Skip to main content

Verslunin Bónus út á Granda var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í 9 verslunum á höfuðborgarsvæðinu sl. mánudag, en farið var í lágvöruverðsverslanir og stórmarkaði. Hæsta verðið var oftast að finna í Nóatúni Austurveri eða í um þriðjungi tilvika. Munurinn á hæsta og lægsta verði vöru í könnuninni var frá 5% upp í 119% en oftast var 15-45% verðmunur á hæsta og lægsta verði.

Verslunin Bónus út á Granda var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í 9 verslunum á höfuðborgarsvæðinu sl. mánudag, en farið var í lágvöruverðsverslanir og stórmarkaði. Hæsta verðið var oftast að finna í Nóatúni Austurveri eða í um þriðjungi tilvika. Munurinn á hæsta og lægsta verði í könnuninni var frá 5% upp í 119% en oftast var 15-45% verðmunur á hæsta og lægsta verði.

Af þeim 116 vörutegundum sem skoðaðar voru, voru flestar vörurnar fáanlegar hjá Fjarðarkaupum Hafnarfirði eða 110 og Hagkaupum í Skeifunni átti 105. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Nóatúni eða 86 af 116 og Nettó Mjódd átti 89. Af þessum 86 vörum sem Nóatún átti til var verslunin dýrust í 34 tilvikum.

Mestur verðmunur var á ávöxtum og grænmeti
Af þeim vörum sem skoðaðar voru var mestur verðmunur á ávöxtum og grænmeti, verðmunurinn var 40-119%. Minnstur verðmunur var á rófum eða 40% en þær voru dýrastar á 398 kr. hjá Víði en ódýrastar á 285 kr. hjá Krónunni. Mestur verðmunur í könnuninni var á banönum sem voru dýrastir á 414 kr. hjá Hagkaupum en ódýrastir á 189 kr. hjá Bónus og Víði sem er 225 kr. verðmunur eða 119%.

Einnig má nefna að 45% verðmunur var á íslenskri agúrku sem var ódýrust á 451 kr.kg. hjá Bónus en dýrust á 654 kr.kg. hjá Iceland. Benda má neytendum á að agúrka er seld í stykkjatali í mörgum verslunum og miðast þá stykkið við 350 grömm.

Minnstur verðmunur var á osti, viðbiti og mjólkurvörum
Minnstur verðmunur að þessu sinni var 5% á 1 l. af nýmjólk, fjörmjólk og laktósalausri mjólk. En fjörmjólkin var ódýrust á 156 kr. hjá Víði Skeifunni en dýrust á 165 kr. hjá Iceland Arnarbakka. Í þessum vöruflokki var mestur verðmunur á Gunnars remolaði sem var ódýrast á 318 kr. hjá Bónus en dýrast á 445 kr. hjá Samkaupum-Úrval Hafnarfirði, sem er 40% verðmunur.

Mikill verðmunur í öllum vöruflokkum
Af öðrum vörum má nefna að kílóverð af heilum ferskum kjúklingi var ódýrast á 759 kr. hjá Bónus og Krónunni en dýrast á 932 kr. hjá Nóatúni, sem er 173 kr. verðmunur eða 23%. Kjörís – Mjúkís ársins 2015 var ódýrastur á 585 kr. hjá Bónus en dýrastur á 862 kr. hjá Krónunni sem er 47% verðmunur.

Royal karamellubúðingur var ódýrastur á 198 kr. hjá Bónus en dýrastur á 258 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 30% verðmunur. Mikill verðmunur var einnig á Pedigree hundafóðrinu (lam+ris) 400 gr. dós sem var ódýrust á 256 kr. hjá Bónus en dýrust á 365 kr. hjá Nóatúni sem er 43% verðmunur.

Egils gull léttbjórinn var ódýrastur á 118 kr. hjá Fjarðarkaupum en dýrastur á 149 kr. hjá Hagkaupum sem er 26% verðmunur. Að lokum má nefna að Mango te frá Pickwick 20stk. var ódýrast á 365 kr. Fjarðarkaupum en dýrast á 424 kr. hjá Nettó, Samkaupum-Úrvali og Hagkaupum sem er 16% verðmunur.  

Sjá nánari upplýsingar í töflu á heimasíðu ASÍ.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Granda, Krónunni Granda, Nettó Mjódd, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Nóatúni Austurveri,  Samkaupum-Úrvali Hafnarfirði, Hagkaupum Skeifunni, Víði Skeifunni og Iceland Arnarbakka.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com