Skip to main content
AldanStéttarfélag.isVMF

Pistill forseta – Hin berskjölduðu í heiminum og hér

By May 27, 2022No Comments
Drífa Snædal Föstudagspistill
Eftirlitsfulltrúar stéttarfélaganna vinna ómetanlegt starf á hverjum degi við að fara á vinnustaði, fræða vinnandi fólk og ekki síst finna hvar misbrestirnir liggja. Afrakstur þessara eftirlitsferða eru iðulega kröfur um leiðréttingu launa, stundum úttekt vinnueftirlitsins, ábendingar til skattsins og í erfiðustu tilvikunum ábendingar um mansal.Eftirlitsfulltrúar stéttarfélaganna innan ASÍ hittust á vinnudegi í vikunni þar sem áherslan var einmitt á fræðslu um mansal og misneytingu. Í tilefni af því rifjaði ég upp þau sláandi sannindi að í dag eru fleiri þrælar í heiminum en öll þau ár sem þrælasala var lögleg með flutningi afríkubúa til vesturheims. Samkvæmt tölum frá 2016 er áætlað að um 40 milljón manns séu þrælar í heiminum, þar af 25 milljónir í þrælavinnu. Við ákveðnar kringumstæður er meiri hætta á að glæpamenn nýti sér neyð annarra og þær aðstæður eru áþreifanlegar í heiminum í dag: Stríð og kreppa.

Við höfum ekki farið varhluta af þessu á Íslandi, enda fjölmörg dæmi um grun um mansal sem eftirlitsfulltrúarnir sögðu frá á vinnudeginum. Að auki komu fulltrúar sem vinna með flóttafólki og hælisleitendum og staðfestu að þessar skuggahliðar eru sannanlega til hér á landi og ákveðnir hópar eru sérstaklega berskjaldaðir. Bara á þessu ári hafa 1536 flóttamenn sótt um hæli, fólk sem þarf að hefja nýtt líf, þarf húsnæði, vinnu og öryggi en veit ekki endilega mikið um íslenskan vinnumarkað eða hvaða varnir við höfum byggt hér upp gegn misnotkun.

Staðan er sem sagt sú að gríðarlegur fjöldi hér á landi er fullkomlega berskjaldaður fyrir misnotkun, bæði á húsnæðis- og vinnumarkaði. Fólk sem er bæði af innlendu og erlendu bergi brotið. Við svona aðstæður þurfum við öll að vera vakandi og tilkynna misnotkun. Mansal þrífst hér á landi og það er ábyrgð okkar allra að uppræta það.

Góða helgi,
Drífa

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com