Skip to main content
AldanVMF

Lagaleg óvissa um tilgreinda séreign

By November 13, 2017No Comments

Afstaða ASÍ og áhrif túlkunar FME

Í janúar 2016 sömdu aðildarfélög ASÍ við SA um breytingar á gildandi kjarasamningi. Í þessum samningi var samið um jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins með samkomulagi um hækkun iðgjalda í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5%.

Í janúar 2016 sömdu aðildarfélög ASÍ við SA um breytingar á gildandi kjarasamningi. Í þessum samningi var samið um jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins með samkomulagi um hækkun iðgjalda í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5%. 

Það varð jafnframt að samkomulagi að dreifa þessari hækkun á þrjú ár, 0,5% 1. júlí 2016, 1,5% 1. júlí 2017 og 1,5% 1. júlí 2018. Samkomulag var um að skoða möguleika á því að gefa félagsmönnum okkar tækifæri til þess að ráðstafa hluta eða allri hækkuninni í bundna séreign (sem síðar var nefnd tilgreind séreign). Sá fyrirvari var þó settur að þetta val mætti ekki raska stöðu sjóðanna að öðru leyti og að ákvörðunin yrði að byggja á upplýstu samþykki gagnvart þeim skyldutryggingasjóði sem viðkomandi félagsmaður greiðir til. Samkvæmt ákvæðinu átti að ljúka frekari umfjöllun og útfærslu fyrir lok maí 2016.

Viðræðunefndir ASÍ og SA unnu síðan að því að útfæra þessa leið og komust að niðurstöðu um breytingar á kjarasamningi ASÍ og SA um lífeyrismál frá 1969 og 1995, þar sem opnuð var heimild fyrir lífeyrissjóði á samningssviði aðila til að gefa sjóðsfélögum rétt til þess að ráðstafa allt að 3,5%, í þeim áföngum sem það kæmi til á næstu árum, í tilgreinda séreign. Sá fyrirvari var þó settur að þetta val yrði að koma fram gangvart viðkomandi lífeyrissjóði – að atvinnurekanda væri áfram skylt að skila öllu iðgjaldinu til skyldutryggingasjóðsins – og byggja á upplýstu samþykki viðkomandi fyrir því að réttindi hans og hans fjölskyldu til ævilangs lífeyris, örorkulífeyris og makalífeyris væri afmarkaður við 12% iðgjald og 56% af meðalævitekjum viðkomandi. Jafnframt var skýr fyrirvari að til þess að þetta væri hægt þyrfti að breyta lögum um starfsemi lífeyrissjóðanna. Á þessum grunni var ákveðið í samningnum að fyrsta hækkun iðgjaldsins um 0,5% þann 1. júlí 2016 rynni til samtryggingar og heimild til ráðstöfunar frestaðist þar til samkomulag næðist um setningu laga.

Samkomulag um lagasetningu lá fyrir
Vorið 2017 lá fyrir samkomulag við þáverandi fjármálaráðherra um innihald frumvarps til breytinga á lögum um starfsemi lífeyrissjóða þar sem sjóðunum yrði gert kleift að opna slíkar deildir. Ekki reyndist unnt að leggja frumvarpið fram fyrir þinglok en fyrirheit voru gefin um að það yrði lagt fram strax á haustþingi.

Á þeim grundvelli sendu ASÍ og SA þeim sjö lífeyrissjóðum, sem eru á samningssviði þeirra, erindi um miðjan maí um að þeir gengjust fyrir breytingum á samþykktum sínum þannig að þeir gætu tekið við beiðni sjóðfélaga um ráðstöfun á kjarasamningsbundinni hækkun framlags atvinnurekenda til svonefndrar tilgreindrar séreignar. Forsvarsmenn sjóðanna sjö brugðust hratt við og boðuðu til aukaársfunda þar sem samþykktum þeirra var breytt og sjóðfélögum boðið upp á þessa nýju leið frá og með 1. júlí 2017.

Eins og fram kom í erindi ASÍ og SA er það mat samtakanna að þessi nýju kjarasamningsbundnu réttindi séu afar mikilvæg fyrir sjóðfélaga. Eins og fram kom hér að framan lá það alltaf fyrir að forsenda innleiðingar væri breytingar á lögum nr. 129/1997 til þess að taka af allan vafa um lagalega stöðu þessarar nýju tegundar séreignar innan samningsbundinnar lágmarkstryggingar. Var sérstaklega á því tekið í samkomulagi ASÍ og SA frá því í júní 2016, sem hefur kjarasamningsgildi, að það væri skilyrði fyrir þessum valrétti sjóðfélaga að slíkt samkomulag um lagasetningu lægi fyrir og því töldu aðilar ekkert að vanbúnaði að hefja innleiðingu þessa nýja kerfis þegar í sumar.

