Skip to main content

Það hefur ekki farið framhjá neinum að Samtök atvinnulífsins hafa stefnt viðræðum um kjarasamninga í uppnám með kröfum sínum. Hér á vefnum er að finna rakningu ASÍ á atburðarás síðustu daga.

Ágætu félagar.


 


Eins og komið hefur fram í fréttum náðust ekki samningar á milli aðildarsamtaka ASÍ og SA í gær, föstudag, eins og stefnt var að. Um miðjan dag féll SA frá því að gera þriggja ára kjarasamning með gildistökuákvæðin í sumar og eingreiðslum í upphafi og síðan tilteknum taxtahækkunum og hlutfallshækkunum ásamt sérstakri hækkun lágmarksdagvinnutekjutryggingarinnar ef samningurinn tæki endanlega gildi. Skýring SA var sú að ekki hefði fengist fullnægjandi skuldbinding af hálfu stjórnvalda varðandi innspýtingu í atvinnulífið, auk þess sem ekki hefði verið komið til móts við SA í sjávarútvegsmálum. Það var hins vegar mat samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ að ýmislegt hefði áunnist í samskiptum við stjórnvöld síðustu daga og alls ekki væri útilokað að þar fengist sá grundvöllur varðandi efnahags-, atvinnu- og félagsmálin, sem byggja mætti á tilraun til að gera 3ja ára samning, þótt eitt og annað stæði enn útaf. Þannig hafði náðst verulegur árangur varðandi atvinnumálin, átak í menntamálum og vinnumarkaðsaðgerðir í baráttunni við atvinnuleysið. Einnig stóðu vonir til þess að viðunandi árangur næðist varðandi bætur almannatrygginga, atvinnuleysisbætur og lífeyrismálin. Það var því að mat samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ að reyna ætti til þrautar að ná viðunandi árangri í samskiptum við stjórnvöld, en því hafnaði SA. Ljóst er að það sem mestu réð um afstöðu SA var krafa LÍÚ í sjávarútvegsmálum eins og síðar átti eftir að koma í ljós.


Þegar fyrir lá að ekki yrði gerður 3ja ára samningur var af hálfu samninganefndar ASÍ ákveðið að ganga til skammtímasamnings á grundvelli vilyrðis sem SA hafði gefið um það efni um miðjan febrúar. Þegar á reyndi kom hins vegar í ljós að SA var ekki tilbúið til að ganga til slíks samnings nema að samninganefnd aðildarsamtaka ASÍ léti fylgja samningnum sameiginleg pólitísk yfirlýsing um að ríkisstjórnin bæri ábyrgð á því að þriggja ára samningur hefði ekki náðst. Þessu hafnaði samninganefnd aðildarsamtaka ASÍ alfarið enda ekki innistæði til slíks af hálfu ASÍ, þótt ýmislegt mætti gagnrýna við framgöngu stjórnvalda.


Ljóst var að þarna var SA enn og aftur að flétta kröfur LÍÚ í sjávarútvegsmálunum með beinum hætti inn í kjarasamningagerðina. Nokkuð sem samninganefnd aðildarsamtaka ASÍ hafnaði þegar í febrúar þegar slitnaði upp úr kjaraviðræðunum. Í ályktun miðstjórnar ASÍ af þessu tilefni 9. febrúar sagði m.a.:


Ákvörðun Samtaka atvinnulífsins að tengja saman með ólögmætum hætti viðræður um gerð kjarasamninga við tiltekna niðurstöðu Alþingis í sjávarútvegsmálum hefur sett allan vinnumarkaðinn í uppnám og óvissu. Það er skoðun miðstjórnar ASÍ að með þessu komi SA í veg fyrir að hægt verði að hefja markvissa uppbyggingu og vöxt atvinnulífsins, sem leitt gæti til fjölgunar starfa og aukinna tekna. Það skýtur því skökku við að hlusta á forystumenn SA tala um að þeir vilji fara atvinnuleiðina út úr kreppunni, því það er sú leið sem þeir hafa tekið í gíslingu vegna hagsmuna útgerðarmanna. Þetta er tvískinnungur af ódýrasta tagi.


Forsenda þess að samningaviðræður voru aftur teknar upp nokkru síðar var einmitt að sjávarútvegsmálunum yrði ekki blandað inn í samningagerðina og að SA lofaði skammtímasamningi í það minnsta, óháð stöðunni í sjávarútvegsmálum, næðist ekki lengri samningur. Það er því enginn vafi í huga samningamanna aðildarsamtaka ASÍ að með framgöngu sinni í gærkvöldi var SA að svíkja gefin loforð. Það er ljóst að slík framganga getur haft veruleg áhrif til framtíðar varðandi samskipti og traust milli aðila. Þá er einnig mikilvægt að hafa í huga að með framgöngu sinni hefur SA skapað mikla óvissu um framgang ýmissa mála sem unnið hafði verið að af samninganefndum einstakra aðildarsamtaka ASÍ og samninganefndar ASÍ gagnvart SA og stjórnvöldum, en þar hafði náðst árangur á ýmsum sviðum.


Þegar fyrir lá í gærkvöldi að SA ætlaði ekki að efna sinn hluta nema með óeðlilegum (ólögmætum) þvingunaraðgerðum var eftirfarandi frétt birt á vef ASÍ:


SA svíkur gefin loforð um skammtímasamning


SA skilyrti gerð skammtímasamnings sem lá á borðinu í karphúsinu í kvöld því að verkalýðshreyfingin færi með SA í stríð við ríkisstjórnina. Það átti að gerast með sameiginlegri yfirlýsingu um að ríkisstjórnin bæri ábyrgð á því að þriggja ára samningur náðist ekki fyrr í dag. ASÍ og aðildarsamtök þess eru ekki tilbúin til þess enda ríkisstjórnin komið verulega til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar á allra síðustu dögum.


Auk þess lætur ASÍ ekki stilla sér upp við vegg. Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess eru fullfær um að velja sér sína andstæðinga sjálf. Þá hefur það aldrei staðið til af hálfu ASÍ að ganga til liðs við SA í sjávarútvegsmálunum. Þessi deila um gerð kjarasamninganna snýst ekki lengur um kjör launafólks heldur pólitík. Af þessum sökum yfirgáfu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar karphúsið á tólfta tímanum í kvöld.


Í ljósi framanritaðs er það sérstök ósvífni þegar SA birtir í nótt á vef sínum frétt undir fyrirsögninni: ASÍ hafnar 100 þúsund krónum til launþega. Lengra verður tæpast gengið í ósvífninni. Nánar er fjallað um framgöngu SA á vef ASÍ www.asi.is í dag.


 


Staðan og framhaldið


Fyrir liggur að nú er uppstytta í samningaviðræðunum við SA. Það var niðurstaða samninganefndar aðildarsamtaka ASÍ í gærkvöldi að helgin og næstu dagar verði notaðir til að meta stöðuna og hvernig eigi að bregðast við henni. Það þýðir að samninganefndir aðildarsamtaka ASÍ munu hver um sig fara yfir stöðuna og ráðfæra sig um framhaldið. Eftir stendur að ná verður kjarasamningum við atvinnurekendur og sækja launahækkanir og aukinn kaupmátt fyrir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ. Þar hefur verið lagður ákveðinn grunnur síðustu vikur sem byggja má á.


 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com