ASÍ hélt fjölmennan formannafund í dag til að ræða stöðuna á vinnumarkaði og þau stóru verkefni sem bíða haustsins. Fyrirferðamest var umræða um yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamninginn en þar vantar ýmislegt upp á og var þungt hljóð í mörgum fundarmönnum vegna seinagangs stjórnvalda í að uppfylla atriði sem sett voru fram í yfirlýsingunni.
ASÍ hélt fjölmennan formannafund í dag til að ræða stöðuna á vinnumarkaði og þau stóru verkefni sem bíða haustsins. Fyrirferðamest var umræða um yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamninginn en þar vantar ýmislegt upp á og var þungt hljóð í mörgum fundarmönnum vegna seinagangs stjórnvalda í að uppfylla atriði sem sett voru fram í yfirlýsingunni. Einnig var rætt um erfiða stöðu ferðaþjónstunnar, ótrygg ráðningasambönd og þá stöðu sem skapast að líkindum í haust þegar fjölmargir einstaklingar sem misstu vinnuna í Covid fara á strípaðar atvinnuleysisbætur.
Við upphaf fundarins flutti Drífa Snædal, forseti ASÍ, eftirfarandi ávarp:
Kæru félagar,
Gott að sjá ykkur og takk fyrir allar yndislegu móttökurnar sem við höfum fengið á ferðum okkar um landið síðustu vikur, spjallið, kaffið og samveran sem hefur verið endurnærandi og brýnt okkur til dáða. Það var eiginlega ekki hægt annað en að hittast svona í lok vetrar eftir þessa skrýtnu og erfiðu tíma í okkar hreyfingu, í samfélaginu og heiminum öllum. Það er ljóst að haustið verður erfitt, þá vitum við í raun hver staðan er, hvert atvinnuleysið er og þar með hvert okkar stóra verkefni næsta árið og árin verður. Það er fátt skaðlegra samfélagi heldur en atvinnuleysi, nema vera skyldi fátækt. Tengslin þar á milli eru sterk en við skulum aldrei sætta okkur við að staða fólks hvort sem utan eða innan vinnumarkaðar sé ávísun á fátækt. Slíkt viðhorf og stefna er hættuleg einstaklingum og hættuleg samfélögum.
Nýverið undirrituðum við samkomulag við hin heildarsamtökin á vinnumarkaði og Öryrkjabandalagið þar sem við heitum því að taka undir kröfur öryrkja og beita okkur fyrir kjarabótum þeim til handa. Það getur verið þunn lína á milli þess að vera utan eða innan vinnumarkaðar. Við erum ekki nema einum veikindum frá fátækt og þröskuldarnir geta verið ansi háir til starfa ef fólk fellur í fátæktargildru. Þess vegna á verkalýðshreyfingin aldrei að sætta sig við annað en afkomuöryggi fyrir okkur öll, á öllum tímabilum lífs okkar.
Verkefni vorsins hafa að stærstum hluta til verið tengd veirunni og það reyndi á okkur sem hreyfingu og samfélagið allt. Við náðum að tryggja fólki laun í sóttkví, við fórum í verkfærakistuna frá því í síðasta hruni og studdum við og unnum með stjórnvöldum að hlutabótaleiðinni og eins launum í uppsagnarfresti með það að markmiði að lengja í afkomumöguleikum fólks sem vinnur hjá fyrirtækjum sem ella hefðu farið á hausinn. Í þessum lagasetningum öllum hafa verið gerð mistök og það væri óskandi að við hefðum haft í höndunum handrit framtíðarinnar við alla þá vinnu. En það hefur líka margt tekist vel til og okkar verkefni er að halda áfram fast á spöðunum og tryggja að efnahagslægðin verði ekki dýpri og skaðlegri en efni standa til. Í upphafi leiðangursins héldum við að efnahagslífið tæki dýfu í einn eða tvo mánuði og myndi svo rétta úr kútnum og ástandið yrði orðið eðlilegt í maí. Nú vitum við að heimskreppa fylgir veirunni og þó að við séum í betri stöðu en flest önnur ríki þá munum við ekki fara varhluta af þessari kreppu frekar en öðrum.
Það verður mikil áskorun að tryggja afkomu og störf á þessum tímum og við megum ekki bregðast okkar félagsmönnum. Næsta prófraun verður í september þegar forsenduákvæði kjarasamninga koma til endurskoðunar. Atvinnurekendur og stjórnvöld munu leggja mikla áherslu á að samningarnir haldi í haust en það er jafn ljóst að staðan í dag er mjög frábrugðin því sem hún var við undirritun og forsendur samninganna hafa ekki staðist. Stórmál tengd lífskjarasamningnum hafa ekki náð fram að ganga og kemur þar margt til umfram veiruástandið; mál hafa strandað í samtölum okkar við Samtök atvinnurekenda, mál hafa strandað í einhverjum stjórnarflokknum eða jafnvel dagað uppi í ráðuneytum. Önnur stórmál hafa ýtt þessum til hliðar en covid ber ekki ábyrgð á öllu því sem aflaga hefur farið. Það er mjög misjafn áhugi hjá stjórnvöldum og atvinnurekendum að klára það sem lagt var upp með síðasta vor.
