Íbúðafjárfesting dregst saman
Það dregur úr fjárfestingu en samdráttur mælist 4,3% á þriðja ársfjórðungi og framlag fjármunamyndunar til hagvaxtar neikvætt. Áfram mælist samdráttur í íbúðarfjárfestingu en mat Hagstofunnar er að samdrátturinn nemi 5,8% á þriðja ársfjórðungi og 7,2% það sem af er ári. Viðvarandi samdráttur hefur verið í íbúðarfjárfestingu frá 2021, eftir aukningu árin á undan.
Opinber fjárfesting dregst mest saman en þar gætir þó grunnáhrifa því á sama ársfjórðungi í fyrra átti sér stað færsla fasteigna yfir til hins opinbera. Það sem af er ári hefur fjármunamyndun hins opinbera dregist saman um rúmlega 13% miðað við sama tíma í fyrra. Fjármunamyndun atvinnuveganna jókst um 3,1% að raunvirði á þriðja ársfjórðungi, og 4,7% það sem af er ári.
Stærsta jákvæða framlag til hagvaxtar kemur frá utanríkisviðskiptum, en áætlanir gefa til kynna að þau hafi skilað jákvæðu framlagi sem nemur 2,2% á þriðja ársfjórðungi sem er sambærilegt framlagi utanríkisviðskipta til hagvaxtar á fyrsta og öðrum ársfjórðungi. Afgangur af þjónustujöfnuði er umfram halla á viðskiptajöfnuði en afgangur af þjónustujöfnuði er að miklu leiti tilkominn vegna áframhaldandi uppgangs ferðaþjónustu.
Þróunin í takt við spá ASÍ
Tölur Hagstofunnar eru í samræmi við hagspá ASÍ sem birt var fyrr á árinu. Þar var bent á að hægja myndi á vexti í hagkerfinu og að verðbólga yrði þrálát á spátímanum. Í spá ASÍ var einkum bent á þrennt. Í fyrsta lagi að þrengingar í fjárhagi heimila myndu draga úr einkaneyslu. Í öðru lagi að vaxtahækkanir myndu hægja á íbúðafjárfestingu og hafa neikvæð áhrif á byggingaáform verktaka. Í þriðja lagi að verðbólga yrði há og þrálát á spátímanum.
Ljóst er að tölur Hagstofunnar staðfesta að hægt hefur á innlendri eftirspurn. Þróun utanríkisviðskipta bendir á móti til þess að ferðaþjónustan er enn þensluvaldur í hagkerfinu. Forseti ASÍ hefur gagnrýnt þessa hagstjórn þar sem vöxtum er beitt til að bremsa innlenda hagkerfið á sama tíma og ekki er brugðist við vexti ferðaþjónustunnar1.