Í ágúst sl. tók Hrafnhildur Guðjónsdóttir til starfa og eru ráðgjafar VIRK starfsendurhæfingar nú orðnir tveir á skrifstofu stéttarfélaganna.
Hrafnhildur Guðjónsdóttir er nýr ráðgjafi hjá stéttarfélögum á Norðvesturlandi.
Hún lauk gráðu til starfsréttinda í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands 2003 og náms- og starfsráðgjafaréttindi 2008. Hrafnhildur hefur starfað sem yfirfélagsráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu Skagafjarðar og fjölskyldudeildar Félagsþjónustu uppsveita Árnessýslu og Flóa. Einnig starfaði hún í nokkur ár sem félagsráðgjafi Reykjavíkurborgar hjá þjónustumiðstöðinni Miðgarði í Grafarvogi og Barnavernd Reykjavíkur. Í síðasta starfi var hún verkefnisstjóri
Fléttunnar á Sauðárkróki og samhliða því vann hún sem verkefnastjóri í liðveislu við fatlað fólk í sjálfstæðri búsetu.
Ráðgjafar VIRK starfsendurhæfingar eru nú orðnir tveir á skrifstofu stéttarfélaganna en Hanna Dóra Björnsdóttir hóf störf í ágúst 2011.
Ráðgjafarnir eru með aðsetur á skrifstofu stéttarfélaganna í Borgarmýri 1 á Sauðárkróki en einnig með starfsstöðvar á Blönduósi, Hvammstanga og á Skagaströnd því starfssvæði þeirra nær frá Tröllaskaga til Hrútafjarðar og er því allur Skagafjörður og Húnavatnssýslur.