Skip to main content
Stéttarfélag.is

Ræða forseta ASÍ á formannafundi 2023

By November 6, 2023November 7th, 2023No Comments
DSC1278 Copy
Kæru félagar.
Við komum hér saman á mestu ógnar- og óvissutímum sem við flest hver höfum upplifað. Hryllingurinn sem innrás Rússa í Úkraínu hefur skapað ætlar engan enda að taka. Nú eru meira en 600 dagar liðnir frá því að Vladímír Pútín Rússlandsforseti setti evrópsk öryggismál á hliðina með því að fyrirskipa hersveitum sínum að fara yfir landamærin að Úkraínu. Fyrir hugrekki og baráttuþrek Úkraínumanna og ríkulegan stuðning Vesturlanda í formi vopna og þjálfunar hefur Rússum enn ekki tekist það ætlunarverk sitt að knésetja Úkraínu og koma lögmætri ríkisstjórn landsins frá völdum. Blóðbaðið er óskaplegt; ógerlegt er með öllu að segja fyrir um rás atburða. Við vitum það eitt að þessi átök geta enn magnast og að áhrif þeirra geta birst okkur í fleiri myndum en í formi flóttafólks sem Íslendingar hafa verið svo lánsamir að geta veitt skjól á erfiðustu tímum í lífi þess.Fyrir rétt tæpum mánuði frömdu síðan hryðjuverkamenn frá Gaza-svæðinu fjöldamorð á óbreyttum borgurum í Ísrael. Þessi hryllilegi glæpur hefur nú þegar kallað áður óþekktar hörmungar yfir aðra saklausa borgara, nú íbúa Gaza, sem Ísraelar hafa beitt miskunnarlausri harðneskju um áratugaskeið. Hefndaraðgerðir Ísraela eru að líkindum rétt að hefjast á þessari litlu spildu lands við Miðjarðarhafið og víst er að þessi átök sýnast miklu líklegri til að breiðast út en að takist að takmarka þau. Hernaður Ísraela gegn Hamas-hreyfingunni getur dregið önnur ríki í þessum heimshluta inn í víðtækari átök sem kunna að hafa ófyrirsjáanleg áhrif á vettvangi alþjóðlegra öryggismála. Ekki þarf mikið til að gjörvöll Mið-Austurlönd logi í átökum jafnvel með beinni aðkomu Bandaríkjamanna, Rússa og ef til vill Kínverja.
Ég þykist viss um að flest okkar hafi að undanförnu leitt hugann að því hvort sjálfur heimsfriðurinn verði brátt úti.
Til viðbótar við þetta eru populistar sem hugsa hvorki um þjóðarhag né frelsi að ná völdum víða. Þeir eru enn ein ógnin við lýðræði og stöðugleika þjóða.

Ágætu fundarmenn.
Ég fjalla hér um þessa hryllilegu atburði sem við fáum fréttir af á hverjum degi til að leggja áherslu á þá miklu óvissutíma sem nú ríkja. Við getum verið viss um að takist ekki að hindra útbreiðslu átaka í Evrópu og Mið-Austurlöndum mun áhrifa þeirra gæta hér á landi og þau áhrif geta snert líf okkar allra og afkomu þjóðarbúsins. Þessi áhrif geta birst okkur með ýmsu móti og misalvarlegu; allt frá miklum hækkunum á innfluttum nauðsynjum, til flóttamannastraums, til beinnar ógnar við öryggi lands og þjóðar.

Á síðustu árum höfum við fengið að kynnast því hversu margt í umhverfi okkar getur skyndilega breyst og kollvarpað öllum okkar áætlunum. Athyglinni er gjarnan beint að umhverfismálum og ógnum loftslagsbreytinga en mesta hættan stafar samt af mannanna verkum; nánar tiltekið af ákvörðunum pólitískra leiðtoga sem oftar en ekki er ástæða til að ætla að gangi ekki heilir til skógar. Við þekkjum þetta sjálf – við sáum ógnarkrafta mannlegrar heimsku og vitfirringar að verki hér í hruni fjármálakerfisins haustið 2008; þær hörmungar voru mannanna verk; brjálsemi græðgi, siðblindu, vanhæfni og ábyrgðarleysis fór nærri því að kalla efnahagslega gjöreyðingu yfir landið og svipta þjóðina forræði í eigin málum. Það er engin tilviljun að þessar hamfarir eru enn að stórum hluta óuppgerðar.

