Skip to main content
VMF

Spurt og svarað um COVID-19

By March 19, 2020No Comments

Kjaramálasvið VR hefur unnið að því að svara spurningum sem upp hafa komið varðandi réttindi launafólks í tengslum við COVID-19. Hér má sjá svör við helstu spurningunum.

Ítarlegar upplýsingar um COVID-19 má finna á vef landlæknis.

SPURT OG SVARAÐ:

Hvaða réttarstaða gildir varðandi laun í sóttkví/einangrun?
Sátt tókst með ASÍ, SA og ríkisstjórninni að SA beini því til atvinnurekenda að greiða laun til starfsmanna i sóttkví.

  • Ég er sett/settur í sóttkví/einangrun af hálfu atvinnurekanda: þú átt rétt á fullum launagreiðslum.
  • Ég er sett/settur í sóttkví/einangrun af hálfu landlækni: Þú nýtur réttinda skv. samkomulagi sem aðilar á vinnumarkaði eru að útfæra skv. sameiginlegri yfirlýsing forsætisráðuneytisins, ASÍ og SA. Niðurstaða liggur fyrir fljótlega hver greiðslan eigi að vera.
  • Ég fer í sjálfskipaða sóttkví/einangrun: Þú getur ekki tekið ákvörðun einhliða um það að fara í sóttkví/einangrun. Ef þú telur þig vera í sérstakri hættu verður þú að koma því á framfæri og er eðlilegt að atvinnurekandi komi á móts við þig. Í öllum tilfellum verður þú að semja við þinn næsta yfirmann. Í sumum tilfellum er hægt að vinna að heiman. Sjá spurningu ef ég vinn að heiman. Ef ekki næst samkomulag um að þú vinnir að heiman og ert í sjálfskipaðri  sóttkví þá er það á eigin áhættu og kostnað þar sem þú getur ekki tekið einhliða ákvörðun um vinnusambandið. Því leggjum við alltaf áherslu á að semja við þinn næsta yfirmann.
  • Ef ég er í sóttkví og er veik/veikur: þá áttu veikindarétt skv. kjarasamningi, að honum tæmdum áttu mögulega rétt á greiðslum úr sjúkrasjóð. 

Ef ég veikist af COVID-19, hver er réttur minn til launa?
Ef þú veikist átt þú rétt á veikindarétt skv. kjarasamningi. Þegar hann hefur verið tæmdur áttu mögulega rétt á greiðslum úr sjúkrasjóð. 

Ef ég er sett/ur í sóttkví, þarf ég þá að vinna heiman frá mér ef farið er fram á það?
Ekki er hægt að skipa þér einhliða að vinna að heiman. VR vill þó benda öllum á að leggjast á eitt gegn þessari vá ef hægt er að koma því við til að halda samfélaginu og atvinnulífinu gangandi. Slík ákvörðun er að mati VR ávallt sameiginleg á mili þín og yfirmanns þíns.
Í þessum tilfellum skal atvinnurekandi útvega þau tæki og tengingar sem til þarf.

Get ég neitað að fá vinnufélaga minn í vinnu sem er að koma frá skilgreindu hættusvæði, eða er veikur?
Nei – en ekki er hægt að setja þig í þær aðstæður að vinna með einstaklingi sem greindur hefur verið með smit eða sem yfirvöld hafa skipað að fara í sóttkví. Atvinnurekenda þínum ber að tryggja öruggt og heilsusamlegt umhverfi starfsmanna sinna.

Hver er réttur minn ef ég treysti mér ekki í vinnu út af kvíða vegna COVID-19?
Ef þú ákveður sjálf/sjálfur að fara í sóttkví þá gerir þú það á eigin áhættu og kostnað.
Kvíði getur einnig verið "sjúkdómur" í skilningi kjarasamninga og framkallað rétt til veikindakaups. Læknisfræðilegt mat þarf þá að liggja fyrir þ.e. vottorð.
Ef ekki er um sjúkdóm að ræða sem veldur kvíða þá þarf að hafa samband við vinnuveitanda og gera við hann samkomulag um fjarvist, til að tryggja að ekki sé um ólögmæta fjarvist að ræða

Hvað geri ég ef atvinnurekandi óskar eftir að ég skili læknisvottorði vegna fjarvistar þegar ég er í sóttkví. 
Samkvæmt ákvörðun yfirvalda munu fyrirmæli sóttvarnarlæknis um að einstaklingur fari í sóttkví jafngilda læknisvottorði vegna fjarvista úr vinnu. Vottorð um vinnufærni yrði ekki gefið út í andstöðu við það.

