Skip to main content
Stéttarfélag.is

Nú á að einkavæða ellina

By January 15, 2024January 18th, 2024No Comments
Finnbjörn A. Hermannsson skrifar:

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur áformar stórfellda einkavæðingu í rekstri hjúkrunarheimila. Heilbrigðisráðherra hefur lýst yfir algjörri uppgjöf ríkisvaldsins gagnvart því verkefni að tryggja öldruðum grundvallarþjónustu innan velferðarkerfisins.  

Sú pólitíska stefna að veikja skipulega velferðarríkið og tilfærslukerfin hefur það að markmiði að rýra þjónustuna til að greiða fyrir einkavæðingu hennar. Um liðna helgi kynnti heilbrigðisráðherra óvænt og án minnstu umræðu áform ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um stórfellda einkavæðingu í rekstri hjúkrunarheimila. Í viðtali við sjónvarp Morgunblaðsins lýsti ráðherrann yfir algjörri uppgjöf gagnvart því verkefni að tryggja landsmönnum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á og greitt hafa fyrir með sköttum sínum.  

Nái þetta feigðarflan ríkisstjórnarinnar fram að ganga fetum við í fótspor breskra frjálshyggjumanna sem tekist hefur að rústa fyrirkomulagi hjúkrunarþjónustu þar í landi og magna upp ójöfnuð og stéttskiptingu í aðhlynningu aldraðra. Hér eins og þar er draumurinn sá að gera elli og hrumleika mannfólksins að gróðaleið fyrir fjármagnsöflin.  „Sérhæfð einkafyrirtæki” munu yfirtaka reksturinn með skilgreindum „arðsemiskröfum”.  

Tilheyrandi spillingu má t.d. innleiða með því að ríkið ábyrgist lán fyrir valin fyrirtæki í eigu réttra aðila.  

Gróf aðför að velferðarríkinu  

Áform þessi eru stórhættuleg og fela í sér grófustu aðför seinni tíma að velferðarríkinu. Því verður ekki trúað að almenningur í landinu sætti sig við slíka byltingu. 

Þegar ríkisvaldið á það úrræði eitt að lengja biðlista eftir heilbrigðisþjónustu hefur það í raun sagt upp sjálfum samfélagssáttmálanum sem fellst m.a. í greiðslu skatta til sjúkratrygginga. Á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands má m.a. lesa þetta: 

Markmið laga um sjúkratryggingar er að tryggja aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.” 

Við blasir að ríkisvaldið hefur snúið baki við þessu grunnmarkmiði laganna. Skortstefnan hefur nú þegar búið til tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem hinir betur stæðu geta keypt sér nauðsynlega þjónustu á meðan aðrir landsmenn eru settir á biðlista eftir að komast á biðlista.  

Nú er stefnt að því að auka ójöfnuðinn með því að gefa aðstandendum aldraðra kost á að kaupa ólíkar og misdýrar „þjónustuleiðir” innan einkavæddra hjúkrunarheimila.  

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni í ræðu og riti að samfélag okkar standi á krossgötum.  

Ég heiti á almenning allan og ábyrga stjórnmálamenn að hrinda þessari óværu einkavæðingar og gróðahyggju af samfélagi okkar og að standa vörð um þau grunngildi velferðar og samhjálpar sem þjóðin hefur jafnan haft í heiðri. 

Höfundur er forseti Alþýðusambands Íslands. 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com