Skip to main content
Stéttarfélag.is

ASÍ: Ný Airpods kosta 40% meira á Íslandi

By September 23, 2025No Comments

Airpods Pro 3 kosta 28-65% meira á Íslandi en í átta samanburðarlöndum. Verðmunurinn er mun meiri en á nýjum iPhone símum. Þetta kemur fram í úttekt Verðlagseftirlitsins á nýútkomnum vörum frá tæknifyrirtækinu Apple.

Vörurnar voru kynntar í byrjun september og hófst sala á þeim í liðinni viku. Skoðað var verð á nýju iPhone línunni, tveimur hulstrum framleiddum af Apple og nýjum Airpods Pro ómvölum. Verðbilið milli íslenskra söluaðila og erlendra var minnst á símunum en mest á Airpods Pro, en hulstrin féllu þar á milli.

Verð var tekið í stórum keðjum og hjá Apple verslunum í hinum ýmsu löndum. Af þeim aðilum sem skoðaðir voru var Elgiganten í Svíþjóð næst íslensku verðlagi, 7% undir íslensku verði að meðaltali. Þar kosta nýir iPhone símar svo gott sem það sama og á Íslandi. Hins vegar kosta nýjar Airpods Pro 3 ómvölur 28% meira á Íslandi en í sænska systurfyrirtæki ELKO.

Verðbilið breikkar lítillega í Apple-búðinni í Danmörku og er orðið 40% sunnan landamæranna í Þýskalandi. Þó eru allir evrópsku verðpunktarnir á vörunni svipaðri innbyrðis en gagnvart Íslandi. Bandaríkin, heimaland Apple, skera sig svo úr þar líkt og í verði símanna sjálfra. Þar kosta Airpods Pro 3 ígildi rétt rúmra 30 þúsund króna.

Taka þarf fram að bandarísk verð eru gefin upp án söluskatts, sem er í sumum fylkjum enginn, en getur verið yfir 10%.

Alls voru 17 vörur bornar saman og 206 verðathuganir framkvæmdar. Miðað var við verð og gengi sunnudaginn 21. september.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com