Forseti ASÍ undirritaði í hádeginu samkomulag um launaþróunartryggingu til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Laun félagsmanna í aðildarfélögum ASÍ sem starfa hjá sveitarfélögum munu hækka um að meðaltali 1,4 prósent vegna samkomulagsins og laun félaga ASÍ sem starfa hjá ríkinu um að meðaltali 0,5 prósent. Launaþróunartryggingin er afturvirk og gildir frá 1. janúar 2018.
Forseti ASÍ undirritaði í hádeginu samkomulag um launaþróunartryggingu til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Laun félagsmanna í aðildarfélögum ASÍ sem starfa hjá sveitarfélögum munu hækka um að meðaltali 1,4 prósent vegna samkomulagsins og laun félaga ASÍ sem starfa hjá ríkinu um að meðaltali 0,5 prósent. Launaþróunartryggingin er afturvirk og gildir frá 1. janúar 2018.
Samkomulagið sem undirritað var í dag er gert á grunni rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins frá október 2015. Aðild að samkomulaginu eiga íslenska ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Alþýðusamband Íslands, BSRB og Samtök atvinnulífsins.
Í rammasamkomulaginu er kveðið á um að launaþróun þeirra sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum verði ekki lakari en á almennum vinnumarkaði. Með því er ætlunin að tryggja að laun opinberra starfsmanna sitji ekki eftir í almennri launaþróun.
Horft er til þróunar launa á almenna markaðinum annars vegar og hjá þeim félagmönnum sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum hins vegar á tímabilinu nóvember 2013 til nóvember 2017. Eins og fram kemur í rammasamkomulaginu verður launaþróunin mæld áfram og leiðrétt vegna ársins 2018, ef tilefni er til, þegar þær tölur liggja fyrir.
,,Þetta er ánægjuleg og mikilvæg niðurstaða sem hér hefur orðið gagnvart félögum okkar sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum‘‘ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, þegar samkomulagið hafði verið undirritað. ,,Þessum hluti rammasamkomulagsins frá því október 2015 er ætlað það hlutverk að koma í veg fyrir að launaþróun félagsmanna ASÍ hjá hinu opinbera dragist aftur úr launaþróuninni á almennum vinnumarkaði. Það er augljóst að launaskriðið á almennum vinnumarkaði er orðið umtalsvert og því er þetta ákvæði rammasamkomulagsins að skila mikilvægum árangri.‘‘