Þessi dæmi eru byggð á verðhækkunum á völdum útgjaldaliðum og útgjöldum mismunandi heimilisgerða á leigumarkaði og í eigin húsnæði. Dæmin sýna að mánaðarlega útgjaldaaukningu upp á 26 þúsund krónur fyrir einstakling í leiguhúsnæði og upp í 127 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu í eigin húsnæði.
50 þúsund króna útgjaldaaukning á mánuði hjá fjölskyldu í leiguhúsnæði
Ef við skoðum hvernig verðhækkanir síðasta árs getur birst í útgjöldum þeirra sem eru á leigumarkaði má sjá að mánaðarleg útgjöld fjölskyldu sem samanstendur af tveimur fullorðnum og tveimur börnum sem leigir 120 fm íbúð í Reykjavík hafa hækkað um 49.458 kr. á einu ári. Á sama tímabili hafa mánaðarleg útgjöld einstæðs foreldris með tvö börn sem leigir 80 fm íbúð í Reykjavík hækkað um 34.593 kr. Þá greiðir einstaklingur sem leigir stúdíóíbúð í Reykjavík 26.165 kr. meira í helstu kostnaðarliði í dag en fyrir ári síðan. Hækkun á leigu miðast við leiguvísitölu sem mælir verðþróun á nýjum leigusamningum og endurspegla tölurnar meðalhækkun á tilteknum leiguíbúðum í Reykjavík. Dæmin byggja á áætluðum meðalútgjöldum og verðþróun úr vísitölu neysluverðs. Neðst í fréttinni má lesa um forsendur fyrir útreikningunum.
Sjá nánar á heimasíðu ASÍ
Dæmin í fréttinni sýna breytingar á nokkrum af helstu útgjaldaliðum heimilanna (húsnæði, samgöngum, matvöru, heimilisbúnaði) auk breytinga á gjöldum fyrir leikskóla og skóladagvistun. Þessi dæmi innihalda ekki verðhækkanir á ýmsum öðrum útgjaldaliðum eins og rafmagni og hita, fasteignagjöldum, hársnyrtingu, hreinlætis- og snyrtivörum, bankakostnaði, íþróttum og tómstundum. Það má því gera ráð fyrir að útgjaldaaukning heimilanna sé í mörgum tilvikum enn meiri en þessi dæmi sýna. Neðar í fréttinni má lesa um verðþróun og verðhækkanir á ýmsum útgjaldaliðum.
Allt að 128 þúsund króna mánaðarleg útgjaldaaukning hjá fjölskyldu i í eigin húsnæði
Útgjöld heimila sem eiga húsnæði og eru með óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum hafa einnig aukist mikið. Þannig hafa útgjöld fjölskyldu með tvö börn sem býr í eigin húsnæði og er með 50 milljón króna lán hafa hækkað um 128.607 kr. á mánuði. Mánaðarleg útgjöld hjá einstaklingi í eigin húsnæði með 30 milljón króna lán hafa hækkað um 71.674 kr. Að sama skapi greiðir einstætt foreldri með tvö börn sem býr í eigin húsnæði og er með 39 milljón króna lán 105.886 kr. meira á mánuði í helstu útgjaldaliði en á sama tíma í fyrra. Hækkun á húsnæðislánum miðast við óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum sem voru endurfjármögnuð í byrjun árs 2021.
Verðþróun
Verðbólga mælist 9,7% í ágúst 2022. Frá því að Lífskjarasamningarnir tóku gildi, í apríl 2019, hefur vísitala neysluverðs hefur hækkað um 18,9%. Verðbólga mælist á breiðum grunni, þ.e. margir vöruflokkar hafa hækkað í verði en verðhækkanir á húsnæði bensíni, mat- og drykkjarvöru vega þyngst.
