Skip to main content
Stéttarfélag.is

Pistill frá forseta ASÍ

By November 5, 2018No Comments

Drífa Snædal, nýkjörin forseti Alþýðusambands Íslands sendi frá sér pistil um þau málefni sem framundan eru. Að hennar mati eru það húsnæðismálin, skattamálin og brotastarfsemi á vinnumarkaði sem er mest aðkallandi nú í aðdraganda kjarasamninga.

Kæru félagar,
Okkar bíða mörg stór og spennandi verkefni og þing ASÍ veitti okkur góða leiðsögn inn í kjörtímabil nýrrar miðstjórnar. Hvort sem litið er til kjörinna fulltrúa eða starfsfólks er valin manneskja í hverju rúmi og ég hlakka mikið til samstarfsins. Við erum fjöldahreyfing með alls konar áherslur og það verður verkefni næstu vikna að samræma þær.

Þrjú verkefni eru mest aðkallandi næstu mánuði í aðdraganda kjarasamninga; húsnæðismál, skattamál og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Á mánudaginn mun samráðsvettvangur innan ASÍ (formenn landssambanda og stærstu félaga) fjalla sérstaklega um skatta- og húsnæðismál og í framhaldinu verður ákveðið verklag og hvernig við vinnum áfram með áherslur og ákvarðanir ASÍ þingsins í þessum málaflokkum. Við í forystunni höfum nú þegar hitt félags- og jafnréttismálaráðherra þar sem við fylgdum úr hlaði ályktunum þingsins með sérstakri áherslu á baráttuna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði og húsnæðismálin. Í næstu viku er fundur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins þar sem okkur gefst tækifæri til að hnykkja enn á niðurstöðum þingsins okkar og þeim skilaboðum sem við erum nestuð með.

Í aðdraganda kjarasamninga hefur tóninn í samfélaginu harðnað. Ég er iðulega spurð að því hvaða hópar eigi að greiða hækkun lægstu launa, hvaða skoðun ég hafi á gjaldmiðilsmálum, viðbrögð við spám um aukna verðbólgu o.s.frv. Svo ekki sé talað um hið makalausa mál innan Sjómannafélags Íslands sem varla er hægt að líta öðruvísi á en sem valdníðslu en því ber að halda til haga að Sjómannafélag Íslands er ekki innan ASÍ ólíkt Sjómannasambandi Íslands. Ég veit að félög innan ASÍ stunda lýðræðislegri og vandaðri vinnubrögð en við verðum nú vitni að hjá þessu félagi sem hefur kosið að standa utan heildarsamtaka launafólks.

Svörin við öllum hinum spurningunum hafa verið þessi: Við verðum að tryggja félagslegan stöðugleika og umræður um gjaldmiðilsmál, peningastefnu, vexti og verðtryggingu verða að taka mið af bættum lífskjörum og sanngjarnri skiptingu kökunnar. Ef við nálgumst málin á þann veg og setjum okkur það markmið að almenningur geti lifað af laununum sínum, búið í öruggu og góðu húsnæði og haft tíma til að njóta þess sem er gaman og gott í lífinu getum við örugglega sannmælst um útfærslur á öðrum atriðum. Látum ekki etja ákveðnum hópum innan okkar raða gegn öðrum hópum og göngum að verkefninu með það að markmiði að við getum verið sammála um útfærslur.

Hveitibrauðsdagarnir voru stuttir enda er okkur ekkert að vanbúnaði. Ég hlakka til næstu viku og þeirra verkefna sem bíða okkar.

Kveðja,
Drífa

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com