Það hefur hægt á vexti raunlauna á heimsvísu en á árinu 2013 nam vöxturinn 2%, sem er 0,2 prósentustigi lægra en árið á undan. Hækkun launa er þannig enn langt undir því sem þekktist fyrir kreppu líkt og kemur fram í nýlegri skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), Global Wage Report.
Það hefur hægt á vexti raunlauna á heimsvísu en á árinu 2013 nam vöxturinn 2%, sem er 0,2 prósentustigi lægra en árið á undan. Hækkun launa er þannig enn langt undir því sem þekktist fyrir kreppu líkt og kemur fram í nýlegri skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), Global Wage Report. Þar kemur ennfremur fram að megindrifkraftur launavaxtar hefur átt rætur að rekja til nýmarkaðsríkja.
Sé þannig horft framhjá áhrifum mikils vaxtar í Kína fellur vöxtur raunlauna á heimvísu niður í rúmt prósent. Þetta gefur til kynna lítinn vöxt launa í þróuðum ríkjum en líkt og kemur fram í skýrslunni hafa laun staðið í stað í mörgum þróuðum ríkjum og dregist saman sumstaðar.
Heimild: ILO – Global Wage Growth, 2015.
Skýrsluhöfundar vekja sérstaka athygli á stöðunni innan þróaðra ríkja, sérstaklega í ljósi þess að innan margra þeirra voru raunlaun lægri árið 2013 heldur en þau voru árið 2007 (t.d. í Grikklandi, Ítalíu, Japan, Spáni, Írlandi og Bretlandi). Lítil hækkun launa hefur þannig hægt á efnahagsbatanum í Evrópu, haldið niðri eftirspurn og skapað aðstæður fyrir verðhjöðnun.
Heimild: ILO – Global Wage Growth, 2015.
Innan þróaðra ríkja hafa raunlaun ekki vaxið í takt við aukna framleiðni og hægur vöxtur launa hefur þannig orðið til þess að draga úr hlutfalli launa af verðmætasköpuninni á undanförnum tveimur áratugum. Þessi þróun er breytileg milli ríkja en líkt og bent er á í skýrslunni gætir töluverðra áhrifa af þróun stærstu hagkerfanna, þ.e. Þýskalands, Japans og Bandaríkjanna.
Heimild: ILO – Global Wage Growth, 2015.
Í skýrslunni er einnig skoðaður ójöfnuður í fjölda ríkja en í um helmingi þeirra þ.m.t. á Íslandi jókst ójöfnuður á árunum 2006-2010. Bæði jókst ójöfnuður mældur sem bilið milli hinna 10% tekjuhæstu og hinna 10% tekjulægstu en einnig jókst ójöfnuður mældur hjá millistétt en þá er skoðað hlutfallið milli efri og neðri millistéttar.
Það getur verið breytilegt eftir löndum hvort skýra megi vaxandi ójöfnuð með launabreytingum, breytingum á fjölda starfandi eða af öðrum ástæðum. Þegar horft er á bilið milli hinna 10% tekjuhæstu og hinna 10% tekjulægstu hafa bæði launabreytingar og breytingar á fjölda starfandi haft áhrif. Þegar litið er á ójöfnuð innan millistéttarinnar hefur hann að mestu verið drifinn áfram af launaþróun.