Flutningur og dreifing raforku hefur undanfarið ár hækkað um allt að 8%. Mest hjá heimilum í dreifbýli á dreifiveitusvæði Rarik, Orkubúi Vestfjarða og á dreifiveitusvæði Rafveitu Reyðarfjarðar. Meðal heimili í dreifbýli greiða allt að 98% meira fyrir flutning og dreifingu á raforku en heimili í þéttbýli.
Flutningur og dreifing raforku hefur undanfarið ár hækkað um allt að 8%. Mest hjá heimilum í dreifbýli á dreifiveitusvæði Rarik, Orkubúi Vestfjarða og á dreifiveitusvæði Rafveitu Reyðarfjarðar. Jöfnunargjald sem leggst á alla greiðendur, óháð búsetu, hækkaði um áramótin úr 0,2 kr/kWst. í 0,3 kr/kWst en sú breyting skýrir einungis um 1% hækkunarinnar. Meðal heimili í dreifbýli greiða allt að 98% meira fyrir flutning og dreifingu á raforku en heimili í þéttbýli.
Kostnaður við flutning og dreifingu raforku hjá heimili sem notar 4.000 kWst af raforku á ári hefur frá því í ágúst í fyrra hækkað mest um 7,86% hjá Rarik í dreifbýli, um 6% hjá Rafveitu Reyðarfjarðar og um 5,65% í dreifbýli hjá Orkubúi Vestfjarða. Hjá Orkubúi Vestfjarða í þéttbýli,HS veitum og Veitum ohf. nemur hækkunin um 3%, hjá Norðurorku er hækkunin 1,33% en minnst hækkar verðið hjá Rarik í þéttbýli eða um 1,04%.
Þann 1. apríl lækkaði niðurgreiðsla ríkisins á raforku til húshitunar á dreifiveitusvæði Rariks dreifbýli um 13 %, en hækkaði hjá Orkubúi Vestfjarða dreifbýli um 0,5%.
Kostnaður heimilis í þéttbýli fyrir flutning og dreifingu á raforku er hæstur 49.759 kr. á ári hjá Orkubúi Vestfjarða þéttbýli en lægstur 37.667 kr. hjá Norðurorku sem gerir 12.092 kr. verðmun eða 32%.
Heimili í dreifbýli greiðir talsvert hærra verð fyrir þessa sömu þjónustu. Hjá Orkubúi Vestfjarða dreifbýli er kostnaðurinn 73.424 kr. á ári og hjá Rarik dreifbýli 74.480 kr. eftir að tekið hefur verið tillit til dreifbýlisframlagsins.
Sjá nánar sundurliðaðan kostnað við flutning og dreifingu á heimasíðu ASÍ.