Þrjú af stærri verkalýðsfélögum á Norðurlandi vestra hafa ákveðið að kanna möguleika á sameiningu. Um er að ræða Samstöðu, Ölduna og Verslunarmannafélag Skagafjarðar. Stjórnir félaganna funduðu sameiginlega á Blönduósi 4. desember síðastliðinn og þar var ákveðið að bjóða Iðnsveinafélagi Skagafjarðar að taka þátt í umleitunum.
Tilgangur sameiningar yrði að auka þjónustu við félagsmenn, efla innra og ytra starf, auka frumkvæði og mynda meiri slagkraft ásamt því að búa til stærri og öflugri félagseiningu.
Verði af sameiningu þessara félaga, yrði til um 3.000 manna deildaskipt félag, sem næði yfir sambærilegt svæði og Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.