Viðskiptaráð hefur farið mikinn undanfarið í gagnrýni sinni á verðlagseftirlit ASÍ og lagt sig fram um að grafa undan trúverðugleika bæði sambandsins og starfsmanna þess.
Viðskiptaráð hefur farið mikinn undanfarið í gagnrýni sinni á verðlagseftirlit ASÍ og lagt sig fram um að grafa undan trúverðugleika bæði sambandsins og starfsmanna þess. Þetta hefur Viðskiptaráð gert með umfjöllun sinni um verðkannanir ASÍ og greiningu okkar sérfræðinga á verðkönnunum Hagstofu Íslands. Alþýðusambandið hefur allt frá gerð þjóðarsáttarsamninganna árið 1990 staðið fyrir öflugu verðlagseftirliti á matvörumarkaði og öðrum sviðum til að auðvelda neytendum að átta sig á þeim frumskógi verðlags og verðlagsþróunar sem þeim er boðið upp á.
Tilefni nýjustu atlögu Viðskiptaráðs er umfjöllun ASÍ um þróun verðlags á einstaka vöruflokkum frá því haustið 2014, þar sem tekið er mið af verðkönnun Hagstofu Íslands á einstaka vöruflokkum. Það hefur væntanlega ekki farið framhjá Viðskiptaráði frekar en öðrum, að gengi íslensku krónunnar hefur styrkst mjög mikið undanfarin misseri, eða um 7% gagnvart dollar og 28% gagnvart pundi, en um 22% að meðaltali m.v. gengisvog íslensku krónunnar. Á sama tíma hafa stjórnvöld, m.a. vegna hvatningar frá Viðskiptaráði, lækkað eða afnumið vörugjöld og tolla á mjög mörgum vöruliðum. Alþýðusambandið lítur á það sem hlutverk sitt að veita heildsölum og smásöluverslunum aðhald til þess að skila þessum verðlækkunum til neytenda, enda var það ekki markmið stjórnvalda að færa þessi gjöld í vasa verslunareigenda heldur neytenda. Það sama á við um styrkingu krónunnar, hún á ekki að enda í vasa verslunarinnar!
Þegar litið er yfir greiningu Hagdeildar ASÍ á þessum undirliðum kemur glögglega í ljós að víða er pottur brotinn. Til viðbótar við 22% styrkingu krónunnar á þessu tímabili (frá október 2014 til nóvember 2016) má ætla að lækkun og afnám vörugjalda og tolla hefði skilað 7-8% lækkun á undirliðum vísitölu neysluverðs samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins. Samtals eru þetta ríflega 30% lækkunartilefni og þegar af þessari ástæðu ljóst að gagnrýni Viðskiptaráðs minnir á framgöngu aðila sem hefur vondan málstað að verja.
Varnarlína Viðskiptaráðs er síðan að vitna til þess að samningsbundnar launahækkanir hafi þurrkað upp allt svigrúm til verðlækkana – að launafólk hafi tekið allt svigrúmið til sín! Við þessa arfavitlausu framsetningu er það að segja, að vöru- og hráefniskostnaður í heildsölu er 78% og 68% í smásöluverslun á meðan launahlutfallið í þessum greinum er hins vegar ekki nema 8% í heildverslun og 13% í smásölu. Ef vöru- og hráefniskostnaður lækkar t.d. um 30% gefur það tilefni til þess að lækka vöruverð til neytenda um 25% í heildsölunni og 22% í smásölunni. Á móti þessu myndi launahækkun upp á 15% (sem nemur umsömdum hækkunum 2015 og 2016) ekki gefa tilefni til að hækka vöruverð sem nemur meira en 1,2 til 2% á móti! Það er hins vegar athyglisvert, að samkvæmt könnun Hagstofu Íslands [sjá hlekk hér fyrir neðan] á afkomu í heildsölu og smásöluverslunar fyrir árið 2015 hækkaði hagnaður fyrir skatta um 38% í heildsölu og 19% í smásölu en á sama tíma hækkuðu launaútgjöld þessara greina um 5,4 til 7,1%. Samkvæmt þessu er það skiljanlegt að talsmenn verslunarinnar hafi sjálfir haldið sig til hlés undanfarið.
Hljómurinn í gagnrýni Viðskiptaráðs er holur. Ráðið hefur tekið sér þá stöðu að verja það ósvífna framferði verslunarinnar að stinga ábata af lækkun og afnámi tolla og vörugjalda og styrkingu krónunnar í vasann. Ég treysti því að Alþingismenn setji í framtíðinni spurningarmerki við framgöngu Viðskiptaráðs á þessu sviði og velti fyrir sér hvaða hvatir búa þar að baki.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.