Skip to main content
AldanVMF

ASÍ hefur aldrei átt aðkomu að skipun stjórna lífeyrissjóða

By December 6, 2016No Comments

Nýkjörinn formaður Neytendasamtakanna, Ólafur Arnarson, viðrar þá skoðun sína í viðtali í Ríkisútvarpinu síðastliðinn mánudagsmorgun að rétt sé að samtökin yfirtaki verðlagseftirlit ASÍ svo tryggt sé að framkvæmd og stjórn verðkannana sé hafin yfir allan vafa.

Nýkjörinn formaður Neytendasamtakanna, Ólafur Arnarson, viðrar þá skoðun sína í viðtali í Ríkisútvarpinu síðastliðinn mánudagsmorgun að rétt sé að samtökin yfirtaki verðlagseftirlit ASÍ svo tryggt sé að framkvæmd og stjórn verðkannana sé hafin yfir allan vafa. Þar vísar formaðurinn til eigin fullyrðinga um að Alþýðusambandið ásamt Samtökum atvinnulífsins stýri öllum lífeyrissjóðum landsins sem séu hluthafar í markaðsráðandi fyrirtækjum á dagvörumarkaði. Þessar ásakanir formannsins um óhlutdrægni verðlagseftirlitsins eru afar óbilgjarnar því öllum sem kynna sér málið ætti að vera ljóst að Alþýðusamband Íslands hefur aldrei haft neina aðkomu að því að skipa fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóða hér á landi. Þó lífeyriskerfi almenns launafólks hafi orðið til með kjarasamningum árið 1969 hefur aðkoma ASÍ að uppbyggingu kerfisins einungis verið á grundvelli almennra hagsmuna og réttinda launafólks í lífeyrismálum. Það er því fjarri sannleikanum að fullyrða, að Alþýðusambandið stýri lífeyrissjóðunum og enn langsóttara að tilvist lífeyriskerfisins valdi því að sambandið sé óhæft til sinna verðlagseftirliti í verslunum til að upplýsa og verja kaupmátt félagsmanna sinna.

Í sjálfu sér ber að fagna því að formaður Neytendasamtakanna vilji leggja lið í að fylgjast betur með verðlagi á markaði hér á landi, en eins og kunnugt er hefur Alþýðusamband Íslands um árabil verið eini aðilinn sem sinnt hefur því verkefni sem þó er ærið. Það er að sama skapi dapurlegt að formaður Neytendasamtakanna skuli velja að ráðast gegn þeim samtökum sem leggja fram mikla fjármuni til að sinna þessu verkefni af myndarskap undanfarin 25 ár með því að ganga erinda verslunarinnar og sá fræjum tortryggninnar og rýra trúverðugleika verðalagseftirlits ASÍ.  Honum væri nær að leggjast á árar með okkur til að sinna hagsmunagæslu fyrir neytendur, en eins og honum er kunnugt eru neytendamál víða í ólestri hér á landi. Í allt of langan tíma hafa stofnanir sem sinna neytendavernd verið veikar og pólitísk áhersla á neytendamál lítil. Kröftum formannsins væri því betur varið í að styrkja stöðu neytendamála í stað þess að byrja á að ráðast gegn samherjum sínum á þessu sviði, því verkefnin eru mörg og brýn eins og dæmin sanna.

 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com