Skip to main content

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, var ræðumaður dagsins á Akureyri í dag. Gylfi gerði m.a. yfirstandandi kjaradeilu að umtalsefni og sagði að þrátt fyrir tímabundna erfiðleika, þá séu samstaða og trú á framtíðina það sem þarf til að komast yfir erfiðleikana.

Góðir félagar


Það dylst engu okkar, að íslenskt launafólk hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum frá því haustið 2008.


14000 manns eru án atvinnu og þúsundir hafa mátt leita til útlanda til að sjá fjölskyldum sínum farborða. Gengisfall krónunnar, verðbólga, verðhækkanir og verðhrun fasteigna hefur étið upp eigið fé almennings og kaupmátt launa.


Þetta er sá frostavetur sem íslenskt launafólk hefur gengið í gegnum og þetta er sá frostavetur sem við viljum sjá ljúka – við viljum sjá vor, VOR hins vinnandi manns.


1. maí, baráttudagur okkar, hefur ætíð verið okkur áminning um að barátta alþýðumanna fyrir bættum kjörum er þrotlaus barátta sem aldrei líkur.


Dagurinn er okkur einnig tækifæri til þess að rifja upp það sem verkalýðshreyfingin hefur áorkað, því oft er það þannig að við náum góðum árangri þó nú blási á móti.


Þannig notuðum við uppgangsárin fyrir hrun til þess að efla og styrkja velferðarkerfi launafólks með því að ná fram tekjutengingu atvinnuleysisbóta og hækkun grunnbóta þegar atvinnuleysi var lítið, treystum stöðu og réttindi fólks á vinnumarkaði þegar óprúttnir atvinnurekendur reyndu að ástunda félagsleg undirboð og svarta atvinnustarfsemi, jukum við og bættum veikindarétt, gerðum stórátak í menntamálum almenns launafólks og komum á fót virkri starfsendurhæfingu fyrir þá félaga okkar sem eru í hættu að falla af vinnumarkaði vegna veikinda og slysa tímabundið eða varanlega.


Þetta er mikill árangur og við eigum að vera stolt af honum, því það eru einmitt þessi úrræði sem eru það öryggisnet sem félagar okkar búa að þegar harðnar á dalnum líkt og nú hefur gerst.


En kæru félagar,


nú þarf meira til, því við munum og megum aldrei sætta okkur við að þúsundir félaga okkar séu án atvinnu um lengri tíma og við verðum að ná til baka fyrri kaupmætti og lífskjörum félaga okkar.


Þetta er ekki og verður ekki auðvelt verkefni eins og ástandið í efnahagslífinu er og hvað þá þegar við bætist yfirgangur Samtaka atvinnulífsins og grímulaus sérhagsmunagæsla þeirra á kostnað okkar og alls atvinnulífs í landinu.


Alþýðusamband Íslands lét ekki draga sig inn í þann hráskinnaleik og á ársfundi okkar s.l. haust var ákveðið að leggja upp með breiða sátt á vinnumarkaði og á vettvangi stjórnmálanna um endurreisn efnahags-, atvinnu- og velferðarkerfisins.


Forystu sambandsins var veitt skýrt umboð til þess að leggja grunn að slíkri sátt – sátt sem yrði að hvíla á almennri kaupmáttaraukningu, jöfnun kjara og aukinni atvinnu og hefði það að markmiði að stuðla að endurreisn íslensks efnahags- og þjóðlífs á gildum siðferðis og samfélagslegrar ábyrgðar í stað græðgi og sérhyggju.


Í viðræðum okkar við atvinnurekendur og stjórnvöld höfum við lagt á það áherslu að lagður verði nýr grunnur að sátt milli vinnumarkaðarins og stjórnvalda um forsendur varanlegs stöðugleika hér á landi. Íslenskt launafólk verður að geta treyst því að ríkisvaldið axli sína ábyrgð á þróun efnahagsmála og komi í veg fyrir að viðkvæmt jafnvægi milli gengis, vaxta og verðbólgu raskist – þó það kunni jafnvel að kosta þá vinsældir til skemmri tíma litið. Við höfum þannig algerlega hafnað þeirri hugmyndum að endurreisn efnahagslífsins verði byggð á þeirri veiku krónu sem við nú búum við – og festa í sessi veikan kaupmátt launa. Þvert á móti höfum við krafist þess að efnahagsstefnan grundvallist á þeirri ófrávíkjanlegu forsendu, að gengi krónunnar styrkist og a.m.k. hluti af eigna- og kjaraskerðingu okkar verði skilað með lækkun verðlags og verðbólgu!


