Bónus var með lægsta verðið á matarkörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu mánudaginn 5. október. Matarkarfan var ódýrust hjá Bónus á 17.729 kr. en dýrust hjá Hagkaupum 22.322 kr. sem er 4.593 kr. verðmunur eða 26%.
Bónus var með lægsta verðið á matarkörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu mánudaginn 5. október. Matarkarfan var ódýrust hjá Bónus á 17.729 kr. en dýrust hjá Hagkaupum 22.322 kr. sem er 4.593 kr. verðmunur eða 26%.
Krónan var með næst ódýrustu matarkörfuna en þar kostaði hún 18.685 kr. sem er 5% meira en í Bónus. Hjá Nettó var verðið 19.798 kr. sem gerir körfuna 12% dýrari en hjá Bónus. Iceland og Fjarðarkaup komu þar á eftir með körfu sem er 14% dýrari en hjá Bónus. Hjá verslunum Samkaupum-Úrval og Víði er karfan 18%, dýrari en ódýrasta karfan.
Margar verslanir á svipuðu verðbili
Þegar litið er nánar á þær verslanir sem eru dýrari en lágvöruverðsverslanirnar en samt með ódýrari matarkörfu en Hagkaup má sjá að verðmunurinn á milli þeirra er ekki mikill. Þetta eru verslanirnar Víðir, Samkaup-Úrval, Fjarðarkaup og Iceland.
Af einstaka vörum í matarkörfunni var mikill verðmunur KEA kókosskyri 200 gr. sem var ódýrast á 173 kr. hjá Bónus en dýrast á 198 kr. hjá Samkaupum-Úrval og Hagkaupum, verðmunurinn var 25 kr. eða 26%. Á þessum tíma árs er einnig oft mikill verðmunur á lambakjöti þar sem kjöt frá því í fyrra er oft til sölu og þá oftast á tilboði í verslunum, en mikill verðmunur var á ódýrasta frosna lambahryggnum sem var dýrastur á 2.489 kr./kg. hjá Hagkaupum en ódýrastur á 1.598 kr./kg. hjá Bónus sem er 891 kr. verðmunur eða 56%. Til að nýta afganga af lambakjöti má sem dæmi nota íslensku kjötsúpuna frá TORO sem er ódýrust á 319 kr./stk. hjá Bónus en dýrust á 379 kr./stk. hjá Iceland sem er 19% verðmunur.
Að lokum má benda neytendum á að þessu sinni voru grænmeti og ávextir oftast ódýrastir hjá Iceland en dýrastir hjá Hagkaupum og sem dæmi um mikinn verðmun má nefna að gul melóna var ódýrust á 199 kr./kg. hjá Iceland en dýrust á 319 kr./kg. hjá Hagkaupum sem er 120 kr. verðmunur eða 60%.
Sjá nánar í töflu í frétt á heimasíðu ASÍ.
Matarkarfan samanstendur af 51 almennum neysluvörum til heimilisins t.d. mjólkurvörum, morgunkorni, grænmeti, kjöti, drykkjarvörum, ásamt ýmsum pakkavörum, dósamat og fleiru.
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum; Bónus Skipholti, Krónunni Höfða, Nettó Granda, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Iceland Engihjalla, Víði Garðabæ, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði og Hagkaupum Kringlunni.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.