Hvað ef barn er sett í sóttkví/einangrun, hver eru réttindi foreldra til að vera heima?
Um það gilda reglur kjarasamninga um fjarvistir foreldra vegna veikra barna, sé barnið veikt. Þegar veikindaréttur barns hefur verið tæmdur tekur sjúkrasjóð við.  Ef barnið er ekki veikt en er í sóttkví sem skipuð hefur verið af hálfu Landlækni þá eru aðilar að ræða um útfærslu á því hvort hægt sé að sækja geiðslu vegna þess til Sjúkratrygginga, kemur í ljós fljótlega.

Hvaða rétt á ég ef ég þarf að vera heima vegna þess að leikskólinn er lokaður?
Þú átt ekki rétt til launa. Ef annarri umönnun er ekki við komið þá getur þú tilkynnt lögmæta fjarvist á grundvelli laga um Fjölskylduábyrgð nr. nr. 27/2000. Í einhverjum tilfellum væri hugsanlegt að sækja um foreldraorlof skv. 7. kafla laga nr. 95/2000 um fæðingar og foreldraorlof. Samkvæmt þeim lögum er foreldrum heimilt að vera frá vinnu til að sinna barni í allt að 4 mánuði þar til barnið nær 8 ár aldri.  Hafa skal í huga að hér er ekki um launað leyfi að ræða.
Verið er að ræða um það við stjórnvöld hvort atvinnurekandi geti sótt um greiðslu til Sjúkratrygginga til að dekka laun starfsmanna ef leikskólinn er lokaður vegna sóttkví skv. ákvörðun Landlækni. Niðurstaða mun væntanlega liggja fyrir fljótlega.

Ég er bundin að vera heima vegna aðstandanda sem kemst ekki í dagvist vegna COVID-19. Hvaða rétt á ég til launa?
Þú átt ekki rétt á greiðslum frá atvinnurekanda, nema ef um ræðir barn yngra en 13 ára sem er veikt skv. kjarasamningi. Eða ef um barn undir 16 ára er um að ræða sem er a.m.k. einn dag á sjúkrahúsi. Ef um aðra en framangreinda er um að ræða er ekki greiðsluskylda af hálfu atvinnurekanda. Fjarvist gæti þó talist nauðsynleg á grundvelli laga nr. 27/2000 um fjölskylduábyrgð. Því mundi slík er launalaus og telst vera lögmæt fjarvist frá vinnu. Í þessu tilfelli þarf að upplýsa atvinnurekanda/sinn næsta yfirmann um stöðuna.

Maki minn er í áhættu hóp og ég tel mig verða að verja heilsu hans/hennar, hvaða rétt hef ég?
Ef þú vegna fjölskyldu aðstæðna treystir þér ekki að mæta til vinnu vegna ótta við smit þá verður þú að ræða við þinn yfirmann. Þessi ákvörðun er þá í raun sjálfskipuð sóttkví/einangrun.
Þú getur ekki tekið ákvörðun einhliða um það að fara í sóttkví/einangrun. Ef þú telur þig vera í sérstakri hættu verður þú að koma því á framfæri og er eðlilegt að atvinnurekandi komi á móts við þig. Í öllum tilfellum verður þú að semja við þinn næsta yfirmann. Í sumum tilfellum er hægt að vinna að heiman. Sjá spurningu ef ég vinn að heiman. Ef ekki næst samkomulag um að þú vinnir að heiman og ert í sjálfskipaðri  sóttkví þá er það á eigin áhættu og kostnað þar sem þú getur ekki tekið einhliða ákvörðun um vinnusambandið. Því viljum við leggja áherslu á að samið sé við sinn næsta yfirmann.

Má ég neita að fara í vinnuferð vegna hættu á smiti á COVID-19?
Ef ætlunin er að senda þig á svæði sem Landlæknir hefur skilgreint sem hættusvæði þá ertu í fullum rétti við að neita að fara.

