Miðstjórn ASÍ skorar á fjármálráðherra og ríkisstjórn að hraða allri vinnu er lýtur að kröfum verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjaraviðræðum frekar en að beita vinnandi fólk hótunum.
Miðstjórn ASÍ fordæmir að fjármálaráðherra velji að beita hótunum í stað lausna ef umsamdar kjarabætur verkafólks verði honum ekki að skapi. Miðstjórn ASÍ bendir á að stjórnvöld séu því miður lítið að gera til að létta róðurinn í kjarasamningaviðræðunum sem nú standa yfir. Tillögur í skatta- og húsnæðismálum hafa enn ekki komið fram, en brýn þörf er á róttækum tillögum sem raunverulega skipta sköpum fyrir almenning. Því miður er það svo að forgangsröðun stjórnvalda felst í lækkun veiðigjalda á útgerðina, lögfestingu síðasta dóm kjararáðs sem veitti kjörnum fulltrúum ríflegar launahækkanir ásamt því að veita fjármálafyrirtækjum ríflegar skattalækkanir.
Jólakveðjur ríkisstjórnar til vinnandi fólks eru nöturlegar og ekki til þess gerðar að skapa sátt á vinnumarkaði eða auðvelda gerð nýrra kjarasamninga.
Miðstjórn ASÍ skorar á fjármálráðherra og ríkisstjórn að hraða allri vinnu er lýtur að kröfum verkalýðshreyfingarinnar í komandi kjaraviðræðum og hvetur Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra til að vinna að lausnum og sátt í skattamálum frekar en beita vinnandi fólk hótunum.