Skip to main content
AldanVMF

Staða leigjenda bætt stórlega

By March 3, 2020No Comments

Breyta á húsaleigulögum með það fyrir augum að styrkja verulega stöðu leigjenda hér á landi og gera veru á leigumarkaði að fýsilegum kosti fyrir fólk til langs tíma. Breytingarnar voru kynntar á opnum fundi í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mánudaginn 2. mars.

Skilyrði fyrir hækkun húsaleigu verða þrengd, leigusamningar skráðir og forgangur að áframhaldandi leigu tryggður

  • Breyta á húsaleigulögum með það fyrir augum að styrkja verulega stöðu leigjenda hér á landi og gera veru á leigumarkaði að fýsilegum kosti fyrir fólk til langs tíma.
  • Tekin verður upp skráningarskylda leigusamninga en hún bætir samningsstöðu leigjenda og stuðlar að sanngjarnri leigufjárhæð. Hægt verði að fletta upp á netinu meðalverði og meðallengd leigusamninga á ólíkum svæðum og hverfum.
  • Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra ávarpaði fundinn: „Leigjendur upplifa leigumarkaðinn í dag ekki sem raunverulegan valkost um búsetuform.“
  • Drífa Snædal: „Ekki hægt að hugsa sér betri kjarabætur en lækkun húsnæðiskostnaðar.“
  • Til stendur að þrengja skilyrði fyrir hækkunum á húsaleigu og bjóða upp á sáttamiðlun á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fyrir leigjendur og leigusala.

Breyta á húsaleigulögum með það fyrir augum að styrkja verulega stöðu leigjenda hér á landi og gera veru á leigumarkaði að fýsilegum kosti fyrir fólk til langs tíma. Breytingarnar voru kynntar á opnum fundi í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mánudaginn 2. mars. Á fundinum kom fram að leigumarkaðurinn á Íslandi stækkaði um 70% á árunum eftir hrun og voru þeir sem færðust yfir á leigumarkaðinn að stærstum hluta fólk með lágar tekjur. Á sama tíma hækkaði leiga á stuttum tíma um 45%.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði fyrirhugaðar breytingar á húsaleigulögunum eigi að stuðla að langtímaleigu og koma í veg fyrir óeðlilegar hækkanir á leiguverði, þegar hann kynnti þær á fundinum í dag.

Leigumarkaður ekki raunverulegur valkostur – 8 þúsund heimili greiða meira en 50% af tekjum í leigu
Ásmundur minntist á það í erindi sínu að um 22% leigjenda greiði meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu eða alls 8 þúsund heimili. Samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum telst húsnæðiskostnaður íþyngjandi fari hann umfram 40% af ráðstöfunartekjum. „Þetta segir okkur að leigjendur eru að upplifa mikið óöryggi þegar kemur að þessari grundvallarundirstöðu í lífinu, að hafa þak yfir höfuðið og eru ekki að upplifa leigumarkaðinn sem raunverulegan valkost um búsetuform. Við þessu verðum við að bregðast,“ sagði Ásmundur á fundinum. Stjórnvöldum beri skylda til að aðstoða tekjulægstu hópana á húsnæðismarkaði.

Ekki hægt að hugsa sér betri kjarabætur en lækkun húsnæðiskostnaðar
Þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á húsaleigulögum eru tímamótabreytingar. Þetta sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ, á opnum fundi hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) í dag. Þar kynnti Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, lagabreytingar sem ætlað er að bæta húsnæðisöryggi leigjenda.

Leigusali og leigutaki ekki staðið jafnfætis
Með breytingunum er leigjendum gefinn lengri tími en leigusölum til að segja upp leigusamningi og sagði Drífa að með því væri verið að viðurkenna að leigusali og leigutaki stæðu ekki endilega jafnfætis í sínu viðskiptasambandi. Jafnframt væri með lagabreytingunni verið að segja að ekki sé lengur litið á leigumarkaðinn sem tímabundið úrræði heldur eigi hann að vera raunverulegur valkostur fyrir fólk.

Einnig stendur til að koma á skráningarskyldu leigusamninga og leiguverðs á samningstíma í nýjan opinberan gagnagrunn stjórnvalda, svokallaðan húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Gert er ráð fyrir að stofnunin birti upplýsingar um markaðsleigu húsnæðis eftir svæðum og öðrum breytum og að slíkar upplýsingar muni framvegis nýtast við mat á því hvort leigufjárhæð sé sanngjörn og eðlileg í garð beggja samningsaðila.

„Agalega léleg þegar kemur að tölfræði, skráningu og utanumhaldi“
Drífa sagði skráningarskylduna afar mikilvæga. „Við erum góð í ofboðslega mörgu hérna á Íslandi en við erum agalega léleg þegar kemur að tölfræði, skráningu og utanumhaldi. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að HMS sé orðin þessi öfluga stofnun sem ég veit, af eigin reynslu, að býr yfir góðu starfsfólki. HMS er að byggja upp skráningarkerfi sem veitir okkur almennilegt yfirlit yfir húsnæðistöðuna í landinu, sem er mikilvægt því við höfum lent í því veseni aftur og aftur að vita ekki hvað fólk þarf á húsnæðismarkaði og höfum þurft að byrja frá grunni að meta það hverju sinni. Hingað til hefur leigumarkaðurinn verið hugsaður fyrir námsmenn og fyrir aðra sem tímabundin lausn en með þessum breytingum erum við að skapa aðstæður fyrir alvöru leigumarkað,” sagði Drífa á fundinum í dag.

Þrengja á skilyrðin fyrir einhliða hækkun á húsaleigu
Í þeim breytingum sem gerðar verða á húsaleigulögunum felst m.a. að stuðlað verði að því að oftar séu gerðir ótímabundnir samningar um leigu íbúðarhúsnæðis. Flestir leigusamningar hér á landi eru gerðir til skamms tíma en meðallengd þeirra er einungis fjórtán mánuðir. Ótímabundnir samningar eru einungis um 3% leigusamninga í dag. Þá kveður frumvarpið á um að leigjendur skuli njóta forgangsréttar á áframhaldandi leigu þess húsnæðis sem þeir búi í. Tekin verður upp skráningarskylda leigusamninga en hún stuðlar að bættri samningsstöðu leigjenda og sanngjarnri ákvörðun leigufjárhæðar. Fyrirmyndin er m.a. skráningarskylda heimagistingar eins og Airbnb, sem tekin var upp fyrir nokkrum árum og reynst hefur vel. Hægt verði að fletta upp á netinu meðalverði og meðallengd leigusamninga á ólíkum svæðum og hverfum. Þá mun skráningin skapa bætta umgjörð og skipulag á leigumarkaðnum í heild.

Til stendur að þrengja skilyrðin sem eru í núgildandi lögum fyrir einhliða hækkun á húsaleigu en hækkanir á leiguverði hafa verið miklar og örar, sem hefur skapað leigjendum óöryggi. Til að skera úr um ágreiningsefni verður boðið upp á sérstaka sáttamiðlun á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fyrir leigjendur og leigusala.
 

 

Close Menu

About Salient

The Castle
Unit 345
2500 Castle Dr
Manhattan, NY

T: +216 (0)40 3629 4753
E: hello@themenectar.com