Skip to main content

Miðstjórn ASÍ samþykkti á fundi sínum í dag að þar sem fyrir liggi að öllu launafólki verði ekki tryggður réttur til starfsendurhæfingar á þessu þingi, séu forsendur fyrir þátttöku ASí í svokölluðum stöðugleikasáttmála brostnar.

Samþykkt miðstjórnar 16. júní 2010


Réttur til starfsendurhæfingar er mikilvægur liður í að efla og treysta stöðu launafólks á vinnumarkaði sem lendir í áföllum vegna veikinda og slysa. Um leið er hún stórt hagsmunamál fyrir samfélagið í heild.


Með yfirlýsingu þáverandi ríkisstjórnar í tengslum við gerð kjarasamninga í febrúar 2008 var gerð mikilvæg sátt á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um uppbyggingu og þróun starfsendurhæfingar á vinnumarkaði.  Markmiðið er að tryggja öllu launafólki rétt til starfsendurhæfingar í kjölfar veikinda eða slysa.  Jafnframt var gerð sátt um það hvernig fjármagna ætti þetta mikilvæga verkefni með framlagi allra aðila, þar með talið stjórnvalda.


Framangreind sátt var áréttuð af núverandi ríkisstjórn með stöðugleikasáttmálanum í júní á síðasta ári, þar sem fulltrúar aðila vinnumarkaðarins samþykktu verulega lækkun og seinkun á framlögum ríkisins vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs.  Þar var jafnframt ákveðið hvernig staðið yrði að málum til að öllu fólki á vinnumarkaði yrði tryggður réttur til starfsendurhæfingar.  Samkvæmt samkomulaginu átti að afgreiða málið á Alþingi fyrir lok síðasta árs. Minna má á að meira en 1/3 félagsmanna ASÍ eru nú án þessara réttinda. 


Nú liggur fyrir að frumvarp um lögbindingu á greiðsluskyldu atvinnurekenda og lífeyrissjóða til starfsendurhæfingar verður ekki afgreitt á yfirstandandi þingi og málið allt í uppnámi.  Þar með hafa stjórnvöld enn á ný svikið þau loforð sem gefin hafa verið.  Með þessari framgöngu eru stjórnvöld og Alþingi beinlínis að koma í veg fyrir að stórir hópar fólks á almennum vinnumarkaði og öryrkjar hjá lífeyrissjóðunum njóti réttar til starfsendurhæfingar.


Miðstjórn ASÍ gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir að standa ekki við fyrirheit í stöðugleikasáttmálanum. Það er engin launung að væntingar miðstjórnar ASÍ til lögbindingar þessara ákvæða var síðasta hálmstráið sem rökstuddi aðild ASÍ að þessum svokallaða sáttmála, þrátt fyrir aðgerða- og úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Nú er ljóst að sú von er að engu orðin og lýsir miðstjórn ASÍ því formlega yfir að engar forsendur eru fyrir aðkomu þess að frekari samstarfi á þeim grunni.


Miðstjórn ASÍ ítrekar fyrri hvatningu til aðildarfélaga sinna um að hefja undirbúning að gerð kjarasamninga.  Ljóst má vera að framundan eru erfiðar viðræður um gerð nýrra kjarasamninga og barátta fyrir réttindum félagsmanna aðildarfélaga Alþýðusambandsins.


 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com