Skip to main content
VMF

Bónus með lægsta verðið í um helmingi tilvika

By May 28, 2014No Comments

Verslunin Bónus Skeifunni var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu síðastliðinn mánudag.

Verslunin Bónus Skeifunni var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu sl. mánudag. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Samkaupum-Úrvali í Hafnarfirði eða í um þriðjungi tilvika. Í um fjórðungi tilvika var hæsta verðið hjá Víði og Nóatúni. Eins og áður sagði var lægsta verðið oftast að finna í Bónus eða í um helmingi tilvika.

Oftast var verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru frá 1% upp í 25% en algengt var að sjá 25-50% verðmun. Mesti verðmunur í könnuninni var 138%.

Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar hjá Hagkaupum Eiðistorgi eða 102 af 105, Fjarðarkaup Hafnarfirði átti til 99 og Krónan upp á Höfða 96. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Bónus eða aðeins 79 af 105.

Minnstur verðmunur á mjólkurvörum, osti og viðbiti
 Af þeim 105 matvörum sem skoðaðar voru, var verðmunurinn minnstur á mjólkurvörum, osti og viðbiti eða alltaf undir 34%, en oftast var verðmunurinn frá 1% upp í 50%. Minnstur verðmunur var á 1,5 l. af Nýmjólk, sem var ódýrust og á sama verði hjá Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Samkaupum-Úrvali, Hagkaupum og Víði  á 193 kr./stk. og 2 kr. dýrari hjá Iceland eða 1% verðmunur. Mestur verðmunur í könnuninni var á avacado, sem var dýrast á 899 kr./kg. hjá Hagkaupum en ódýrast á 378 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum sem er 521 kr. verðmunur eða 138%. En alltaf var yfir 50% verðmunur á þeim ávöxtum og grænmeti sem skoðuð voru.

47% verðmunur á lambahrygg
 Af þeim vörum sem til voru í öllum verslununum má nefna að mikill verðmunur var á Þrif leysigeisla 550 ml. sem var ódýrastur á 475 kr. hjá Bónus en dýrastur á 668 kr. hjá Víði sem gerir 41% verðmun. Annað dæmi um mikinn verðmun er ½ l. af Coca cola í plasti sem var ódýrast á 145 kr. hjá Bónus en dýrast á 188 kr. hjá Nóatúni sem er 43 kr. verðmunur eða 30%. Frosinn lambahryggur var ódýrastur á 1.698 kr./kg. hjá Iceland en dýrastur á 2.499 kr./kg. hjá Hagkaupum sem er 801 kr. verðmunur eða 47%. Nýja þurrvaran Vilko hrökkbrauð 370 gr., sem var ekki til í öllum verslununum, var ódýrust á 428 kr./stk. hjá Krónunni en dýrust á 519 kr./stk. hjá Hagkaupum og Nóatúni sem er 21% verðmunur. 
 
Sjá nánari upplýsingar í töflu á heimasíðu ASÍ

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Skeifunni, Krónunni Höfða, Nettó Granda, Iceland Vesturbergi, Nóatúni Grafarholti, Hagkaupum Eiðistorgi, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Víði Skeifunni, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com