinnar og við gerðum rétt í því að halda því til haga að þau réttindi sem þó hafa áunnist launafólki til handa, komu ekki af sjálfu sér. Þau urðu til við óeigingjarna baráttu genginna kynslóða og okkar er að halda merkjum þeirrar baráttu á lofti.Ákvörðunin um að 1. maí skildi verða alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins var tekin á þingi sem haldið var í tilefni af því að eitt hundrað ár voru liðin frá frönsku byltingunni. Dagsetningin var engin tilviljun, árið 1886 var fjöldi verkafólks drepinn af yfirvöldum í Chicago í Bandaríkjunum þar sem það krafðist þess að vinnudagurinn yrði ekki lengri en átta stundir. Ódæðið vakti athygli um allan heim og á öðru alþjóðaþingi sósíalista árið 1889 var ákveðið að 1. maí yrði alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins.


Dagsetningin ein og sér minnir okkur því á að við höfum þurft að berjast fyrir réttindum okkar í gegnum tíðina og þó að baráttan sé ekki jafn blóði drifin í dag og hún var þá, guði sé lof, þá skiptir ávinningur hennar fjölskyldur ekki minna máli nú en þá.
Það er því með stolti sem ég stend hér og legg mín lóð á vogarskálar réttindabaráttu launafólks. Niður sögunnar er þungur og minnir okkur á hverju samtakamáttur okkar getur skilað. Samtakamáttur verður hins vegar ekki til nema við stöndum öll saman sem eitt, leggjum það sem sundrar okkur, þó í litlu sé, til hliðar og einblínum öll á sameiginlegt markmið; bætt kjör fyrir fólkið í landinu. Það er okkar verkefni.
– – –
Og það verður seint sagt að verkefnin séu ekki ærin. Við stöndum frammi fyrir afleiðingum algjörs hruns í efnahagslífinu. Sérhagsmunagæsla og gróðahyggja – já hrein og klár græðgi – réðu ferðinni í íslensku samfélagi og slógu taktinn fyrir hrunadans sem vakið hefur athygli um allan heim. Launafólk þessa lands ber ekki ábyrgð á hundruð, ef ekki þúsund, milljarða tapi fjármálastofnana, en situr nú uppi með afleiðingar óhófsins.


Uppgjör hrunsins heldur áfram og sennilega lýkur því seint, að minnsta kosti í hugum okkar sem það lifum. Ég hef hins vegar þá bjargföstu trú að nú sé kominn tími til að horfa til þess sem sameinar okkur, frekar en að leita dyrum og dyngjum að ástæðum sundrungar. Neyðin kennir naktri konu að spinna segir máltækið og ég tel að við eigum að nýta okkur umrótið til að byggja upp réttlátt þjóðfélag, grípa geirinn í hönd og horfa fram á veg.

Kæru félagar!


Það velkist enginn í vafa um að ástandið á Íslandi er erfitt. Það er enginn að gera lítið úr þeim vanda sem steðjar að heimilunum. Raunveruleg fátækt hefur skotið rótum í okkar velferðarlandi og þúsundir ganga atvinnulausar. Langtímaatvinnuleysi, sem varla hefur verið þekkt hér á landi, er nú orðið að staðreynd.


Um leið og við hugum að þeim ærnu úrlausnarefnum sem bíða okkar, skulum við leiða hugann að verkefnum genginna kynslóða. Að þeim, að því er virtist, ókleifu múrum sem mættu forfeðrum okkar á leið þeirra til betra samfélags.


Réttlátari vinnutími – sanngjörn laun – mannsæmandi aðbúnaður – húsnæði -menntun – læknisþjónusta – almannaþjónusta óháð efnahag


Ekkert af þessu var sjálfsagt fyrr á tíð, en náðist með baráttu og virkjun samtakamáttarins.


Því segi ég við ykkur; tökum höndum saman og leiðum íslenskt samfélag úr þeim ólgusjó sem það er í nú um stundir. Innviðir samfélagsins eru enn til staðar og okkar er að hlúa að þeim og byggja í kringum þá. Reisa upp úr öskustó efnahagshrunsins samfélag velferðar og velmegunar á ný.