Ef almenningssamgöngur hætta eða ganga ekki, er ég þá ekki með lögbundna fjarvist og á að fá greidd laun?
Það er á ábyrgð starfsmanns að koma sér til vinnu. Það segir í 3.4. í kjarasamningi að á þeim tíma sem strætisvagnar ganga ekki að þá eigi ferðir til og frá vinnu að greiðast af vinnuveitanda. Þessi grein miðast við hefðbundna áætlun, ekki þegar utanaðkomandi aðstæður valda því að ferðir leggjast niður vegna smit hættu eða vegna veðurs. Liggi almenningssamgöngur niðri verður þú að finna aðra leið til að mæta til vinnu. Rétt er að láta atvinnurekanda vita sem fyrst hvernig staðan er.

Ég starfa hjá fyrirtæki sem býður upp á viðburði. Vegna samkomubanns hefur fyrirtækið ákveðið að loka vinnustaðnum, hvaða réttarstöðu hef ég til launa?
Starfsmaður hefur samt sem áður vinnuskyldu og á rétt til launa ef fyrirtækið ákveður einhliða að loka.
Brjóti hins vegar opnun fyrirtækisins gegn samkomubanni þá þarf að skoða hvert og eitt tilvik sérstaklega.

Getur fyrirtæki sett mig í önnur störf en ég er ráðin til?
Fyrirtækið getur ekki sett þig í önnur störf en þú ert ráðin til og falla innan ráðningarsamnings. Í sumum tilfellum getur vinnu umhverfi starfsmanna breyst vegna COVID-19 veirunnar. Í þeim tilfellum verða aðilar að komast að samkomulagi um breytta tilhögun vinnu. 

Ég vinn núna að heiman og vegna þess hef ég ekki aðgang að mötuneyti fyrirtækisins, hvaða réttarstöðu hef ég?
Ef þú átt að vinna heima þá er væntanlega ekki vel séð að þú komir á vinnustað til að borða í mötuneyti fyrirtækisins. Þá daga sem þú ert heima að vinna er rétt að það sé ekki dregin af þér sá kostnaður sem annars hefði verið gert á vinnustaðnum.

Atvinnurekandi vill gera breytingu á ráðningarkjörum mínum, hvaða rétt hef ég?
Þessi fordæmalausa staða sem afleiðing COVID-19 hefur á samfélagið breytir ekki réttarstöðu þinni. Þú ert með uppsagnarfrest skv. kjarasamningi. Aðilar geta komist að samkomulagi um breytingu á kjörum en annars er meginreglan sú að breytingar sem fela í sér lækkun á kjörum eigi sér stað með kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti.
Í sumum tilfellum er rétt að benda þér á að horfa heildstætt á stöðuna. Í einhverjum tilfellum gæti verið hagstæðara að semja tímabundið um lækkun á starfshlutfalli. Leggjum við til að ef slík er gert þ.e. að starfshlutfalli sé breytt án uppsagnar að komi til uppsagnar innan 12 mánaða frá því að breyting átti sér stað að þá verði uppsagnarfresturinn skv. upprunalegu fyrirkomulaginu. Mikilvægt er að slík breyting eigi sér stað með skriflegum hætti og gæti þá verið eitthvað á þessa leið:
      Hér með hafa (nafn fyrirtækis, kt.)  og (nafn starfsmanns, kt.) komist að samkomulag um að starfshlutfall
      (nafn starfsmanns) lækki niður í (x)% frá og með (dagsetning). Er þessi breyting einungis tímabundin og
      verður endurskoðuð (dagsetning).  Ef (nafn starfsmanns) verður sagt upp á þessum tíma skal starfshlutfall í
      uppsagnarfresti taka mið af upprunalega starfshlutfallinu.

Varðandi breytingu eins og þessa hér að ofan þá getur starfsmaður átt rétt á greiðslum á hlutabótum hjá Atvinnuleysis tryggingasjóð. Fyrir liggur frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lög um Ábyrgðasjóð launa vegna minnkað starfshlutfall, það liggur vonandi fyrir í vikunni.

Ef ég er fastur erlendis vegna landamæralokana hvaða rétt á ég?
Ef þú ert í orlofi þá ertu á eiginvegum og verður að koma upplýsingum á framfæri við fyrsta tækifæri að heimkomu þinni seinki. Ekki verður litið svo á að fjarvera þín sé brot á vinnusambandi þar sem þú getur ekki haft stjórn á þessum aðstæðum.
Ef þú ert á vegum vinnuveitanda í vinnuferð þá ber atvinnurekandinn kostnaðinn og þú átt ekki að verða fyrir launaskerðingu.

 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com