Að sama skapi höfum við viljað byggja á grunni víðtækrar sáttar um hvernig við vinnum okkur sameiginlega út úr þessum mikla fjárhags- og félaglega vanda sem þjóðin er í og móta samræmda stefnu í efnahags-, atvinnu- og velferðarmálum. Alþýðusambandið hefur löngum talið að þessari þróun verði aðeins snúið við með aukinni verðmætasköpun og nýjum fjárfestingum. Ísland er í fararbroddi í vistvænni orkunýtingu og á þar mörg ónýtt tækifæri í sátt við náttúruna.Ýta verður undir nýsköpun, styðja við sprotafyrirtæki, auðvelda erlenda fjárfestingu, auka fullvinnslu innanlands og bæta markaðssetningu erlendis á afurðum, þjónustu, og hugviti.


En gleymum því ekki og reynslan hefur einfaldlega sýnt okkur að samfélög sem byggð eru á mannréttindum, félagslegu réttlæti, samstöðu og lýðræði með öflugu og virku velferðarkerfi, góðri menntun fyrir alla, jöfnuði og jafnréttiog traustum réttindum launafólks eru best búin undir framtíðina. Þar eru norrænu velferðarsamfélögin okkar fyrirmynd og þá fyrirmynd eigum við að nota í því mikla endurreisnarstarfi sem við erum í.


Ágætu félagar,


að sama skapi verðum við að horfast í augu við, að öflugt velferðarsamfélag verður aðeins reist á trúverðugum og varanlegum efnahagslegum stöðugleika og uppbyggingu, sem leggur grunn að öryggi í lífskjörum okkar og afkomu.


Þann stöðugleika og trúverðugleika sem okkur vantar svo sárlega nú, höfum við einstætt tækifæri til að ná með því að ljúka viðræðum okkar við Evrópusambandið um aðild, þar sem við stöndum fast á samningsmarkmiðum okkar í sjávarútvegi, landbúnaði og byggðamálum og stefnum að upptöku evru í framhaldi af því.


Þetta eru stórar og fyrir marga þungbærar ákvarðanir sem ég geri mér fulla grein fyrir að skiptar skoðanir eru um í okkar samtökum, en aðal atriðið er að þjóðin sjálf fái að taka afstöðu til þeirra í þjóðaatkvæðagreiðslu byggt á hagsmunamati á skýrri samningsniðurstöðu en ekki afstöðu þingmanna á grundvelli krafna sérhagsmunahópa.Höfum það hugfast, að til að móta nýtt samfélag sem verði reist á öðrum og traustari forsendum en áður giltu, verðum við að hafa kjark til þess að breyta til og tíminn til slíkra ákvarðana er nú, en ekki seinna, því það kann að verða of seint!


Góðir félagar,


mikil umræða hefur verið um stöðu þeirra sem minnst bera úr býtum – bæði þeirra sem eru á læstu launum á vinnumarkaði og þeirra sem búa við afkomutryggingar velferðarkerfisins – og eðlileg krafa um að úr því verði bætt. Sætir mikilli furðu hvernig ríkisstjórn, sem einkennir sig við norræna velferðarkerfið, hefur staðið að þeim málum. Ég vil því nota þetta tækifæri til þess að árétta, að Alþýðusambandið hefur ávallt litið á sig sem bæði talsmann og verndara þeirra sem búa við lökustu kjörin í þessu landi, hvort sem þeir eigi formlega aðild að samtökunum eða ekki. Gleymum því ekki að þrátt fyrir mesta efnahagshrun Íslandssögunnar hefur verkalýðshreyfingunni tekist að verja kaupmátt lægstu laun og bóta með meiri hækkunum en almennt urðu og við ætlum okkur að halda því áfram. Krafa okkar á atvinnurekendur um meiri launahækkanir til þeirra tekjulægstu er runninn undan þessum rifjum og krafan um að stjórnvöld hækki bætur almanna- og atvinnuleysistrygginga um sömu fjárhæð og um semst fyrir þá tekjulægstu er skýr og frá henni verður ekki kvikað.


En við höfum gengið lengra – við höfum krafið stjórnvöld um bæði skýrari og markvissari aðgerðir í húsnæðismálum þessara hópa. Við ætlumst til þess að stjórnvöld auki framlög til félagslega íbúðalausna og breyti forsendum húsaleigubóta þannig að almennt launafólk fái húsaleigubætur til jafns við þá sem ráð hafa á að kaupa eigin íbúð og njóta vaxtabóta.


Góðir félagar,


málefni ungs fólks á vinnumarkaði hafa verið okkur hugleikin á undanförnum árum. Á ársfundi ASÍ í október 2008, gerðum við stöðu ungs fólks í verkalýðshreyfingunni og í samfélaginu að umræðuefni. Á síðasta ári var samþykkt að stofna sérstaka ungliðahreyfingu innan okkar vébanda til að ungt fólk geti fjallað um sín mál. Verður stofnþing þessarar ungliðahreyfingarinnar – ASÍ-ung – haldið í lok maí. Ég vil leyfa mér í þessu samhengi að fagna nýkjörnum forystumönnum hjá VR og Rafiðnaðarsambandinu í okkar sveit, en um er að ræða unga og kraftmikla einstaklinga sem vafalaust eiga eftir að setja mark sitt og sinnar kynslóðar á okkar baráttu.


