Skip to main content
AldanVMF

Ræða formanns Byggiðnar, félags byggingarmanna

By May 5, 2016No Comments

Finnbjörn A. Hermannsson formaður Byggiðnar, félags byggingarmanna, flutti ræðu á 1. maí-hátíðarhöldum stéttarfélaganna á sunnudaginn síðastliðinn. Ræðuna í heild sinni má lesa hér.

Ágætu félagar.

Á fyrsta maí – alþjóðlegum baráttudegi verkafólks – komum við saman til að árétta kröfur okkar til framtíðar og til að halda upp á þann árangur sem við höfum náð í gegnum tíðina.  Fyrsta maí eflum við samstöðuna í okkar röðum og minnum okkur á, að án hennar náum við aldrei varanlegum árangri í baráttunni fyrir betri kjörum íslensks alþýðufólks.
Í ár höldum við uppá hundrað ára afmæli ASÍ. Samfélagið sem forfeður okkar bjuggu í og þau kjör sem voru kveikjan að stofnun ASÍ eru í engu sambærileg við það sem við búum við. Með þrotlausri baráttu erum við hingað komin í kjörum og með þau réttindi sem barist hefur verið fyrir og áunnist, réttindi sem við verðum stöðugt að standa vörð um, réttindi sem við teljum sjálfsögð í dag í nútímasamfélagi en voru alls ekki talin sjálfsögð á árum áður.
Við þurfum að minna okkur á hvers lags samfélagsgerð við viljum hafa og hvaða leiðir við eigum til að vinna að slíku samfélagi. Jöfnuður, samstaða og samvinna eru lykilorð sem við notum til að lýsa því samfélagi sem við viljum búum í. Jöfnuður til launa, jöfnuður til mennta, jöfnuður til heilbrigðisþjónustu, jöfnuður til búsetu og að allir séu jafnir gagnvart þeim lögum og reglum sem við setjum svo samfélagið virki. Jöfnuður kemur hins vegar ekki til af sjálfu sér, til þess að ná þessum markmiðum þarf samstöðu og samvinnu.
Samvinnan felst í því að hver og einn leggur það til samfélagsins sem honum ber. Samvinnan felst líka í því að deila notkun á sameiginlegum auðlindum okkar, auðlindum sem við erum sammála um að eigi að vera í þjóðareign. Sumir fá aðgang að gæðum þjóðarinnar í vatnsafli og jarðhita, aðrir í fiskiðnaði, í byggingaiðnaði, í landbúnaði, ferðaþjónustu og svo mætti lengi telja. Hver og einn á að umgangast þessi gæði þjóðarinnar af kostgæfni og skila arðinum réttlátlega eftir fyrirfram gerðum reglum í sameiginlega sjóði okkar. Það geta ekki allir verið allsstaðar svo við höfum verkaskiptingu við að nýta auðæfin og byggja upp samfélagið.
Hvaða tæki og tól höfum við svo til að koma hugsjónum okkar um samfélagið í framkvæmd? Við höfum stjórnmálaflokka og alþingiskosningar. Við höfum verkalýðsfélög og við höfum félög og samtök um einstök málefni og hugðarefni. Við komumst ekki yfir alla málaflokka og það komast ekki allir að svo við höfum búið til fulltrúalýðræði. Við felum aðilum sem við treystum framkvæmd einstakar verka og málaflokka. Við felum alþingismönnum að koma í framkvæmd þeim sjónarmiðum  sem þeir lofa og okkur hugnast.
Við felum verkalýðshreyfingunni að semja um kaup okkar og kjör.
Hvernig er staðan í dag varðandi það samfélag sem þú vilt hafa?
Nú verður hver að svara fyrir sig.
Erum við með þá heilbrigðisþjónustu sem okkur hefur verið lofað í kosningum?
Erum við með þann jöfnuð til mennta og aðgangs að húsnæði  á viðráðanlegu verði sem okkur hefur verið lofað?
Teljið þið að hver og einn sé að greiða skatt til samfélagsins eins og honum ber?
Mitt svar er nei við öllum þessum spurningum. Það er enginn þessara málaflokka í kaldakoli en enginn í lagi.
Ég kaus aldrei að ég þyrfti að bíða í allt að tveimur árum eftir aðgerð eða að fólk geti ekki leitað sér bót meina sinna vegna greiðsluþátttöku sjúklinga. Ég kaus heldur ekki að ungmenni geti ekki stundað framhaldsskóla eða háskólanám nema með miklum fjárhagsstuðningi foreldra vegna skólagjalda. Hér er orðin mikil gjá milli hugsjónar þjóðarinnar og framkvæmdar. 
Misrétti hefur aukist til muna í samfélaginu. Misskipting auðs hefur aukist til muna í samfélaginu. Það eru orðnir til ofurríkir einstaklingar og einnig stór hópur sem á ekki neitt og sér ekki fram á að eignast neitt.
Traust almennings á ráðamönnum þjóðarinnar hefur borið alvarlegan hnekki.  Orð eins og heiðarleiki og gegnsæi eru orð sem maður vill gjarnan að komi strax upp í hugann þegar hugsað er til samfélagsins okkar og þeirra sem þar fara með völd en því miður er staðan ekki þannig núna. 

