Alþýðusamband Íslands telur þær tillögur stjórnvalda um aðgerðir vegna COVID-19 kreppunnar sem lúta að framfærslu og afkomuöryggi vera skref í rétta átt og mæta kröfunni um sértækar aðgerðir fyrir þá hópa sem hafa tekið versta skellinn.
Alþýðusamband Íslands telur þær tillögur stjórnvalda um aðgerðir vegna COVID-19 kreppunnar sem lúta að framfærslu og afkomuöryggi vera skref í rétta átt og mæta kröfunni um sértækar aðgerðir fyrir þá hópa sem hafa tekið versta skellinn. Mikilvægasta aðgerðin til að vinna að öflugri viðspyrnu eftir kreppuna er að tryggja afkomuöryggi fólks. Skortur á afkomuöryggi getur leitt til langvarandi skuldavanda og gert kreppuna dýpri og skaðlegri en hún þarf að vera. Kreppan hefur komið verst við þann hóp fólks sem hefur misst vinnuna og atvinnuleysi er nú í sögulegum hæðum. Í því sambandi er rétt að minna á að atvinnuleysi var þegar vaxandi fyrir COVID-kreppuna og að bæði hagspá ASÍ og Seðlabankans gera ráð fyrir að það geti tekið tíma að vinna það niður. Því styður ASÍ þær tillögur sem miða að því að bæta hag atvinnuleitenda, samhliða því að stuðla að atvinnusköpun.
Sértækar aðgerðir, sem mæta þeim sem hafa orðið fyrir mestu tjóni, eru bæði réttlátar og skynsamlegar. Hins vegar þarf að setja spurningamerki við almennar aðgerðir sem kalla á mikil fjárútlát og renna jafnt til þeirra sem á þurfa að halda og þeirra sem kæmust að líkindum vel af án þeirra. ASÍ setur fyrirvara við almennar og kostnaðarsamar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum án þess að fyrir liggi mat á þörfinni sem er til staðar. Tímabundið tekjufall er ekki endilega merki um bráðavanda. ASÍ vekur athygli á því að í þessum efnahagspakka er áætlaður kostnaður við breytingar á atvinnuleysistryggingum og örorku- og enduhæfingarlífeyri, auknum stuðningi við barnafólk og sértækar félagslegar aðgerðir samtals um 9 milljarðar króna á meðan beinn stuðningur við fyrirtæki getur numið allt að 20 milljörðum króna, sem þá leggjast ofan á fyrri upphæðir sem hafa farið í sambærilegar aðgerðir. ASÍ ítrekar fyrir kröfur sínar um að fólk sé í fyrirrúmi í aðgerðum vegna kreppunnar, ekki fjármagn.
Viðbrögð ASÍ við einstaka aðgerðum fara hér á eftir.
Aðgerðir fyrir atvinnuleitendur
• ASÍ fagnar því að hlutabótaleiðin verði framlengd út maí, enda er það í samræmi við tillögur sem ASÍ hefur áður sett fram. Hlutabótaleiðin ver ráðningasamband samhliða því að koma til móts við vanda fyrirtækja og hefur orðið til þess að fyrirtæki segja upp færra fólki en ella og eiga þar með auðveldara með að hefja starfsemi sína að nýju þegar betur árar. ASÍ áréttar að hlutabótaleiðin þarf að vera virk eins lengi og kreppan varir.
• ASÍ telur skref í rétta átt að hækka grunnbætur atvinnuleysistrygginga í 307 þúsund krónur og að hækkaðar greiðslur vegna framfærslu barna atvinnuleitenda séu framlengdar. Jafnframt fagnar ASÍ því að greitt verði út viðbótarálag á grunnbætur á árinu. ASÍ telur þó að hér sé ekki nógu langt gengið. ASÍ hefur krafist þess að grunnbætur verði hækkaðar í 95% af dagvinnutekjutryggingu eða úr 289.510 kr. í 318.250 kr. Þessar fjárhæðir skipta sköpum fyrir þá einstaklinga sem þurfa að lifa af grunnbótum atvinnuleysistrygginga. Þá áréttar ASÍ kröfu sína um að þak tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði hækkað og að fyrri tekjur upp að dagvinnutekjutryggingu skerði ekki tekjutengdar atvinnuleysisbætur.
• ASÍ hefur vakið athygli á mikilvægi desemberuppbótar fyrir atvinnuleitendur en það er mikilvæg aðgerð til að koma í veg fyrir neyð í kringum hátíðarnar. ASÍ telur jákvætt að desemberuppbót verði greidd út, einnig fyrir einstaklinga sem nýta hlutabótaúrræðið. ASÍ gerir hins vegar athugasemd við að uppbótin sé lægri en umsamin uppbót í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, sem nemur 94 þúsund krónum. ASÍ fer fram á að sett sé almenn reglugerð um desemberuppbót atvinnuleitenda fremur en að hún sé háð ákvörðun ráðherra á hverju ári.
Aðgerðir fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega
• ASÍ fagnar því að dregið verði úr innbyrðis skerðingum milli flokka í almannatryggingakerfinu sem kemur tekjulægstu lífeyrisþegunum best. Þá er eingreiðsla til öryrkja upp á 50.000 krónur skatta- og skerðingalaust jákvætt skref og í samræmi við kröfur ASÍ. ASÍ telur þó að framfærslu öryrkja þurfi að taka til gagngerrar endurskoðunar enda á það að glíma við sjúkdóma og skerðingar ekki að vera ávísun á fátækt.
