Skip to main content
Aldan

Kvennabarátta er stéttabarátta

By March 8, 2017No Comments

Á vef Starfsgreinasambands Íslands (SGS) má finna grein eftir Drífu Snædal, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins þar sem hún fagnar alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Kvennabarátta er stéttabarátta

Til hamingju með daginn, konur og karlar sem láta sig jafnréttisbaráttu varða. Jafnrétti gagnast okkur öllum enda eru lífsgæði best þar sem mest er jafnrétti og jöfnuður.

Kvennabaráttan hefur tekið á sig alls konar myndir í gegnum tíðina en nú þykjast margir greina að baráttan er að ganga í endurnýjun lífdaga bæði hér heima og erlendis. Það sem kveikir baráttuandann er framgangur kvenfjandsamlegra afla um víða veröld, en þeim öflum er svarað fullum hálsi. Stríð sem háð eru brjótast út í ofbeldi gegn konum, konur og börn á flótta eru sérstaklega berskjölduð, í Rússlandi er verið að afnema refsingu fyrir heimilisofbeldi, Pólland herðir fóstureyðingalöggjöfina og í Bandaríkjunum situr nú forseti sem vill takmarka rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama.

Þessar staðreyndir ganga svo hönd í hönd með ótrúlegri auðsöfnun á fárra hendur á meðan verkafólk víða um heim fær nánast engar kjarabætur áratugum saman. Skattar eru lækkaðir á þá sem hafa aðgang að peningum og völdum en skattar eru hækkaðir á þá sem minnst hafa. Láglaunafólk og sérstaklega konur á vinnumarkaði búa við óöryggi víða um heim, fá ekki lögbundin- eða kjarasamningsbundin laun og njóta lítils atvinnuöryggis.

Mörgum hefur fundist kvennabarátta síðustu ára vera einkum barátta yfirstéttarkvenna um forstjórastóla og framgang á framabrautinni. Nú virðist vera breyting á þar sem kvennabaráttan og barátta fólks fyrir bættum kjörum sameinast í kröfum um að geta séð sér farborða og búa við öryggi.

Í dag verða haldin mótmæli og baráttufundir víða um heim en þetta er framhald mikilla mótmæla í janúar þegar ljóst var að nýr bandaríkjaforseti ætlaði að standa við stóru orðin og skerða rétt fátæks fólks m.a. til heilbrigðisþjónustu en hygla auðmönnum. Kvenfjandsamleg ummæli hans bættust svo í baráttandann.

Nýja kvennabaráttan er þannig margslungin barátta fyrir réttindum allra; innflytjenda, samkynhneigðra, vinnandi fólks, barna og allra þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu. Það er því tími til kominn að dusta rykið af gamla slagorðinu „kvennabarátta er stéttabarátta“ og sameinast um að baráttan gegn ofbeldi og fyrir réttindum á vinnumarkaði er sama baráttan um öryggi og sjálfstæði.

Til hamingju með daginn og fram til baráttu!

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com