Verkalýðshreyfingin nær engu sambandi við stjórnvöld og kjörnir fulltrúar á alþingi sýna slík vinnubrögð á stundum að það gengur fram af manni.  Maður spyr sig því hvort staðan sé orðin þannig að fulltrúalýðræðið sé að líða undir lok. Ef þjóð og þing ganga ekki í takt þarf að velta því fyrir sér hver er í vinnu hjá hverjum  og hver þarf að taka pokann sinn. 
Eftir hrun var skrifuð heilmikil skýrsla um hvað hafi orsakað efnahagshrunið sem við urðum fyrir. Nýlega komu svo fram þessi Panamaskjöl svokölluðu og ýfðu aftur upp þann sársauka, þann trúnaðarbrest og þá firringu sem verið hafði í samfélaginu. Kafla sem ég hélt eða vonaði að minnsta kosti að væri að baki. En þetta sýndi okkur að leikurinn heldur áfram. Allir milljarðarnir sem afskifaðir voru af útrásarvíkingunum, og þeir voru fleiri en mig óraði fyrir, sem þjóðin þurfti að stórum hluta að taka á sig birtust á ný sem eign í skattaskjólum. Þessum þætti í sögu þjóðarinnar verður að fara að linna. Við verðum að byggja upp réttlátt og heiðarlegt samfélag.
Þegar farið var að rannsaka hrunið og menn dregnir í dómssal hefur allt verið gert til að breyta túlkun laga, allt gert tortryggilegt og þrætubókar- og útúrsnúningafræðin stunduð í hvívetna. Áróðurspennum sem fullyrða að svart sé hvítt verið beitt óspart.
Í réttarríkinu gildir sú regla að maður er saklaus þar til sekt hans er sönnuð. Því eru bestu lögfræðingarnir að mati margra þeir sem geta komið upp vafa um sekt en ekki að leiða sannleikann í ljós.
Verður einhvern tíma hægt að skrifa lög þannig að það sem ekki er bannað sé leyfilegt? Getum við einhvern tíma sleppt hinum óskráðu lögum  siðferðisins? Það efast ég um og því þurfa menn að axla ábyrgð sína.  Þó eitthvað sé löglegt getur það hæglega verið siðlaust og það á að vera þjóðin sem nýtur vafans.