Aðgerðir fyrir barnafjölskyldur
• ASÍ telur jákvætt að skerðingarmörk í barnabótakerfinu verið hækkuð en telur að þar sé ekki nægilega langt gengið. Sú aðgerð ein og sér gagnast hjónum og sambúðarfólki betur en einstæðum foreldrum, en einstæðir foreldrar glíma hins vegar oftar við meiri fjárhagsvanda.
• Framlenging viðbótarstuðnings til tómstundaiðkunarbarna af lágtekjuheimilum og desemberuppbót til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna eru hvoru tveggja góðar og mikilvægar aðgerðir.
• ASÍ áréttar að öfugt við hin Norðurlöndin hefur íslenska barnabótakerfið tekið á sig mynd fátæktarstyrks. Skylda stjórnvalda til að tryggja framfærslu fólks er skýr og barnabótakerfið á ekki að teljast liður í henni. Barnabætur eiga aftur á móti að jafna fjárhagsstöðu fjölskyldna óháð barnafjölda og á milli æviskeiða.
Aðgerðir fyrir fyrirtæki
• Í efnahagspakkanum eru boðaðir svokallaðir viðspyrnustyrkir en þeim er ætlað að styðja við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli. Þetta úrræði bætist við fyrri úrræði um tekjufalls- og lokunarstyrki. Um leið og ASÍ telur mikilvægt að styðja við fyrirtæki í brýnni neyð telur ASÍ vert að gagnrýna að farið sé í svo almennar og kostnaðarsamar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum án þess að reynt sé að meta hvort raunveruleg þörf sé til staðar. Tímabundið tekjufall er ekki endilega merki um bráðavanda og óljóst hvers vegna farin sé sú leið að veita styrki fremur en að tryggja fyrirtækjum lánsfjármagn.
Sértækar félagslegar aðgerðir
• Í kaflanum um sértækar félagslegar aðgerðir er að finna ýmsar aðgerðir sem miða að því að auka þjónustu við viðkvæma hópa og draga úr félagslegri einangrun. Þetta eru mikilvægar aðgerðir og Alþýðusambandið er þeim fylgjandi.
• ASÍ tekur sérstaklega undir þær aðgerðir sem lúta að innflytjendum en útlendingar á vinnumarkaði hafa orðið afar illa úti í COVID-kreppunni. Aukin starfsemi Fjölmenningarseturs er mikilvæg en ASÍ vekur athygli á því að fjárframlög til ráðgjafarstofu innflytjenda hafa verið vanáætluð og eru enn ekki í hendi til frambúðar. Ráðgjöf við innflytjendur getur ekki verið átaksverkefni, hún þarf að komast í varanlegt horf í samræmi við fjölbreytta samsetningu íbúa Íslands.
• ASÍ telur að efla þurfi Vinnumálastofnun til að bæta þjónustu við útlendinga meðal atvinnuleitenda, en erlendir ríkisborgarar eru nú yfir 40% af þeim sem eru á atvinnuleysisskrá.
• ASÍ tekur undir með að beina þurfi sérstaklega sjónum að ungmennum sem hvorki eru í vinnu né námi. Þeim hópi þarf að mæta í heild sinni, þótt vissulega beri að horfa sérstaklega til erlendra ungmenna sem eru hlutfallslega mörg innan hópsins. ASÍ telur hins vegar að það geti reynst ómarkvisst að beina einungis 20 milljónum króna inn í þróunarsjóð innflytjendamála til að takast á við vanda af þeirri stærðargráðu sem hér blasir við. Takmarkaðar greiningar liggja fyrir sem varpa ljósi á samsetningu þessa hóps og ástæður vanvirkninnar. Því er mikilvægt að farið sé inn í þetta verkefni með heildstæðum hætti, en ekki tilviljanakenndum.
• ASÍ styður að auknum styrkjum sé beint til frjálsra félagasamtaka, bæði sem veita andlegan stuðning og fjárhagslegan. ASÍ minnir þó á grunnskyldu stjórnvalda að tryggja framfærslu fólks svo að það þurfi ekki að leita til hjálparsamtaka til að hafa í sig og á. Sama á við um að fólk eigi þak yfir höfuð.
• ASÍ telur jákvætt að setja á laggirnar viðbragðsteymi um fjárhagsstöðu heimilanna og mun taka þátt í þeirri vinnu af fullum þunga og hefur þegar kynnt ráðuneytinu hugmyndir um leiðir til að girða fyrir skuldavanda heimilanna. Draga þarf lærdóm af þeim vanda sem skapaðist í kjölfar hrunsins.
Að lokum áréttar ASÍ mikilvægi þess að sveigjanleiki opinberra fjármála verði nýttur að fullu til að koma í veg fyrir langvarandi skaða af kreppunni. Þá þarf að fylgjast náið með fjárhagsstöðu heimilanna og greina þá hópa atvinnuleitenda sem eru í mestum vanda og bregðast við strax til að girða fyrir langvinnan skuldavanda heimila og einstaklinga. ASÍ er reiðubúið til samstarfs við stjórnvöld um slíkar greiningar og mótun tillagna með það að markmiði að tryggja afkomuöryggi fólks, sem jafnframt er mikilvægasta aðgerðin til að minnka skaðann af kreppunni.