Ég vil líka geta þess að í þeim erfiðu viðræðum sem við höfum átt undanfarna mánuði hefur ASÍ lagt mikla áherslu á hagsmuni ungs fólks. Þannig náðum við í samstarfi við atvinnurekendur og stjórnvöld samkomulagi um að opna framhaldsskólann fyrir fólk yngra en 25 ára eftir að framhaldsskólarnir höfðu vegna niðurskurðar nánast lokað skólunum fyrir alla eldri en 18 ára.Að sama skapi verður staða starfs- og verknáms og aðstaða til starfsþjálfunar bætt verulega. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar og stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs var þessum áformum ýtt úr vör þegar fyrir páska óháð framvindu kjaraviðræðna og er það sérstakt fagnaðarefni, enda aðgerðin mikilvæg.


Kæru félagar,


Ég hefði haldið að um flest af þeim markmiðum um endurreisn okkar efnahags- og þjóðlífs væri ekki mikill ágreiningur og strax í nóvember 2010 hófust við handa um að móta forsendur þríhliða sáttar til næstu þriggja ára og í byrjun janúar kynntum við bæði stjórnvöldum og atvinnurekendum okkar áherslur.


En leiðin að markmiðinu hefur verið þyrnum stráð, bæði gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum, með ótrúlegum uppákomum á stundum.


Alþýðusambandið sleit þannig viðræðum við SA í janúar þegar LÍÚ tók kjarastefnu Samtaka atvinnulífsins í gíslingu með hótunum um að ekki yrði samið um neinar launahækkanir nema að breytingar í sjávarútvegi yrði þeim að skapi. ASÍ var ekki tilbúið til þess að láta nota kjarasamningaviðræður og þann þrýsting sem myndast kann á stjórnvöld þegar líður að lokum viðræðna, til þess að gefa atvinnurekendum færi á því að nota efni slíkra kjarasamninga til að þrýsta á um sérhagsmuni LÍU.Að lokum tókst að ná óformlegu samkomulagi um uppbyggingu þriggja ára kjarasamnings – og efni skammtímasamnings – ef þessi staða í sjávarútvegi kæmi upp aftur og viðræður gátu haldið áfram.


Stjórnvöld voru treg í taumi þegar kom að ýmsum þeim málum sem okkur standa nærri. Um flest náðist þó sátt að lokum þó stór og veigamikil atriði hafi enn staðið út af borðinu.


Þar ber hæst kröfu okkar um að þegar í stað verði eytt þeim óásættanlega mun sem er á lífeyrisréttindum almenns launafólks og opinberra starfsmanna. Ekki þannig að gengið verði á áunnin réttindi opinberra starfsmanna heldur þvert á móti þannig að lífeyriskjör verði jöfnuð upp á við. Það er ófrávíkjanleg krafa okkar að á þessu verði tekið í yfirstandandi samningaviðræðum!


Eftir afar flóknar og erfiðar viðræður við atvinnurekendur og stjórnvöld hyllti undir lausn á föstudaginn fyrir dymbilviku. Langtímasamningur lá á borðinu með innbyggðan skammtímasamning ef SA kysi að hoppa frá borði. Stjórnvöld höfðu þá komið verulega til móts við kröfur okkar og atvinnurekenda en þá brá svo við að SA kaus að ganga á bak orða sinna.


Þeir höfðu reynt að gera deilu úr flestu, bæði við samningaborðið og við stjórnvöld, og ljóst varð að SA ætlaði að láta stranda á sjávarútvegsmálunum, og nota efni þriggja ára kjarasamnings til að þvinga stjórnvöld.


Þetta olli okkur miklum vonbrigðum og þegar forysta ASÍ hermdi fyrri loforð SA um skammtímasamning brá svo við að forysta SA sveik loforð sín og setti fram algerlega óaðgengilegar kröfur á ASÍ þess efnis að verkalýðshreyfingin fylkti liði við hlið SA í stríði þeirra við ríkisstjórnina um sjávarútvegsmál.


Við svo búið gekk samninganefnd ASÍ úr húsi.


Og nú tikkar klukkan.


Þrátt fyrir að hafa fengið tækifæri í hartnær tvær vikur að koma að samningaborðinu á eðlilegum og löglegum forsendum sitja atvinnurekendur enn við sinn keip. Þrátt fyrir allt tal þeirra um ,,atvinnuleiðina‘‘ og gengdarlausan áróður hefur komið í ljós, að þetta er bara yfirskyn í ófyrirleitinni og hrárri pólitískri baráttu um yfirráð yfir helstu auðlind þjóðarinnar, auðlindinni okkar – fisknum í sjónum.