Nú liggur fyrir að frumvarpið verður ekki lagt fram á næstunni. Jafnframt túlkar Fjármálaeftirlitið ákvæði laga nr. 129/1997 og reglugerð nr. 391/1998, hvað varðar rétt sjóðsfélaga til þess að ráðstafa hækkun iðgjaldsins að eigin vali, með afar þröngum hætti. Fjármálaeftirlitið telur að ASÍ og SA hafi ekki heimild til þess að skuldbinda fyrirtæki til þess að skila þessum hluta samningsbundna iðgjaldsins til skyldutryggingasjóðs heldur megi sjóðfélagi ráðstafa honum í beinum samskiptum við launagreiðanda sinn. Þessari túlkun Fjármálaeftirlitsins eru ASÍ og SA ósammála.

Óvissa um lagalegan grundvöll
Sú staða sem upp er komin, bæði óvissa um lagagrundvöll tilgreindrar séreignar og túlkun Fjármálaeftirlitsins, veldur því að forsendur fyrir stofnun deilda lífeyrissjóðanna um tilgreinda séreign hafa brostið. Túlkun FME varðandi skil á hækkuðu iðgjaldi veldur því að óvissa hefur skapast um hver beri ábyrgð á innheimtu þess ef til vanskila kemur. Jafnframt munu lífeyrissjóðirnir eiga erfitt með að  ákveða hvort efna eigi til innheimtuaðgerða gagnvart fyrirtækjum sem skila einungis 12% iðgjaldi því þeir vita ekki hvort viðkomandi sjóðfélagi hafi óskað eftir því að launagreiðandi skili hluta iðgjalds til annars vörsluaðila. Af þessum ástæðum er einnig hætta á því að þessi hluti iðgjalda missi stöðu sem forgangskrafa við gjaldþrot launagreiðenda með tilheyrandi tjóni fyrir sjóðsfélaga. Þessi staða verður enn viðkvæmari í ljósi þess að ekki hafa verið gerðar breytingar á ákvæðum laga um Ábyrgðarsjóð launa þannig að hækkað iðgjald fellur ekki undir ábyrgðarsvið hans. Því er aukin hætta á því að iðgjöld glatist við gjaldþrot fyrirtækja.

Skortur á lagagrundvelli og túlkun Fjármálaeftirlitsins valda því að ekki verður unnt að uppfylla það ákvæði samkomulags ASÍ og SA að umrætt val sé skilyrt því að viðkomandi sjóðfélagi hafi tekið upplýsta ákvörðun um ráðstöfun hluta skyldutryggingariðgjalds til tilgreindrar séreignar, lagt mat á áhrif þeirrar ákvörðunar á samsetningu réttinda sinna og undirritað upplýst samþykki fyrir ráðstöfuninni. Óvissa mun því ríkja um réttindi og skyldur hjá viðkomandi lífeyrissjóðum. Jafnvel þótt launagreiðandi skilaði skyldutryggingariðgjaldinu beint til skyldutryggingasjóðs, sem myndi eyða umræddri óvissu, væri lífeyrissjóðunum skylt að áframsenda iðgjaldið til þess vörsluaðila sem sjóðsfélaginn tilgreindi en væri óheimilt að taka eðlilega þóknun fyrir, til að mæta kostnaði vegna innheimtunnar. Aðrir sjóðfélagar munu því bera þann kostnað og takist ekki að innheimta iðgjaldið er óljóst hver beri ábyrgð á því.

Frestun en ekki afnám
Miðstjórn ASÍ telur að það sé ekki unnt að búa við þá óvissu sem framangreindur forsendubrestur hefur skapað. Sú staða sem komin er upp var ekki markmið samningsaðila, þvert á móti. Óvissan veldur því að hagsmunum fjölmargra sjóðfélaga er teflt í tvísýnu.

Það er því skoðun ASÍ að réttast sé að lífeyrissjóðirnir fresti framkvæmd þessa ákvæðis kjarasamnings aðila um lífeyrismál, sbr. samkomulag ASÍ og SA frá 15. júní 2016 og bréf aðila frá 17. maí 2017 til lífeyrissjóðanna. Frestunin gildi til ársloka 2018. Á því tímabili gildi ákvæði samkomulags ASÍ og SA frá 15. júní 2015 sem segir að náist ekki samkomulag við stjórnvöld um breytingar á lögum 129/1997 og nauðsynleg lagabreyting í framhaldinu skuli hækkuð iðgjöld renna til samtryggingar.

ASÍ vill jafnframt árétta að það sé mikilvægt að eiga það samtal við nýkjörið Alþingi að tryggja okkar félagsmönnum þessi réttindi – að geta búið sér og fjölskyldu sinni sveigjanlegri starfslok með samblandi samningabundinna lífeyrisréttinda í samtryggingu og tilgreindri séreign án þess að raska með nokkru móti getu sjóðanna til að tryggja rétta innheimtu iðgjaldanna.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com