Við vitum að innrásin í Úkraínu hefur þegar haft mikil áhrif á efnahagslíf Vesturlanda og skapað bæði ólgu og óvissu sem við höfum einnig fundið fyrir hér á landi. COVID-faraldurinn og ofsafengin viðbrögð við honum olli einnig efnahagshremmingum sem enn sér ekki fyrir endann á.

Þessir atburðir hafa haft mótandi áhrif á allt umhverfi okkar þegar við horfum til komandi kjarasamninga. Ég veit að í þessum hópi þarf ég ekki að fjölyrða um hvernig verðbólga, almenn dýrtíð og síhækkandi vextir hafa leikið umbjóðendur okkar. Þegar við bætist algjört neyðarástand í húsnæðismálum, hnignun velferðarkerfa, feysknir innviðir, ónýtir vegir birtast okkur verkefni okkar og ábyrgð.
Já, góðir félagar, ég legg áherslu á ábyrgð.

Við getum auðvitað velt því fyrir okkur hvort það stjórnmálafólk sem nú er við völd í landinu skorti ábyrgðartilfinningu. Við vitum að skeytingarleysið um hag launafólks er algjört. En eru þau ábyrgðarlaus. Ég tel svo ekki vera. Þau hafa bara skyldum að gegna gagnvart öðrum en almenningi í landinu, sem skýrist af aðgerðum á kjörtímabilinu.

Sennilega eru skýringarnar fleiri en ég hef að undanförnu staldrað við þá firringu sem einkennir íslensku stjórnmálastéttina og núverandi ríkisstjórn sérstaklega. Ég tel skýringuna vera þá að þetta fólk deilir ekki lengur kjörum með almenningi í landinu. Við getum nefnt skattlausan starfskostnað, ofurréttindi í lífeyrismálum, frí umtalsverðan hluta ársins og nú síðast ferðahvetjandi frípunktakerfi. Ég tel þetta til marks um spillingu í íslenskum stjórnmálum; ráðin eru samantekin og almenningur borgar.

Fyrr en síðar verður ekki hjá því komist að verkalýðshreyfingin fjalli um spillinguna sem tröllríður stjórnmálum og fjármálalífi hér á landi.
Já, þetta er fólkið sem nú krefur verkalýðshreyfinguna um að ganga fram af „ábyrgð” því ella fari atvinnu- og efnahagslífið hér á hliðina með tilheyrandi hörmungum. Svigrúmið margfræga er nefnilega ekki neitt – eitt fyrsta verk nýja fjármálaráðherrans var að láta þau boð út ganga að nú væri alls ekkert svigrúm til að hækka launin. Þarna talar valdamaður, sem nýtur sérkjara í öllum efnum, til launafólks.

Nei, við vísum þessum málflutningi á bug. Launafólk ber ekki ábyrgð á verðbólgunni, húsnæðisvandanum, einokuninni, vaxtaokrinu, verðsamráðinu, þjónustuskortinum og stöðugum hækkunum á nauðsynjavörum. Þaðan af síður er það ábyrgt fyrir þeirri skefjalausu misskiptingu auðsins sem við horfum upp á og lýsir sér í allsnægtum útvaldra og eignaleysi hinna mörgu.
Þannig birtist okkur „stöðugleikinn” margfrægi. Eftir sex ár af „stöðugleika” er landsmönnum öllum orðið ljóst hvað hann þýðir; í honum felast verkleysi, kyrrstaða, óbreytt ástand, innihaldslausar glærusýningar, límseta á valdastólum, valdanna vegna.

Nú hefur ríkisstjórnin kynnt oftar en tölu verður á komið áætlun um stórkostlega uppbyggingu íbúða. Þar hefur ekki vantað glærusýningarnar. Hver er árangurinn? Íbúðum í byggingu fækkar.

Innfluttu vinnuafli er komið fyrir í húsaskjóli sem eins og dæmin sýna getur verið lífshættulegt. Leigjendur eru varnarlausir gagnvart siðlausum hækkunum stórfyrirtækja. Unga fólkið er fast i foreldrahúsum.

Úrræðaleysið er algjört og almenningi er boðið upp á endurteknar leiksýningar. Húsnæðisuppbygging og húsnæðislánakerfið í landinu er augljóslega í molum; það megnar ekki að uppfylla þarfir almennings og er því úr leik. Kerfin eru fyrir fólkið en ekki öfugt og hér blasir við almenningi að gera þarf kerfisbreytingu.