En ágætu félagar – það kom ekki og kemur ekki til álita að atvinnurekendur misnoti Alþýðusambandið eða kjarasamninga launafólks til þess að treysta eignarhald LÍÚ á þessari auðlind!


Ég verð einnig að lýsa furðu minni yfir því, að forystumenn annarra atvinnugreina í landinu hafi látið draga sig út í þetta fúafen. Öllum ætti að vera ljóst, að útgerðamenn geta ekki annað en hagnast á langvinnri kjaradeilu og verkföllum. Þá veikist krónan og þeir græða og ef þeim tekst að fella ríkisstjórnina þá yrði það þeim ekki síður að skapi. Þeir munu ekki bera herkostnaðinn af því, það munu aðrar atvinnugreinar og íslenskur almenningur gera.


Staðan í kjaramálum er því graf alvarleg og djúp gjá á milli höfuðsamtakanna á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins höfnuðu ekki einungis formi þess þriggja ára kjarasamnings sem mikil vinna hafði verði lögð í þann 15. apríl, heldur fóru samtökin þremur dögum síðar og sömdu um aðrar og meiri launahækkanir við Elkem með afturvirkni til 1. janúar.Atvinnurekendur verða að gera sér grein fyrir því að verkalýðshreyfingin er ekkert jó-jó í höndum þeirra sem þeir geta farið með að eigin geðþótta.Þeir hafa sjálfir komið í veg fyrir að hægt verði að taka upp þráðinn frá því fyrir páska! Því var blaðamannafundur þeirra á föstudaginn og leikþættir í sjónvarpi um að ,,SA vilji fara atvinnuleiðina‘‘ ótrúverðugir og undirstrika þá kyrrstöðu sem samningamálin eru í því þeir eru ennþá með kröfu um að sjávarútvegsstefnan verði þeim að skapi og allar líkur á að sama verði upp á teningnum 15. júní!


Ljóst er að til þess að rjúfa þessa kyrrstöðu og gíslatöku LÍÚ og SA þarf verkalýðshreyfingin að sameinast og bregðast hart við og það gerum við einungis með því að leita til félagsmanna okkar um heimild til verkfalla.


Til þess erum við treg því samfélagslegur kostnaður verkfalla er mikill og mikil ábyrgð sem fylgir notkun þeirra. Það er hins vegar búið að stilla okkur upp við vegg og við eigum engra annara kosta völ en að grípa til verkfallsvopnisins. Ekki einungis er langlundargeð okkar gagnvart atvinnurekendum þrotið, það er búið að misbjóða íslensku launafólki herfilega með því að taka kjarabætur þess í gíslingu við þessar aðstæður.


En við verðum líka að gera okkur grein fyrir því, að Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þess eru mjög vel skipulögð, miðstýrð og fjárhagslega sterk samtök. Það duga því engin vettlingatök eða smáskammtaaðgerðir í glímunni við þá.


Það vopn sem best bítur við þessar aðstæður er því hið aldagamla vopna okkar allsherjarverkfall til þess að hámarka þrýstinginn og herkostnað atvinnurekenda þegar í upphafi. Það er ekki af léttum hug sem forseti ASÍ leggur til við aðildarsamtökin og félagsmenn að hefja undirbúning allsherjar aðgerða, en verum minnug þess að þegar allir taka á árinni verður álagið á hvern og einn minna, en sameinað afl þeirra í samstöðunni þeim mun meira. Þannig náum við árangri!


Góðir félagar.


Fjölskyldur okkar hafa orðið fyrir gífurlegu áfalli og það eru erfiðir og alvarlegir tímar framundan. Um langt skeið hefur verkalýðshreyfingin ekki þurft eins mikið á að halda órofa stuðningi og samstöðu allra sinna félagsmanna.


·Við látum ekki taka afkomu okkar í gíslingu sérhagsmuna.


·Við sættum okkur ekki við kyrrstöðu.


·Við sættum okkur ekki við atvinnuleysi.


·Við krefjumst réttmætra launahækkana.


Samstaða og trú á framtíðina er allt sem þarf. Það er og hefur alltaf verið drifkraftur og hreyfiafl verkalýðshreyfingarinnar og 1. maí er tákngervingur þess. Nú látum við sverfa til stáls í krafti samstöðunnar sem á tæpum hundrað árum hefur fært vinnandi fólki á Íslandi ófáa sigrana. Við skulum brjóta gíslatöku SA á bak aftur og krefjast réttmætra launahækkana.


Gleðilegt sumar og til hamingju með þennan mikilvæga baráttudag okkar.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com