Verðhækkanir á húsnæði, hrávöru og liðum tengdum ferðaþjónustu vega þungt í verðbólgunni
Ef breytingar á vísitölu neysluverðs eru skoðaðar út frá eðli og uppruna má sjá að hækkun á húsnæði vegur þyngst, bæði ef litið er til eins árs og aftur til gildistöku Lífskjarasamninga. Einnig eru veruleg áhrif af hækkun hrávöruverðs og uppgangi í ferðaþjónustu sem endurspeglast í hækkun á flugfargjöldum, verði á veitingastöðum og gistiheimilum sem tilheyra liðnum „önnur þjónusta“ en einnig í bensínverði og verði á matvöru.
Frá undirritun lífskjarasamninga (apríl 2019) hefur verð á bensíni hefur hækkað mest (41,5%) en þar á eftir kemur húsnæði ( 32,5%), búvara (23%) og önnur innlend mat- og drykkjarvara (17,6%). Innlend vara (matvara og önnur innlend vara) hefur hækkað meira en innflutt vara bæði ef horft er aftur til undirritun Lífskjarasamninga og eitt ár aftur í tímann. Þá hefur verð á opinberri þjónustu hækkað töluvert á árinu (ágúst 2021-2022) eða 5,7% en um 10,5% sé horft aftur til apríl 2019.
Á eftir húsnæði og bensíni vega verðhækkanir á mat- og drykkjarvöru þyngst
Ef yfirflokkar í vísitölu neysluverðs eru skoðaðir má sjá að hækkanir á húsnæði vega þyngst í verðbólgunni á liðnu ári en einnig á tímabilinu frá því að lífskjarasamningar tóku gildi. Næst þyngst vega hækkanir á liðnum ferðir og flutningar sem rekja má til hærra bensínverðs. Þar á eftir kemur hækkun á mat- og drykkjarvöru sem er þriðji stærsti áhrifaþátturinn í vísitölunni.
Þannig hefur verð á húsnæði, hita og rafmagni hækkað um 15,8% á einu ári, verð mat- og drykkjarvöru hækkað um 8,6%, verð á ferðum og flutningum um 14,9%, verð á hótelum og veitingastöðum um 8,4% og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 3,6%. Verðhækkanirnar eru meiri frá apríl 2019 en minni munur er á verðhækkunum eftir flokkum á því tímabili. Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hefur t.d. hækkað um 16% á því tímabili samanborið við 18% hækkun á mat- og drykkjarvöru.
Um úttektina
Útgjöld: Við áætlun á mánaðarlegum útgjöldum er stuðst við rannsókn Hagstofunnar á meðalneyslu 2002-2016 og neysluviðmið stjórnvalda.
Leikskólagjöld og gjöld fyrir skóladagvistun: Verð á leikskólaþjónustu og skóladagvistun miðast við gjöld hjá Reykjavíkurborg. Miðað er við að annað barnið sé á grunnskólaaldri og eitt á leikskólaaldri.
Verðhækkanir: Miðað er við breytingar á undirliðum vísitölu neysluverðs – ágúst 2021- ágúst 2022.
Tryggingar: Miðað er við verð á tryggingum í könnun verðlagseftirlits ASÍ frá árinu 2021.
Húsnæðislán: Hækkun á húsnæðislánum miðast við vaxtakostnað á 30-50 milljón króna óverðtryggðu lán á breytilegum vöxtum sem voru endurfjármögnuð í byrjun árs 2021. Upphæð húsnæðisláns hjá einstaklingi í dæminu er 30 milljónir, 50 milljónir hjá fjölskyldu með tvö börn og 44,1 milljón hjá einstaklingi með tvö börn
Leiga: Miðað er við breytingar á leiguverði Í Reykjavík 2021-2022. Miðað er við 45 fm stúdíóíbúð fyrir einstakling, 4-5 herbergja 120 fm íbúð fyrir fjölskyldu með tvö börn og 3 herbergja 80 fm íbúð fyrir einstakling með 2 börn.