Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum í dag 17. september 2025:
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) mótmælir harðlega þeim áformum stjórnvalda að skerða atvinnuleysistryggingar og skorar á ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að láta aðra en atvinnulausa greiða fyrir sparnaðartillögur ríkisstjórnarinnar.
Bein réttindaskerðing er ekki hagræðing eða ráðdeild í ríkisfjármálum.
Umrædd áform bætast nú við miður ígrunduð áform ríkisstjórnarinnar um afnám jöfnunarframlags vegna örorkubyrði sem leiðir til beinnar skerðingar réttinda örorku- og ellilífeyrisþega í lífeyrissjóðum.
Atvinnulausir og aldraðir eru ekki breiðu bökin sem sanngjarnt er að beri byrðarnar af hagræðingu í ríkisrekstri.
Atvinnuleysistryggingar eru einn af hornsteinum afkomuverndar launafólks. Atvinnuleysistryggingum var upphaflega komið á fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar eftir mikil átök og langt verkfall um miðbik síðustu aldar. Alla tíð síðan hefur verið viðurkennt að ekki yrði hróflað við þeim grundvallarréttindum nema í breiðri sátt við verkalýðshreyfinguna. Hagsmunir launafólks eru miklir og kerfið órjúfanlegur hluti af grunngerð sveigjanlegs vinnumarkaðar hér á landi. Ríkisstjórnin hefur nú vikið harkalega af þessari braut með áformum um styttingu bótatímabils atvinnuleysistrygginga um 12 mánuði auk umtalsverðrar þrengingar á ávinnslurétti tryggingarinnar.
Atvinnuleysistryggingar eru hluti af réttindum sem launafólk ávinnur sér með þátttöku á vinnumarkaði. Fyrir allan þorra fólks er mikið áfall að missa atvinnuna. Réttindakerfið á því fyrst og fremst að vera uppbyggilegt, tryggja afkomu, ráðgjöf og stuðning við virkni og atvinnuleit.
Verkalýðshreyfingin er nú sem endranær reiðubúin í viðræður um umbætur á atvinnuleysistryggingakerfinu. Rétt er að minna stjórnvöld á að starfshópur umendurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar skipaður fulltrúum aðila vinnumarkaðarins hefur ekki fengið tækifæri til að ljúka vinnu sinni og leggja fram tillögur eins og eðlilegt væri.
Miðstjórn ASÍ skorar á ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að falla nú þegar frá einhliða áformum um að skerða réttindi atvinnuleitenda og sýna í verki að hér á landi sé þríhliða samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda haft í heiðri.