Á fundi sem þessum er okkur þó hollt að horfa líka inn á við, rýna í hvað við getum gert betur í okkar baráttu, hvernig við getum skerpt á okkar málflutningi. Okkar helsti styrkur – fjöldinn – getur orðið að veikleika. Því í fjöldanum býr fjölbreytni, ólík sjónarmið og stundum mismunandi hagsmunir. Og ég er þeirrar eindregnu skoðunar að við eigum og megum tala mörgum röddum, leyfa sjónarmiðum að stangast á, takast á um þær leiðir sem við teljum bestar í snúinni stöðu. En það má ekki verða til þess að veikja okkur út á við, við megum ekki leyfa sérhagsmunaöflunum að komast upp með sitt gamalkunna fag: að deila og drottna. Samstaðan er okkar slagkraftur, það er hún sem skapar okkur stöðu gagnvart bæði atvinnurekendum og stjórnvöldum. Fjöldinn á að vera okkar styrkur.
Árangur okkar í haust ræðst af því hvort við mætum samstillt eða sundruð til viðræðna, og þar með staða okkar félagsmanna. Það er til mikils að vinna og ég bið ykkur lengstra orða að takast á um leiðir og hugmyndir á okkar vettvangi en mæta svo sem ein rödd í viðræður hvort sem er gagnvart atvinnurekendum eða stjórnvöldum. Við hjá ASÍ munum skapa vettvanginn til samtals okkar á milli og byrja strax í dag og halda áfram í ágúst eins og ég fer nánar yfir. Þessi fundur er einmitt ætlaður til að hefja það samtal, hvernig tryggjum við að þau mál sem út af standa í lífskjarasamningnum nái framgangi og hvað eigum við að leggja áherslu á í haust.
Ég hef ekki talið ráðlagt að lýsa því yfir að við munum segja upp samningum í haust. Við verðum að vita í þessum hópi hvað við viljum. Fyrir mér er verkefnið skýrt; verja það sem hefur áunnist og knýja fram það sem út af stendur í loforðum stjórnvalda. Í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi er þó jafnvel enn brýnna er að hækka atvinnuleysisbætur, lengja tekjutengda tímabil bótanna og draga úr skerðingum í almannatryggingakerfinu. Að öðrum kosti getur staðan orðið grafalvarleg með haustinu og leitt til langvarandi afkomu- og skuldavanda fjölda fólks. Enn fremur er risavaxið verkefni að tryggja að reikningurinn vegna björgunaraðgerða undanfarinna vikna verði ekki sendur almenningi í formi niðurskurðar, gjaldtöku, kaupmáttarrýrnunr eða sölu á opinberum eigum. Þetta er meðal þess sem ég tel einna mest áríðandi fyrir haustið en á þessum fundi vil ég velta upp þeim bolta við ykkur hvað þið sjáið sem brýnasta málið í haust, hvernig við eigum að stilla okkur saman og ná árangri. Við hefjum það samtal í dag og höldum því áfram í haust, fílefld eftir verðskuldað sumarfrí.
Þetta undarlega ástand hefur afhjúpað bæði styrkleika og veikleika í okkar samfélagi. Þau lönd þar sem réttindi launafólks eru af skornum skammti, aðgengi að heilbrigðiskerfinu er háð fjárhag og innviðir lélegir eru lönd þar sem útbreiðslan er mest og mannfórnir líka. Hér á landi er fólk í viðkvæmri stöðu á vinnumarkaði það sem harðast lendir í ástandinu. Leiðsögumenn sem eru verkefnaráðnir, einyrkjar, tæknifólk í afþreyingariðnaði, listafólk og fleiri mætti telja. Þetta er því eitt þeirra verkefna sem bíða okkar og við ætlum að ræða hér á eftir: Hvernig tryggjum við fólk í ótryggum ráðningarsamböndum, hvernig finnum við þeim stað í okkar góðu hreyfingu til að nýta afl okkar þeim til handa? Annað sem við ætlum að ræða er ferðaþjónustan, hvernig getum við byggt upp ferðaþjónustu á nýjum grunni án þeirra stórkostlegu galla fyrir launafólk sem við höfum orðið vör við síðustu ár. Síðast en ekki síst þarf að fara í vörn fyrir heimili og einstaklinga þegar og ef kreppan fer að bíta í haust og fólk hættir að geta staðið í skilum með lán, leigu og aðrar skuldbindingar. Þar munum við ekki skila auðu enda vitum við sem er að slíkt getur haft langvarandi og alvarlegar afleiðingar.
Allt þetta og meira til ætlum við að ræða á þessum vettvangi í dag.
Kæru félagar, ég hvet ykkur til að leggja hugmyndir í púkkið, skýra afstöðu ykkar, taka þátt um rökræðum um áherslur og leiðir til að við getum þroskað samtalið í okkar hópi og vonandi mætt í september með skýra og sameiginlega sýn á þau verkefni sem er fyrir höndum. Ég veit og ber virðingu fyrir því að við sitjum hér í umboði ólíkra einstaklinga, ólíkra samfélagshópa og ólíkra landsvæða. En það er þó miklu meira sem sameinar hagsmuni okkar félaga en greinir á milli. Sterk og sameinuð verkalýðshreyfingin er ein af grunnstoðum okkar samfélags, ein af höfuðástæðum þess að hér eru lífsgæði almennt mikil og meirihluti fólks hefur það gott. En við eigum líka langt í land með að tryggja að sú velsæld sé allra. Krepputímar eru tímar breytinga. Þá keppast sérhagsmunaöflin við að nýta óreiðuna til að skara eld að eigin köku, veikja regluverkið, sölsa undir sig meiri auð og grafa undan innviðum samfélagsins. Okkar verkefni er að verja lífskjörin, en líka að sækja fram, tryggja að breytingarnar verði til hins betra fyrir okkar fólk og þar með fyrir Ísland framtíðarinnar.