Ágætu félagar
Fyrsti maí er rétti tíminn til að líta um öxl – um leið og við horfum fram á við. Við lítum til baka til að læra af reynslunni. Hún kennir okkur, að samstaða í okkar röðum getur lyft grettistaki. Með samstöðunni höfum við náð fram öllum okkar sætustu sigrum. Það er jafn ljóst, að þegar við göngum ekki sameinuð til verka, náum við ekki sama árangri. Þetta eru ekki ný sannindi, en samt þurfum við alltaf að minna okkur á þau aftur og aftur. Ég vil vera sá bjartsýnismaður að við getum sameiginlega fundið taktinn til að koma okkur aftur inn á rétta braut.
Á Íslandi höfum við öll skilyrði til að búa öllum mannsæmandi lífskjör og réttindi. Hér eiga allir að geta lifað við reisn og góð skilyrði. Misskipting auðs, sem kemur í veg fyrir að svo geti orðið,  er því með öllu ólíðandi. Það er okkar verkefni að tryggja velferð fyrir alla.
Það er líka okkar verkefni að koma þeim skilaboðum til alþingismanna að þau vinnubrögð sem notuð hafa verið síðastliðinn vetur séu algjörlega ólíðandi. Þar ætla ég ekki að undanskilja neinn flokk. Þeir eru allir í vinnu fyrir okkur þjóðina og eiga að vinna samkvæmt því.
Við lifum öll í sama samfélagi. Það verða að vera sömu reglur fyrir alla. Því er það þjófnaður frá okkur þegar einstaklingar og fyrirtæki koma sér undan að greiða til þjóðfélagsins eins og þeim ber. Áætlað er að um 80 milljörðum sé stungið undan í skatttekjum til ríkis og sveitarfélaga á ári hverju. Það er hægt að gera ýmislegt  fyrir þá upphæð. Verkalýðshreyfingin leggur sitt af mörkum  til að minnka undanskot með verkefninu einn réttur ekkert svindl. Þar er samvinnan í hávegum höfð. Stofnanir eins og Ríkisskattstjóri, Vinnumálastofnun, Vinnueftirlit auk lögreglu hafa tekið höndum saman við verkalýðshreyfinguna við eftirlit um fyrirtæki séu ekki í svartri atvinnustarfsemi. Við hugum einnig að jöfnuði í samfélaginu með því að skoða nýtt vinnumarkaðsmótel. Þar er hugmyndin að tryggja öllum ávinning þegar vel gengur í hagkerfinu og að deila réttlátlega þegar við þurfum að taka á okkur byrðar. Einnig er markmið okkar að jafna lífeyrisréttindi landsmanna. Það þurfa allir að skapa þann stöðugleika sem við viljum búa við.
Í síðustu kjarasamningum sömdum við um breytt húsnæðiskerfi. Samkomulag er um byggingu leiguíbúða og þar hefur Alþýðusambandið tekið ákveðið frumkvæði. Á afmælishátíð sambandsins var kynnt stofnun leiguíbúðarfélags sem í samvinnu við sveitarfélög ætlar að byggja íbúðir sem leigðar verða á sanngjörnu verði. Það er mjög brýnt að þau frumvörp sem félagsmálaráðherra hefur boðað verði afgreidd frá alþingi nú í vor. Húsnæðisskortur stendur ungu fólki fyrir þrifum í að fóta sig í íslensku samfélagi. Við erum því miður enn að missa ungt fólk frá landinu og húsnæðisvandinn stendur einnig í vegi fyrir því að þeir sem fluttu út í kreppunni geti komið til baka. Húsnæðisskortur er víða að verða þess valdandi að fyrirtæki fá ekki starfsfólk og stendur því starfsemi og þróun fyrirtækja fyrir þrifum.
Vegna fjölgunar starfa í landinu vantar einnig fólk í fleiri störf en við getum mannað. Því þurfum við að leita á náðir erlendra starfsmanna. Vonandi setjast einhverjir þeirra að á landinu. Það eykur á fjölbreytileika þjóðarinnar. Við eigum að standa vörð um kaup og kjör þessara erlendu starfsmanna og átakið einn réttur ekkert svindl er einnig ætlað til þess. Það er mín von að við lítum á þessa erlendu starfsmenn sem jafningja  sem í samvinnu gera gott samfélag betra.
Notum alþjóðlegan baráttudag verkamanna, 1. maí til að efla baráttuandann og stappa stálinu hvert í annað. Þannig náum við árangri í baráttunni fyrir því að tryggja velferð og mannsæmandi lífskjör allra á Íslandi.
Við höfum staðið saman í baráttunni hingað til og gerum það næstu hundrað árin.
Til hamingju með daginn.

 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com