Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á matvöru í lágvöruverðsverslunum, þjónustuverslunum og stórmörkuðum víðsvegar um land mánudaginn 24. ágúst. Hæsta verðið var oftast að finna í versluninni Iceland Engihjalla í um 40% tilvika en lægsta verðið var í versluninni Bónus Kjarnagötu Akureyri í um helmingi tilvika.
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á matvöru í lágvöruverðsverslunum, þjónustuverslunum og stórmörkuðum víðsvegar um land mánudaginn 24. ágúst. Hæsta verðið var oftast að finna í versluninni Iceland Engihjalla í um 40% tilvika en lægsta verðið var í versluninni Bónus Kjarnagötu Akureyri í um helmingi tilvika. Mikill munur var á hæsta og lægsta verði milli verslana, en í um helmingi tilvika var um 10-30% verðmun að ræða. Mestur varð verðmunurinn 102%. Minnstur verðmunur var í vöruflokknum osti, viðbiti og mjólkurvörum.
Mesta vöruúrvalið í Fjarðarkaup
Flestar vörurnar voru til í verslun Fjarðarkaupa eða 115 af 121, næstflestar í verslun Iceland eða 109. Fæstar vörurnar í könnuninni voru fáanlegar í Samkaupum-Úrvali á Ísafirði eða 77 af 121, þar á eftir kom Krónan Nóatúni sem átti 92 vörur.
Þegar borin eru saman verð á milli verslananna á þeim vörutegundum sem verðlagseftirlitið skoðaði var Iceland með hæsta verðið á 51 vörum af 121, Samkaup-Úrval var 25 sinnum hæst, Hagkaup 22 og Víðir Skeifunni 16 sinnum. Bónus var með lægsta verðið á 67 vörum af af 121, Fjarðarkaup 19 sinnum lægst, Krónan 16 og Nettó Mjódd 12 sinnum.
Minnstur verðmunur í könnunni var á spelt flatkökum frá Ömmubakstri sem voru dýrastar á 242 kr. hjá Fjarðarkaupum en ódýrastar á 229 kr. hjá Krónunni, verðmunurinn var 6%. Mestur verðmunur að þessu sinni var á jöklasalati sem var ódýrast á 198 kr./kg. hjá Krónunni en dýrast á 399 kr./kg. hjá Hagkaupum, verðmunurinn 201 kr. eða 102%.
Minnstur verðmunur er í vöruflokknum osti, viðbiti og mjólkurvörum
Minnstur verðmunur í mælingunni er í vöruflokknum osti, viðbiti og mjólkurvörum en hann var samt umtalsverður og náði þegar mest var ríflega 25%. Sem dæmi má nefna 250 gr. af MS sveppasmurosti sem var dýrastur á 440 kr. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrastur á 351 kr. hjá Nettó, verðmunurinn er 25%. Þá var 15% verðmunur á 500 gr. af Húsavíkurjógúrt með peru og vanillu sem var dýrust á 258 kr. hjá Hagkaupum en ódýrust á 225 kr. hjá Víði. Verðmunurinn var öllu minni á Stoðmjólk sem var dýrust á 120 kr. hjá Samkaupum-Úrvali og Hagkaupum en ódýrust á 112 kr. hjá Fjarðarkaupum sem gerir 7% verðmun.
Af öðrum vörum í könnuninni má nefna að mikill verðmunur var á ORA sardínum í olíu sem voru dýrastar á 379 kr. hjá Iceland en ódýrastar á 267 kr. hjá Bónus, verðmunurinn var 112 kr. eða 42%. Kíló af vatnsmelónu var dýrast á 299 kr. hjá Hagkaupum en ódýrast á 149 kr./kg. hjá Nettó sem gerir 101% verðmun. Orkudrykkurinn Red Bull 250 ml. var ódýrastur á 195 kr. hjá Bónus en dýrastur á 249 kr. hjá Iceland, sem er 28% munur.
Sjá nánari upplýsingar í töflu á heimasíðu ASÍ.
Í könnuninni var skráð hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var afsláttarverð skráð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Kjarnagötu, Krónunni Nóatúni, Nettó Hverafold, Iceland Engihjalla, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Samkaupum-Úrvali Ísafirði, Hagkaupum Seltjarnarnesi og Víði Skeifunni.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