Skip to main content
AldanVMF

Gagnrýni byggð á misskilningi

By February 12, 2019No Comments

Mikil umræða hefur skapast um verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í höfuðborgum Norðurlandanna fimm og birti í síðustu viku. Niðurstaðan var ótvíræð. Vörukarfan sem ASÍ setti saman var dýrust á Íslandi svo munaði tugum prósenta.

Mikil umræða hefur skapast um verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í höfuðborgum Norðurlandanna fimm og birti í síðustu viku. Í þeirri könnun voru borin saman verð á 18 vörutegundum sem teljast til grunnþarfa á hefðbundnu heimili. Niðurstaðan var ótvíræð. Þessi tiltekna vörukarfa sem ASÍ setti saman var dýrust á Íslandi svo munaði tugum prósenta.

Þessa könnun ASÍ hafa sumir verið að bera saman við rannsóknir Eurostat á vöruverði þar sem verið er að skoða mun fleiri vörutegundir í mismunandi tegundum verslana bæði í dreifbýli og þéttbýli. Í stuttu máli er um ólíka aðferðafræði að ræða. Niðurstöður Eurostat komu ASÍ ekki á óvart, þvert á móti voru þær tilefni verðkönnunar ASÍ.

Munur á niðurstöðum Eurostat og könnun verðlagseftirlits ASÍ
Samkvæmt niðurstöðum Eurostat er matvara dýrust í Noregi af Norðurlöndunum. Ísland er þar með næst hæsta verðlagið, Danmörk í þriðja sæti, Svíþjóð þar á eftir og loks Finnland með lægsta verðið. Þetta rímar ágætlega við niðurstöður verðkönnunar ASÍ. Aðal munurinn er sá að í rannsókn Eurostat er verð á matvöru í Noregi hærra en á Íslandi.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir þessu en þar má nefna að í vörukörfu ASÍ voru einungis undirstöðumatvörur eins og kjöt- og mjólkurvörur, grænmeti, ávextir og brauðmeti en vörur eins og sælgæti, kex, morgunkorn og gosdrykkir voru ekki teknar með. Há álagning á sykraðar vörur í Noregi getur þarna haft sitthvað að segja.

Verðlag á Íslandi í flestum tilfellum hærra en á hinum Norðurlöndunum
Niðurstöður rannsóknar Eurostat á verðlagi í Evrópu sýna að verðlag á Íslandi er það hæsta í Evrópu. Niðurstöður sem eru áhugaverðar en um leið slæmar fyrir okkur Íslendinga.

Þegar niðurstöður Eurostat könnunarinnar eru skoðaðar eftir ólíkum útgjaldaflokkum má sjá að í flestum tilfellum er verðlag á Íslandi hærra en á hinum Norðurlöndunum. Má þar nefna verð á fatnaði og skóm, húsgögnum, heimilistækjum, tölvum og símum, samgöngum, fjarskiptum og áfengi. Frá þessu eru undantekningar en á Íslandi er kostnaður við rafmagn og húshitun lægri en að meðaltali í Evrópu og lægstur á Norðurlöndum.

Hvað útskýrir hærra verðlag á Íslandi?
Ástæður fyrir háu matvöruverði á Íslandi geta verið nokkrar. Má þar nefna ólíkt fyrirkomulag tolla og vörugjalda, flutningskostnað og hátt vaxtastig. Önnur möguleg skýring er skortur á samkeppni sem gæti haft áhrif til hækkunar verðlags. Þetta á ekki einungis við í verslun heldur einnig hjá birgjum, heildsölum og innflytjendum. Aukin samkeppni er gríðarlegt hagsmunamál neytenda og mikilvægt er að virk samkeppni sé á öllum sviðum, hvort sem er í smásölu, vöruflutningum eða í sölu á olíu.

 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com