Seðlabankastjórinn hvetur nú skuldum hlaðið launafólk til að drífa sig yfir í verðtryggðu húsnæðislánin. Lágvaxtastefnan sem Seðlabankinn boðaði og innleiddi hefur beðið algjört skipbrot. Margir hafa þegar orðið fyrir þungum höggum vegna síhækkandi vaxta og við vitum að yfir samfélaginu vofir snjóhengja í formi vaxtabreytinga sem steypast mun yfir af fullum þunga takist ekki að ná verðbólgu niður í landinu. Fólk er flutt nauðungarflutningum yfir í Íslandslánin alræmdu og í skuldafangelsi og eignaleysi. Svona framkoma þekkist hvergi í siðmenntuðum samfélögum.

Fjármálakerfið á Íslandi þjónar ekki almenningi eins og fram kom í nýlegri skýrslu starfshóps um gjaldtöku og arðsemi bankanna. Samkeppni á þessu sviði er í raun engin og hagnaðurinn ofboðslegur. Stjórnvöld boða óbreytt ástand, kyrrstöðu „stöðugleikans”. Þetta kerfi er með öllu óboðlegt og því þarf að breyta.

Nýverið brá formaður Læknafélags Íslands upp mynd af stöðunni í heilbrigðismálum landsmanna. Því kerfi hafa stjórnmálamenn einnig siglt í strand. Lækna, sem annað heilbrigðisstarfsfólk skortir. Öll viðbrögð vantar við hraðri fjölgun íbúa í landinu, öldrun þjóðarinnar og mikils fjölda ferðamanna. Formaðurinn lýsir fumi og fáti sem beinlínis hafi gert ástandið verra og gegndarlausri skriffinnsku sem læknum er gert að sinna. Hún segir að nokkur héruð landsins verði læknislaus innan fárra ára verði ekki brugðist við og vissar sérgreinar lækninga séu beinlínis í „útrýmingarhættu”. Álit formannsins er skýrt og skorinort: „stjórnvöld skortir heildarsýn til að bregðast við fyrirliggjandi vandamálum í heilbrigðiskerfinu.”

Já, þarna er enn eitt grunnkerfi þjóðarinnar í molum.
Þrátt fyrir sterk ítök framsóknar í núverandi ríkisstjórn þurfa ungir bændur að senda frá sér neyðarkall vegna yfirvofandi fjöldagjaldþrota. Eins og aðrir hafa þeir fengið að kenna á sinnuleysinu.

Kæru félagar.
Ég gæti haft þessa upptalningu lengri og nauðsynlegt er að við gerum okkur grein fyrir hvar við erum stödd þegar upphaf samningalotu hefst. Ófremdarástand blasir við öllum þeim sem eru ekki eru í djúpri afneitun og meðvirkni.
Samfélag okkar er í verulegum vanda statt og ráðamenn kunna þá lausn eina að auka álögur á almenning. Við sáum um síðustu áramót hvernig ríkisstjórnin skrúfaði upp verðbólguna með því að hækka skatta og krónugjöld og í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er boðuð sama stefna; nú sem fyrr koma kerfisbreytingar ekki til greina til að tryggja að útgerðin greiði eðlilegt gjald af auðlindarentu eða auðugt fólk borgi hærri skatta af fjármagnstekjum og hætti tekjutilflutningi. Og auðvitað á almenningur að taka á sig kostnaðinn í gegnum lífeyrissjóðina vegna ÍL-sjóðs sem stjórnmálamönnum tókst að reka í þrot.
Þess vegna dreg ég þá ályktun að ábyrgð stjórnarinnar liggi annars staðar en hjá launafólki.

Við sjáum að illa sködduð tekjutilfærslukerfin ná ekki lengur að uppfylla tilgang sinn. Ójöfnuðurinn fer vaxandi og nú er svo komið að fólk í fullri vinnu nær ekki að láta enda ná saman. Lægst launaða verkafólkið stritar en býr við fátækt. Ástandið er orðið eins og við þekkjum í Bandaríkjunum þar sem fólk í fullri vinnu fær „matarmiða” vegna þess að launin nægja ekki til framfærslu.
Við sjáum ríki og sveitarfélög hafa forystu um útvistun starfa láglaunafólks, ekki síst kvenna og innflytjenda. Þannig telur stjórnsýslan sig spara peninga með því að minnka laun og réttindi fólks sem þegar á vart til hnífs og skeiðar. Þarna er á ferð stjórnmálafólk sem gumar sig af því við hvert tækifæri hversu frábærlega vel Íslendingar standi sig í jafnréttismálum og hversu æðisleg fjölmenningin sé í landinu. Firringin er algjör. Hræsnin er svo augljós að svona málflutningur verður aðeins skýrður með algjöru sambandsleysi við samfélagið og fullkominni blindu á eigin stöðu og gerðir.

