Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðsamanburð á jólabókum í sjö bókabúðum og matvöruverslunum víðsvegar um landið mánudaginn 7. desember. Kannað var verð á 92 bókatitlum, sem eru í bókatíðindum 2015. Penninn-Eymundsson, A4, Mál og menning Laugavegi og Iða Lækjargötu töldu það ekki þjóna hagsmunum sínum að verðlagseftirlitið upplýsi neytendur um verð á bókum í þeirra verslunum fyrir jólin.
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðsamanburð á jólabókum í sjö bókabúðum og matvöruverslunum víðsvegar um landið mánudaginn 7. desember. Kannað var verð á 92 bókatitlum, sem eru í bókatíðindum 2015. Penninn-Eymundsson, A4, Mál og menning Laugavegi og Iða Lækjargötu töldu það ekki þjóna hagsmunum sínum að verðlagseftirlitið upplýsi neytendur um verð á bókum í þeirra verslunum fyrir jólin.
Oftast var á milli 20-40% munur á hæsta og lægsta verði milli verslana. Lægsta verðið var oftast að finna í verslun Bónus Langholti Akureyri eða á 51 titli, hjá Samkaupum-Úrvali á 11 titlum, Nettó á 10 titlum og Krónan var með lægsta verðið á níu titlum. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Hagkaupum Skeifunni eða á 41 bókatitli, Forlagið Fiskislóð var með hæsta verðið á 36 titlum og Bóksala stúdenta á 16 titlum.
Mjög mikill munur á vöruúrvali
Mikill munur er á vöruúrvali á milli þeirra sjö verslana sem könnunin náði til. Af þeim 92 bókatitlum sem skoðaðir voru átti Forlagið 85, Hagkaup 81, Bóksala Stúdenta 77 og Samkaup-Úrval 75. Fæstir bókatitlar voru fáanlegir hjá Samkaupum-Úrvali í Hafnarfirði eða 33, Nettó Borgarnesi átti til 54 og Bónus 58.
Mestur verðmunur í könnuninni var á skáldverkinu Þýska húsið, eftir Arnald Indriðason, sem var ódýrust hjá Krónunni á 3.899 kr. en dýrust hjá Forlaginu á 6.490 kr. sem er 2.591 kr. verðmunur eða 66%. Minnstur verðmunur í könnuninni var á 501 feluhlutur sem var ódýrust hjá Samkaupum-Úrvali á 1.918 kr. en dýrust hjá Forlaginu á 2.090 kr. sem er 172 kr. verðmunur eða 9%.
Í um helmingi tilvika var verðmunurinn á milli 20-40%
Af þeim bókum sem til voru hjá öllum söluaðilum má nefna bókina Grímsævintýri, fyrir unga og gamla sem var ódýrust á 5.398 kr. hjá Bónus en dýrust á 7.190 kr. hjá Bóksölu stúdenta, eða 33% verðmunur. Vísindabók Villa, Geimurinn og geimferðir var ódýrust á 3.759 kr. hjá Bónus en dýrust á 5.290 kr. hjá Forlaginu sem er 41% verðmunur. Bókin Fléttur – skref fyrir skref var ódýrust á 2.369 kr. hjá Bónus en dýrust á 3.190 kr. hjá Forlaginu. Að lokum má nefna að bókin Týnd í paradís, eftir Mikael Torfason var ódýrust 4.598 kr. hjá Bónus en dýrust á 6.590 kr. hjá Forlaginu sem er 43% verðmunur.
Sjá verðsamanburð á bókatitlum 2015 í töflu á heimasíðu ASÍ.
Penninn-Eymundsson, A4, Mál og menning Laugavegi og Iða Lækjargötu neituðu þátttöku í könnuninni.
Könnunin var gerð samtímis í eftirtöldum verslunum: Forlaginu Fiskislóð, A4 Skeifunni, Bóksölu Stúdenta Sæmundargötu, Nettó Borgarnesi, Hagkaupum Skeifunni, Bónus Langholti AKureyri, Krónunni Lindum og Samkaupum-Úrvali Hafnarfirði.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Neytendur ættu einnig að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört í verslunum á þessum árstíma.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.