Í greinargerð fjárlagafrumvarps er miðað við 1% árlegan framleiðnivöxt. Það þýðir að persónuafsláttur og mörk skattþrepa hækka um 1% að raunvirði. Það er heldur lágt viðmið. Árleg meðalhækkun tekjuskattsstofnsins frá 1992 er 1,8% að raunvirði. Að óbreyttu mun nýja fyrirkomulagið því leiða til hækkunar á skattbyrði.
Með sjálfvirkri sveiflujöfnun er átt við þær breytingar sem eiga sér stað milli útgjalda og tekna hins opinbera við breyttar aðstæður á vinnumarkaði. Þegar atvinnulausum fjölgar, hækka útgjöld til atvinnuleysisbóta án nokkurra breytinga á fjárlögum. Að sama skapi lækka skattgreiðslur þegar hægir á efnahagsstarfsemi þar sem skattgreiðslur eru hlutfall tekna og neyslu. Umfang þessara áhrifa ræðst af því hvernig skatta- og tilfærslukerfi eru hönnuð. Þegar laun hækka umfram persónuafslátt er virkni sjálfvirkra sveiflujafnara meiri. Þá fer stærri hluti tekjuhækkunar í skattgreiðslur.
Hefðbundinn mælikvarði á virkni sveiflujafnara er hlutfall tekjuhækkunar sem fer í skattgreiðslur. Það hlutfall fer eftir því hversu mikið laun og persónuafsláttur hækka. Við útreikninga er miðað við þrjár mismunandi aðferðir við uppfærslu persónuafsláttar:
- Fyrra fyrirkomulag: persónuafsláttur hækkar til jafns við verðbólgu. Það fyrirkomulag var við lýði í nokkur ár fram að síðustu áramótum.
- Núverandi kerfi: persónuafsláttur hækkar um 1% að raunvirði.
- Ekkert skattskrið: persónuafsláttur hækkar til jafns við tekjur.
Virkni sjálfvirkra sveiflujafnara mælist mest í gamla fyrirkomulaginu. Við slíkt fyrirkomulag fer 36% af tekjuhækkun í tekjuskatt og um 64% fer til heimilanna, sjá meðfylgjandi mynd. Í núverandi fyrirkomulagi fer 30% af tekjuhækkun í tekjuskatt. Ef ekkert skattskrið væri og persónuafsláttur hækkar til jafns við laun færi 24% af tekjuhækkun í tekjuskatt. Ef einnig er miðað við virðisaukaskatt og tryggingagjald fer enn hærra hlutfall af tekjuhækkun í skattgreiðslur. Lesa má nánar um útreikninga í nýlegri grein í Vísbendingu (2022, 23. tölublað).
Niðurstöðurnar gefa til kynna að virkni sjálfvirkra sveiflujafnara minnki um 10-20% við að útrýma skattskriði með því að hækka persónuafslátt til jafns við laun. Sé ætlunin að stemma stigu við skattskriði ætti árleg raunhækkun viðmiðunarfjárhæða að vera meiri en 1%. Meðalhækkun tekjuskattstofns er 1,8% að raunvirði. Ef vöxtur verður viðlíka í framtíðinni leiðir núverandi fyrirkomulag til hækkunar á skattbyrði í framtíðinni.