Til landsins er flutt vinnuafl í stórum stíl til að svara þörfum atvinnulífsins. Oftar en ekki er þetta innflutta láglaunafólk með öllu háð atvinnurekanda sínum um afkomu og húsaskjól. Við þekkjum hrikaleg dæmi um þetta; misneytingu og réttleysi. Hér er á ferð meiriháttar samfélagsbreyting; það sem við sjáum hér er hvorki meira né minna en eins konar afturhvarf til lénsskipulagsins. Við sjáum það sama gerast í sjávarútveginum þar sem risafyrirtækjum hefur verið afhent auðlind sem veitir þeim efnahagslegt bolmagn til að fara sínu fram, ráða lögum og lofum til hliðar við ríkisvaldið og móta afkomu og framtíð mikils fjölda fólks. Nýja lénsskipulagið birtist okkur í samþjöppun mikilla eigna á fárra höndum og sífellt erfiðari afkomu hinna mörgu. Það birtist okkur í máttlausum stofnunum og útvistun valdsins í hendur fjármagnsaflanna.

Þetta er ástæða þess að ég dreg þá ályktun að stjórnmálin séu ekki að vinna fyrir almenning í landinu.

Ágætu fundarmenn.
Þetta er það sem við er að eiga. Þetta er veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir. Og ég fullyrði við ykkur að pólitíkin í þessu landi mun ekki snúa þessari þróun við. Þarna liggur ábyrgð okkar og hún er allt annars eðlis en fjármagnsöflin halda á lofti í fjölmiðlum sínum og gagnvart íslenskum almenningi.

Verkalýðshreyfingin er sterkasta afl framfara, mannréttinda og breytinga á Íslandi. Það er söguleg staðreynd. Ábyrgð okkar felst í því að standa vörð um það sem tekist hefur að tryggja ekki síður en að sækja fram í þágu launafólks. Líkt og ég reyndi að lýsa hér að framan verðum við á degi hverjum vitni að því hvernig stoðir velferðarkerfisins veikjast, ýmist sakir hirðuleysis eða ásetnings um að hola það að innan.

Við getum ekki yppt öxlum og leitt hjá okkur samfélagsbreytingar sem augljóslega eru fjöldanum og framtíðinni ekki til góðs. Sem framfaraafl og mannréttindahreyfing þurfum við að axla þá ábyrgð saman sem þessu hlutverki fylgir. Það krefst félagslegs þroska og það krefst aga. Við verðum að vera tilbúin til að greina stóru myndina og skilgreina verkefnin. Við verðum að vera tilbúin til að beisla kraftinn sem felst í samstöðu okkar og knýja fram bætt kjör alls launafólks að sjálfsögðu en einnig samfélagslegar umbætur í þágu jöfnuðar og mannlegrar reisnar. Enginn annar mun gera þetta fyrir okkur; bregðist verkalýðshreyfingin nú munu sérhagsmuna- og fjármagnsöflin herða sóknina og vaða yfir þetta þjóðfélag án minnstu virðingar fyrir réttindum og hagsmunum launafólks. Græðgin og ósvífnin hurfu ekki í hruninu – öðru nær.

Ég tók að mér embætti forseta Alþýðusambandsins í fullvissu þess að verkalýðshreyfingin ætlaði að snúa bökum saman og að persónulegar erjur væru að baki. Ég veit að við náum engu fram í þeim stóru verkefnum sem við okkur blasa ef við ætlum að viðhalda klofningi og ágreiningi. Ef það er einlægur ásetningur okkar að nýta ekki styrkinn sem felst í fjöldanum og samstöðunni fullyrði ég að sérhagsmunaverðirnir og fjármagnsöflin munu ekki hika við að færa sér í nyt svo augljós veikleikamerki.
Við þekkjum skipulega viðleitni þessara afla til að veikja verkalýðshreyfinguna; þingmenn Sjálfstæðisflokksins stefna beinlínis að því að rústa tilverugrundvelli stéttarfélaga og hreyfingarinnar. Vinnumarkaðslíkan okkar sætir stöðugum árásum. Nú hyggjast andstæðingar okkar auka völd ríkissáttasemjara og þar með veikja þau vopn sem við ráðum yfir í baráttunni.
Þetta er veruleikinn. Ef ekki er ástæða nú til að slíðra sverðin og þétta raðirnar fæ ég ekki séð við hvaða aðstæður það er yfirhöfuð nauðsynlegt. Bresti samstaða okkar getur mjög illa farið og gerist það höfum við ekki staðið undir ábyrgð okkar.