Um leið og ég kalla eftir samstöðu launafólks lýsi ég eftir ábyrgð af hálfu viðsemjenda okkar. Staðan í kjarasamningaviðræðum er einfaldlega fráleit. Það er út í hött að sjálfsagðar kjarabætur almennings í landinu séu í gíslingu sérhagsmuna lítils hóps atvinnurekenda. Fiskveiðistjórnunarkerfið er vissulega mikilvægt málefni, en hefur ekkert með laun sjúkraliðans, verkamannsins eða kennarans að gera. Að tengja þetta saman er óábyrgt og forkastanlegt.


Kæru félagar.


Nú er tími samstöðunnar, en sú samstaða verður að ná yfir samfélagið allt. Það er ekki hægt að vísa endalaust til ábyrgðar launafólks; að staðan sé slík að enn einu sinni þurfi það að sætta sig við skertan kaupmátt og verri kjör. Það höfum við gert allt of oft.


Samstaðan er eina vopn launafólks og því skulum við beita til að ná fram sanngjörnun kröfum. Óbilgirni verður að mæta með hörku og við verðum að vera tilbúin til þess að beita kröftum okkar ef með þarf.


Við verðum að setja þarfir heimilanna og fjölskyldnanna í landinu ofar öllu. Það er fyrir þau sem við berjumst, það er þeirra vegna sem verkalýðshreyfingin er til og það er þangað sem hún sækir kraft sinn. Kraft sem brýst út í samstöðu okkar. Og þegar við stöndum saman sem eitt, fær okkur ekkert stöðvað.


Ágætu félagar.


Það er mér sérstakur heiður að heimsækja ykkur í miðri Sæluviku. Lífið er ekki eintóm barátta og það er hverju samfélagi nauðsynlegt að lyfta sér reglulega upp. Slíkt styrkir samstöðuna, léttir lundina en eflir um leið hugann.


Þegar það barst í tal að ég yrði með ræðu hér í dag held ég að Árni félagi minn Egilsson hafi vísvitandi haldið því leyndu fyrir mér að í dag yrði tilkynnt um úrslit vísnasamkeppni. Hann hefur óttast að ég Sunnlendingurinn kæmi og kenndi Skagfirðingum hvernig ætti að yrkja vísur. Sá ótti er ekki ástæðulaus og þó ég sé of sein að skila vísunni inn í samkeppnina tel ég að hún verði að fá að hljóma hér:


Það gerðist á Króknum mjög snemma á síðustu öld
í sæluvímu getnir voru tveir bræður
Þarna er annar, en hinn þykist hafa öll völd
í heimi atvinnulífins öllu hann ræður.


Þó Vilhjálmur telji sig mikinn og máttugan vera
er meining mín sú, skyld´onum nokkuð sárna?
Ef ætti ég einn þeirra að manni mínum að gera
mætti ég heldur biðj´um minn góða Árna.Félagar.


Mér hefur orðið tíðrætt um samstöðuna í dag og ekki að ósekju. Við búum í landi sem er fullt af allsnægtum. Auðlindirnar eru nægar og verkfúsar hendur bíða þess eins að nýta þær samfélaginu til heilla.


Ef við berum gæfu til þess getum við endurreist íslenskt samfélag og byggt upp betri framtíð fyrir börnin okkar. Til þess erum við reiðubúin.


Við verðum að standa saman fyrir bættum kjörum launafólks.
Við verðum að standa saman um að búa börnunum okkar betra líf.
Við verðum að standa saman um að verja velferðarkerfið.
Við verðum að standa saman um atvinnuuppbyggingu kvenna jafnt sem karla.
Við verðum að standa saman um launajafnrétti kynjanna.


Forfeður okkar bjuggu við krappari kjör en við þekkjum og tókst engu að síður að koma á fót velferðarkerfi sem er öryggisnet fyrir alla, háa og lága, óháð efnahagslegri stöðu.


Í niðurskurði og samdrætti ríkjandi ástands megum við ekki ganga svo hart fram að velferðarkerfið bíði varanlegan skaða af. Það er ekki endalaust hægt að skera niður og lækka fjárframlög án þess að það bitni á þjónustu. Það er ekki endalaust hægt að fækka fólki og krefjast þess að þeir sem eftir eru leggi meira á sig fyrir sömu kjör. Slíkt gengur ekki til lengdar. Það leiðir á endanum af sér óbætanlegan skaða á því samtryggingarkerfi sem gengnar kynslóðir byggðu í sveita síns andlits.


