Skip to main content
AldanVMF

Bjarg íbúðafélag hækkar viðmiðin

By November 23, 2018No Comments

Drífa Snædal, forseti ASÍ, fer yfir helstu verkefni vikunnar í föstudagspistli sínum.

Húsnæðismál eru stóru málin nú um stundir, engum blöðum er um það að fletta. Bjarg íbúðafélag, sem er í eigu ASÍ og BSRB, hamast við að leggja sitt af mörkum til uppbyggingar íbúða fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur og er nú með 271 íbúð í byggingu og 397 í hönnunarferli. Stefnt er að því að byggja um 1400 leiguíbúðir á næstu fjórum árum. Þetta telur í stóra samhenginu en Íbúðalánasjóður segir uppsafnaða þörf um 6-9 þúsund íbúðir. Það þarf því að byggja mikið og hratt til að vinna á neyðarástandi á húsnæðismarkaði.

Með eigin íbúðafélagi fá stéttarfélögin góða tilfinningu fyrir áskorunum í byggingariðnaði varðandi framkvæmdir og aðbúnað starfsfólks. Lögð er áhersla á samvinnu við eftirlitsfulltrúa stéttarfélaganna og hafa iðnaðarmannafélögin hvergi dregið af sér í eftirliti á byggingarsvæðum Bjargs og er það vel. Reyndar er Bjarg með ákvæði í útboðsgögnum um keðjuábyrgð þannig að þeir verktakar sem fá verkið eru ábyrgir fyrir því að allir undirverktakar greiði kjarasamningsbundin laun og aðbúnaður sé góður. Með því að vanda útboðsskilmála, hafa gott eftirlit og velja verktaka af kostgæfni hefur Bjargi tekist að auka framleiðni, bæta starfsanda og fækka vinnuslysum. Þar að auki eru verkefnin á undan áætlun.

En meira þarf að koma til og er það stærsta verkefnið að auka enn við framboð og nýta húsnæðisstuðning hins opinbera þannig að hann nýtist þeim sem eru tekjulægstir og í mestum vandræðum. Leiga hefur hækkað miklu meira en laun og hafa kjarabætur stórra hópa brunnið upp á húsnæðismarkaðnum. Húsnæðismál eru því með stærstu kjaramálunum!

Vikan hefur verið fjölbreytt að vanda, ég og varaforsetarnir Vilhjálmur og Kristján Þórður hittum seðlabankastjóra til að ræða peningastefnuna, þingflokkur Samfylkingarinnar bauð mér í spjall, ég sótti fund NFS (Norræni samráðsvettvangur stéttarfélaganna) í Osló og naut þess að spjalla við trúnaðarráð Rafiðnaðarsambands Íslands á Selfossi. Í morgun ræddu svo aðilar vinnumarkaðarins við stjórnvöld um húsnæðismál og þau fjölmörgu verkefni sem ekki verða leyst nema í samráði og samstarfi.

Njótið helgarinnar,
Drífa

 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com