Verkalýðshreyfingin hefur ekki farið varhluta af valdabaráttu undanfarið þar sem farið er hart fram gegn einstaklingum, þeir tortryggðir og jafnvel rægðir. Oft hefur verið erfitt að festa hönd á hinn málefnalega ágreining og harkan í umræðunni hefur orðið til þess að fólk veigrar sér við að fara fram á ritvöllinn, fólk sem hefur ýmislegt til málanna að leggja en vill ekki taka þátt í óvæginni umræðu. Við sem förum fyrir fjöldahreyfingu fáum einmitt þessa dagana fjölda áskorana að leggja niður vopn innan hreyfingarinnar, snúa bökum saman og berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum. Með því er ekki sagt að við getum ekki tekist á um stefnur og strauma, jafnvel verið harkalega ósammála. En valdbeitinguna eigum við að forðast og halda okkur við málefnin, ekki persónur. Verkalýðshreyfingin þarf nefnilega að lifa okkur öll sem störfum innan hennar í dag. Við verðum að rísa undir þeirri ábyrgð.
Góða helgi,
Drífa