Þess vegna hlýtur það að vera krafa launafólks um land allt að ekki sé gengið nær velferðarkerfinu en orðið er. Góðærisins sá ekki stað í velferðarkerfinu og það er ekki hægt að krefjast þess að endurreisnin hvíli fyrst og fremst á niðurskurði þar. Ekki þarf að leita langt yfir skammt eftir dæmi um hvílíkan skaða hægt er að vinna með of miklum niðurskurði og nægir að horfa til þess mikla samdráttar í heilbrigðismálum sem þið hér í bæ hafið orðið fyrir.


Nóg er að gert, nú þarf að standa vörð um velferðina, standa vörð um öryggisnet almannaþjónustunnar.


Kæru félagar.


Það velkist enginn í vafa um að staða Íslands í efnahagsmálum er slæm. Við þekkjum það öll á eigin skinni, með hækkandi matvælaverði, rýrnun kaupmáttar og auknum álögum. Við þekkjum öll einhvern sem misst hefur vinnuna – og án efa er hér einhver inni sem svoleiðis er ástatt um. Við þekkjum öll að launin okkar duga æ verr fyrir nauðsynlegum útgjöldum. Við erum ekki að fara fram á að geta lifað í vellystingum, við erum einfaldlega að fara fram á að geta lifað mannsæmandi lífi.


Til þess að svo geti orðið þurfa stjórnvöld að horfa yfir þjóðlífið sem heild, rýna í stöðu venjulegs fólks og grípa til aðgerða. Viðurkenna að nauðsynlegt er að bæta þá kaupmáttarrýrnun sem almenningur í landinu hefur orðið fyrir. Viðurkenna að það verður að grípa til aðgerða og bæta fólkinu missinn. Viðurkenna ábyrgð sína og semja um betri kjör. Það er hlutverk stjórnvalda, ekki síst þeirra sem kenna sig við jöfnuð og félagshyggju.


Því er það skýlaus krafa launafólks í landinu;


Bætið okkur minnkandi kaupmátt!
Bætið okkur skert kjör!
Bætið okkur verri þjónustu og standið með okkur vörð um þá velferð sem byggð var upp í gegnum súrt og sætt, kreppu og bág kjör, áratugum saman.


Félagar.


Þrátt fyrir óvissu í efahagsmálum, þrátt fyrir niðurskurð í velferðinni, þrátt fyrir samdrátt í tekjum; þrátt fyrir kreppuna. Þrátt fyrir þetta allt er ég bjartsýn.


Ég er bjartsýn vegna þess að ég hef trú á íslenskri þjóð.
Ég er bjartsýn vegna þess að ég veit hverju samtakamáttur launafólks getur áorkað.
Ég er bjartsýn vegna þess að við vitum hvað þarf að gera; við verðum að skapa fleiri störf, nýta þær gjafir sem landið hefur gefið okkur og standa saman, hugsa hvert um annað.


Beri okkur gæfa til þess – sem ég efast ekki um – mun landið rísa mun hraðar úr lægðinni en nokkurn óraði fyrir.
Til þess þurfum við hins vegar fyrst og fremst að sýna samstöðu. Við þurfum að sýna það í verki að við erum samfélag, en ekki misleitur hópur óskyldra einstaklinga með ólíkar þarfir.


Það verður ekki gert með því að ganga endalaust á rétt og kjör launafólks. Það verður aðeins gert með raunverulegri samstöðu samfélagsins alls.


En hvert ferðalag hefst á fyrsta skrefinu. Ég ákalla ykkur um að taka þetta fyrsta skref með mér.


Sýnum viðsemjendum okkar, stjórnvöldum og þjóðinni allri hver raunverulegur kraftur launafólks er.


Sýnum samtakamátt okkar og þá eru okkur allir vegir færir.


Góðir félagar. Gleðilegan fyrsta maí. Gleðilega hátíð. Megið þið eiga gleðilegan baráttudag.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com