Evrópsku verkalýðssamtökin ETUC hafa ákveðið að 14. nóvember 2012 sé evrópskur baráttu – og samstöðudagur verkfólks (European Day of Action and Solidarity).
Aðildarfélög samtakanna eru hvött til að sýna samtöðu og stuðning við kröfur verkafólks um fjölgun starfa og aukin félagslegan jöfnuð.
Evrópska verkalýðshreyfingin hefur af því áhyggjur að aukinn niðurskurður í ríkisrekstri leiði til efnahagslegrar stöðnunar og samdráttar sem stuðli að ójöfnuði og atvinnuleysi.
Verkalýðshreyfingin skilur vissulega mikilvægi þess að ríkisfjármál séu í jafnvægi en varar við því að slíku markmiði sé einhliða náð í gegnum niðurskurð í opinberum rekstri.
Lausn á skuldavanda Evrópu má ekki vera á kostnað félagslegs jöfnuðar
Fjölmargar aðgerðir hafa verið skipulagðar víðsvega í Evrópu , s.s. verkföll, mótmæli og kröfugöngur, til að leggja áherslu á hugmyndir evrópsku verkalýðssamtakanna um félagslegan sátttmála um lausn skuldavandans.
Þar er að finna tillögur til Evrópusambandsins um leiðir til lausnar á efnahagsvanda aðildarríkjanna, en verkafólk í Evrópu hafnar aðgerðum stjórnvalda sem leiða til lakari starfskjara, atvinnuleysis, fátæktar og almenns ójöfnuðar. Grunnur að lausn efnahagsvandans verður að byggja á víðtæku samráði launafólks, fyrirtækja og stjórnvalda og fjárfestingu í innviðum samfélagsins, menntun og rannsóknum sem geta leitt til sjálfbærs vaxtar
hagkerfisins og fjölgun eftirsóknarverðra starfa.
ETUC hafnar áframhaldandi niðurskurði í ríkisfjármálum og einkavæðingu opinberrar þjónustu til að fjármagna ríkisrekstur.
Stefnt skal að jöfnuði í ríkisfjármálum, stigvaxandi sköttum á tekjur og eignir samhliða afnámi svartrar atvinnustarfsemi, skattafríðinda, skattaskjóla og spillingar. Að lokum er mikilvægt að eyða launamisrétti og setja reglur um jafnrétti kynjanna.
Hugmyndir ETUC að félagslegum sáttmála í Evrópu má finna hér.
Niðurskurður hjá ríki og sveitarfélögum kemur verst við ófaglærðar konur
Starfsgreinasamband Íslands hefur líkt og evrópska verkalýðshreyfingin áhyggjur af þeim áhrifum sem efnahagskreppan hefur haft á íslenskt verkafólk – starfskjör þeirra og réttindi.
Þetta á einkum við um ófaglærðar konur sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum við umönnun og ræstingar. Niðurskurðaraðgerðir ríkis og sveitarfélaga í kjölfar fjármálakrísunnar hafa skilað sér í auknu atvinnuleysi, lægra starfshlutfalli, launalækkun, auknu vinnuálagi og réttindamissi í kjölfar einkavæðingar opinberrar þjónustu.
Í nýbirtri kjara- og þjónustukönnun Flóafélaganna (Eflingar, Hlífar og VSFK) má sjá að kynbundinn launamunur er að aukast og kemur það skýrast fram í lágum launum þeirra sem starfa við umönnun og ræstingar.
Til að mótmæla þessari þróun áttu nokkrir forystumenn sambandsins nýlega fund með Sambandi íslenskra sveitarfélaga um útboðsmál og einkavæðingu opinberrar þjónustu. Þar var þess krafist að sveitarfélög sýndu aukna samfélagslega ábyrgð og tækju til sín þau merki um að niðurskurðurinn bitnaði verst á þeim sem síst skyldi.