Ágætu fundarmenn
Á fundi formanna landssambanda og stærstu aðildarfélaga á þriðjudag náðist samstaða um að ASÍ félögin standi saman að viðræðum við viðsemjendur okkar innan Samtaka atvinnulífsins og við fulltrúa ríkisvaldsins um sameiginleg mál. Þessi ákvörðun var svo rædd á fundi miðstjórnar á miðvikudag. Þar var ákveðið að formenn landssambanda og stærstu félaga myndi viðræðunefndina ásamt forseta og varaforsetum Alþýðusambandsins. Við eigum einhverja pappírsvinnu eftir, en ég tel að við séum það samhuga að hún sé nánast handavinna. Ég legg áherslu á, að viðræðunefndin mun eiga þétt og náið samráð við fulltrúa í miðstjórn og mun halda þeim upplýstum um gang viðræðna. Við munum síðar í dag fara yfir helstu forgangsatriði málefnanefnda og hefja þannig samráð um það sem við teljum brýnast að taka fyrir í komandi samningaviðræðum.

Frá því ég tók við starfi forseta hefur áhersla á samstarf og samstöðu verið mitt leiðarljós og ég get sagt ykkur að ég hef enn herst í sannfæringu minni um nauðsyn samstöðu og samvinnu innan verkalýðshreyfingarinnar á þeim mánuðum sem liðnir eru frá síðasta þingi okkar. Ég rakti sjónarmið mín hér að framan og ég tel það merkan árangur hjá okkur öllum að hafa náð samstöðu um framhaldið.
Kvennaverkfallið 24. október með 19 viðburðum vítt og breitt um landið ætti að vera okkur öllum brýning og áminning um kraftinn sem samstaða, einurð og sameiginleg sýn leysir úr læðingi. Við skulum hafa þennan merka viðburð í huga nú þegar við göngum fram til aðkallandi verkefna.

Í aðdraganda þjóðarsáttarsamninganna sem undirritaðir voru í febrúarmánuði 1990 sagði Guðmundur J. Guðmundsson, þáverandi formaður Verkamannasambandsins, að þótt þessi leið væri ekki með öllu áhættulaus hefði það verið „heljarstökk inn í náttmyrkrið að fara gömlu verðbólguleiðina.” Og hann bætti við: „Ekkert fer verr með þá lægstlaunuðu en verðbólgan.”
Ég tel að þessi orð Jakans eigi vel við í dag. Árangur í glímunni við verðbólguna er forsenda þess að unnt sé að auka kaupmáttinn. Við vitum öll að launahækkanir verða fljótt að engu á verðbólgutímum. Raunverulegum kjarabótum i þágu þeirra sem lægstu launin hafa náum við ekki fram í stjórnlausu efnahagsumhverfi.

Við stöndum frammi fyrir risavöxnu verkefni. Ég legg áherslu á að verkalýðshreyfingin mun ein og sér ekki leiða baráttuna gegn verðbólgunni; forsenda árangurs í því verkefni er samstarf hreyfingarinnar, atvinnurekenda, banka, verslunar, sveitarfélaga og ríkisvaldsins. Og fleiri verða kallaðir til. Það krefst heiðarleika, trausts og sameiginlegrar sýnar allra á verkefnið. Takist ekki að stilla saman þessa strengi tel ég allar líkur á að við náum ekki viðunandi árangri. Þessi leið er því ekki áhættulaus frekar en þjóðarsáttin 1990 en við vitum öll að gamla verðbólguleiðin, eins og Guðmundur J. nefndi hana, er í raun enginn valkostur. Því þurfum við að tryggja okkur í bak og fyrir því það er alveg víst að við munum ekki ein bera ábyrgðina á komandi kjarasamningum.

Kæru félagar
Ég býð ykkur öll velkomin til þessa fundar. Hann er sérlega mikilvægur á þeim óvissutímum sem nú ríkja bæði í alþjóðamálum og hér á landi. Við skulum nýta þennan vettvang til að treysta böndin, þétta raðirnar og ræða hér það skýra verkefni sem við blasir í stöðugri baráttu okkar til að bæta kjör og réttindi umbjóðenda okkar. Við skulum stolt axla þá ábyrgð að vera sterkasta afl mannréttinda og framfara í landinu því án okkar verða engar breytingar.
Ég segi þennan formannafund Alþýðusambandsins settan.

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com